fbpx
Fimmtudagur 25.apríl 2024
Fókus

Húsið brann til grunna en engar fundust líkamsleifarnar – Hvað varð um börnin?

Guðrún Gyða Eyþórs Árnadóttir
Laugardaginn 7. maí 2022 20:40

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Í næstum hálfa öld var uppi skilti með upplitaðri mynd af fimm fallegum börnum við Fayetteville í Virginíufylki í Bandaríkjunum. Myndin var af Sodder systkinunum Maurice 14 ára, Mörthu 12 ára, Louis 9 ára, Jennie 8 ára og Betty 5 ára. Hvarf þeirra er ráðgáta sem enn er reynt að leysa. 

Sagan hefst á aðfangadagskvöld árið 1945 þegar að eldur gaus upp á heimili hjónanna George og Jennie Sodder og níu barna þeirra. Reyndar voru börnin tíu en einn sonurinn var í hernum. Um klukkan eitt um nóttina komust George og Jennie út með hina tveggja ára Sylviu í fanginu ásamt börnum sínum John 23 ára, Marion 17 ára og George, 16 ára. George reyndi hvað hann gat að bjarga hinum börnum sínum fimm og braut glugga til að klifra aftur inn í eldhafið en sá lítið sem ekkert fyrir reyk og eldi. 

Jennie með elsta barn sitt, John.

Þá rauk hann út og fór aftur fyrir hús með það í huga að nota stiga til að komast upp á eftir hæð hússins. Af einhverjum óútskýrðum ástæðum var þar engan stiga að finna þótt George hefði geymt hann á sama stað til fjölda ára. George ákvað þá að keyra annan af tveimur trukkum sínum að húsinu og klifra upp á þak hans til að ná til gluggana. Hann fór í annan þeirra en bíllinn fór ekki af stað. Þá reyndi hann hinn bílinn en vildi sá ekki starta heldur. Báðir bílarnir höfðu aftur á móti verið í fullkomlega góðu lagi um morguninn. George var fullur örvæntingar og hljóp til vatnstunna sem voru við húsið í þeirri von að geta lægt eldinn. En vatnið var frosið í gegn. George stóð á endanum hjálparvana og horfði á hús sitt brenna, öskrandi nöfn barna sinna með blóðið rennandi eftir handleggjunum eftir gluggabrotið. 

Furðulegir atburðir

Hin 17 ára Marion hafði hlaupið yfir til nágranna til að hringja á slökkvilið en enginn svaraði á slökkvistöðinni. Nágranni sem séð hafði eldhafið reyndi einnig að hringja án árangurs. Það hafði aldrei gerst i bænum, hvorki fyrr né síðar. Nágranninn ók á endanum heim til slökkviliðsstjórans sem hóf að safna saman slökkviliðsmönnum. Þrátt fyrir að slökkvistöðin væri aðeins fjóra kílómetra frá húsinu komu slökkviliðsmenn ekki að húsinu fyrr en klukkan 8 um morguninn og var húsið þá rústir einar. Rannsókn á vegum hins opinbera gaf út þá niðurstöðu að eldurinn hefði kviknað vegna bilunar í rafmagni. 

George og Jennie grétu börn sín. Aftur á móti var engar líkamsleifar að finna í rústunum, ekki svo mikið sem beinflís eða tönn. Slökkviliðsstjórinn taldi að eldurinn hefði verið það heitur að hann hefi eytt líkum barnanna að fullu. George mokaði því yfir kjallarann sem hann nú áleit gröf barna sinna. Yfirvöld gáfu út fimm dánarvottorð rétt fyrir nýárið og var dánarorsök sögð vera af völdum eldsvoða eða köfnunar. Jennie klæddist svörtu í minningu barna sinna og átti ekki eftir að vera í fatnaði öðrum en svörtum til dauðadags.

En Sodder hjónin gátu ekki varist þeirri tilfinningu að börn þeirra væru ef til vill á lífi. 

Hús Sodder fjölskyldunnar.

Ítalía

George Sodder fæddist á Sardiniu á Ítaliu og flutti þrettán ára gamall til Bandaríkjanna með bróður sínum árið 1908. Eldri bróðir hans sneri hins vegar við heim til Ítalíu og skildi litla bróðir sinn eftir einan í nýju landi. Hann snapaði sér vinnu við að færa verkamönnum við lagningu lestarteina vatn og mat og flutti síðar til Virginia þar sem hóf starf sem ökumaður á flutningabílum. George var vinnusamur og klár og áður en varði átti hann eigið flutningafyrirtæki. Einn daginn gekk hann inn í búð þar sem Jennie Cipriani sem hafði flust til Bandaríkjanna frá Ítalíu ásamt foreldrum sínum, þriggja ára að aldri. 

Það var ást við fyrstu sýn, George og Jennie gengu í hjónaband og á árunum 1923 til 1934 eignuðust þau 10 börn sem þau ólu upp í blómlegu samfélagi ítalskra innflytjenda í Fayetteville. Þau voru afar virtir samfélagsþegnar og var George þekktur fyrir að hafa sterkar skoðanir á þjóðfélagsmálum og þá ekki síst stjórnmálum.  Hann vildi samt sem áður ekki tala um æsku sína eða hvað varð til þess að hann flúði Ítalíu á barnsaldri. 

Tilviljanir?

Sodder hjónin plöntuðu blómum á reitinn þar sem hús þeirra hafði staðið en fóru einnig að rifja upp atburði sem orðið höfðu mánuðina fyrir eldsvoðann. Ókunnugur maður hafði bankað upp hjá þeim og verið í atvinnuleit. Hann hafði bent á rafmagnsöryggin og sagt þau vera eldhættu sem George fannst skrítið því rafmagnsfyrirtækið var nýbúið að fara yfir öryggin og lýst þau í fullkomnu ástandi. Annað maður hafði reynt að selja þeim líftryggingu og orðið reiður þegar að George neitaði. Sagði hann hús þeirra ætti eftir að brenna og öll börn þeirra farast vegna ummæla George um Mussolini, en George fór ekki í felur með andúð sína á ítalska einræðisherranum. Hann lenti oft í rifrildum við aðra ítalska innflytjendur vegna þessa og tók hótanirnar ekki alvarlega. Synirnir John og George sögðust einni hafa séð mann standa við bíl og fylgjast með yngri börnunum koma heima úr skóla nokkrum dögum fyrir brunann. 

Týndu Sodder börnin. Louis er lengst til hægri.

Klukkustund fyrir eldsvoðann hafði síminn á heimilinu hringt og þegar að Jennie svaraði spurði ókunnug rödd um nafn sem þau þekktu ekki. Í bakgrunni heyrðist hlátur og hljóð í glösum, líkt og verið væri að skála. Jennie sagði að um rangt númer væri að ræða en á leiðinni til baka í rúmið sá hún að öll ljós á neðri hæðinni voru kveikt og útidyrahurðin opin. Marion svaf á stofusófanum og gerði hún ráð fyrir að önnur börn hennar væru sofandi í sínum herbergjum. Hún slökkti ljósin og læsti útidyrahurðinni. Þegar hún var komin í rúmið heyrði hún eitthvað sem virtist skellur á þakinu en hugsaði ekki meira út í það. Þegar hún vaknað tæpum klukkutíma seinna var herbergið fullt af reyk. 

 Jennie gat ekki skilið hvernig fimm börn gátu farist í eldi án þess að vottur af líkamsleifum fyndist, sérstaklega með tilliti til þess að ýmis heimilistæki voru enn vel þekkjanleg. Hún ákvað að rannsaka málið sjálf og prófaði að brenna alls kyns dýrabein og í hvert skipti urðu einhverjar agnir eftir. Hún hafði samband við bálstofu sem sagði henni að mannabein væru enn til staðar eftir tveggja tíma bruna við 2000 gráðu hita. Sodder heimilið hafði brunnið í 45 mínútur.

Vitni stíga fram

Málið varð smám saman furðulegra. Starfsmaður frá símafyrirtækinu sagði að klippt hefði verið á símasnúrur heimilisins og útskýring rannsóknarmanns um að bilun í rafmagni gat ekki staðist þar sem ljósin höfðu verið kveikt á neðri hæð aðeins klukkutíma áður. Vitni sagðist hafa séð mann við bíla George um kvöldið, sömu bíla og ekki fóru í gang. Þau fundu einnig grænt stykki í garðinum sem vinur þeirra í hernum sagði vera sprengjuhylki. Um nóttina hafði maður sést bera stigann sem venjulega var í bakgarðinum á brott og fannst stiginn síðar, í töluverðri fjarlægð frá heimilinu. Maðurinn var nafngreindur en merkilegt má teljast að hann var aldrei yfirheyrður. 

Hjónin kostuðu gerð fjölda skilta.

Vitni stigu fram og sögðust hafa séð börnin dagana eftir brunann. Eitt vitni sagðist hafa séð þau stíga upp í bíl á sama tíma og bruninn var sem mestur og annað vitni sagðist hafa framreitt fyrir þau morgunverð á veitingahúsi morguninn eftir. Þau hafi stigið út úr bíl með númeraplötum frá Florida. Enn annað vitni sór fyrir að hafa séð þau á hóteli í Suður-Karólínu nokkrum vikum seinna í fylgd með tveimur konur og tveimur körlum sem öll töluðu ítölsku. Konan sagðist hafa reynt að gefa sig á tal við börnin sem virtust afar hrædd en einn maðurinn hefði rokið upp og öskrað á hana á ítölsku áður en hann hraðaði börnunum út í bíl. 

Hjónin reyndu að fá alríkislögreglu í málið en var tjáð að beiðni þyrfti að koma frá yfirvöldum í Fayetteville sem neituðu að kalla alríkislögreglu til. 

Þá brugðu þau á það ráð að ráða einkaspæjara sem komst að því að tryggingasölumaðurinn sem hótað hafði George var einn af rannsóknarmönnunum sem úrskurðuðu eldinn af völdum rafmagns. Einnig kom í ljós að slökkviliðsstjórinn hafði trúað vini sínum fyrir að hafa grafið mannshjarta sem hann fann í garðinum og grófu hjónin upp kassa sem vissulega var í að finna innyfli. En það reyndist vera nautalifur og sagði annað vitni að slökkviliðsstjórinn hefði sagt sér að hann hefði komið því fyrir til að láta svo líta út fyrir að um líkamsleifar væri að ræða til að stöðva frekari rannsókn.

Myndin sem Jennie fékk senda.

Ljósmyndirnar

Hjónin héldu ótrauð áfram næstu árin. Árið 1949 sá George mynd af skólabörnum í blaði frá New York og var þess fullviss að eitt barnanna væri Betty dóttir hans. Hann ók til New York en fjölskylda stúlkunnar skellti á hann hurðinni og neitaði að leyfa honum að sjá hana augliti til auglits. Yfirvöld neituðu að rannsaka málið frekar en hjónin létu prenta þúsundir dreifimiða og lofuðu hverjum þeim sem hefði upplýsingar um afdrif barnanna 5000 dollurum. Þau hækkuðu það síðan upp í 10.000 dollara. 

Fjöldi ábendinga barst og fylgdu hjónin hverri einustu eftir án árangurs. Börnin voru horfin. Tuttugu árum eftir brunann, árið 1968, fékk Jennie sent umslag sem innihélt mynd af manni á miðjum þrítugsaldri. Á bakhliðina var skrifað ,,Louis Sodder.“ Maðurinn líktist óneitanlega syni þeirra sem hafði verið 9 ára nóttina örlagaríku. Bréfið hafði verið sent frá Kentucky og réðu hjónin einkaspæjara til að fara til Kentucky og rannsaka málið. Einkaspæjarinn hvarf aftur á móti sporlaust.

Var myndin af Louis?

Þau létu stækka myndina upp, setja upp skilti og birta í blöðum en án árangurs. Myndin hékk á heimili þeirra alla þeirra tíð. ,,Við höfum ekki mikinn tíma en þurfum að vita hvað gerðist, hvort þau dóu í eldinum og ef ekki, hvað kom fyrir,” sagði George Sodder. Hann lést sama ár. 

Gefast aldrei upp

Jeannie lokaði sig smám saman frá umheiminum og lést árið 1989. Eftirlifandi börn hennar héldu leitinni ótrauð áfram, þau trúðu aldrei að systkini sín hefðu farist í eldinum. Yngsta systirin Sylvia hélt til dæmis áfram allt til dauðadags í fyrra.

Sylvia leitaði til dauðadags árið 2021.

Sylvia sagði í viðtali rétt fyrir dánardag að hennar fyrsta minning væri frá nóttinni þegar hún horfði á föður sinn, hágrátandi og blóðugan, öskra nöfn systkina sinna við brennandi húsið. 

Margar kenningar eru á lofti um hvarf Sodder barnanna. Sjálf telur fjölskyldan líklegast að George hafi reitt mafíuna til reiði og þeir hefnt sín með að ræna börnunum. Börnin hafi síðan aldrei þorað af hafa samband við foreldra sína af hræðslu við að kalla yfir þau hættu. Einnig þykir ekki óhugsandi að eitthvað í fortíð George á Ítalíu hafi tengst hvarfinu.

En enginn veit í raun hvað gerðist þessa köldu jólanótt en ný kynslóð Sodder barna hefur nú tekið við kyndlinum og heldur leitinni áfram. Þau segjast aldrei munu gefast upp.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Pétur Einarsson látinn
Fókus
Í gær

„Ég var kominn á stað þar sem ég vissi að ég myndi valda mér miklum skaða ef ég myndi ekki taka í taumana“

„Ég var kominn á stað þar sem ég vissi að ég myndi valda mér miklum skaða ef ég myndi ekki taka í taumana“
Fókus
Í gær

Jón og Hafdís selja Seltjarnarnesvilluna

Jón og Hafdís selja Seltjarnarnesvilluna
Fókus
Fyrir 2 dögum

Keppandi Írlands í Eurovision í ár er kvár

Keppandi Írlands í Eurovision í ár er kvár
Fókus
Fyrir 2 dögum

Segir að meðlimur bresku konungsfjölskyldunnar hafi boðið henni í kynsvall

Segir að meðlimur bresku konungsfjölskyldunnar hafi boðið henni í kynsvall
Fókus
Fyrir 3 dögum

Flaug á rassinn á sviðinu – „Lögfræðingurinn minn mun hringja“

Flaug á rassinn á sviðinu – „Lögfræðingurinn minn mun hringja“
Fókus
Fyrir 3 dögum

Aðdáendur fá innsýn í ástarlíf Taylor Swift á nýrri plötu – Það kom þó á óvart hvaða maður er þar í aðalhlutverki

Aðdáendur fá innsýn í ástarlíf Taylor Swift á nýrri plötu – Það kom þó á óvart hvaða maður er þar í aðalhlutverki
Fókus
Fyrir 3 dögum

Sviplegt fráfall samfélagsmiðlastjörnu skekur netheima – „Ég skil þetta ekki, ég var með henni á föstudaginn“

Sviplegt fráfall samfélagsmiðlastjörnu skekur netheima – „Ég skil þetta ekki, ég var með henni á föstudaginn“
Fókus
Fyrir 3 dögum

Einkaþjálfari Taylor Swift varpar ljósi á það sem hún gerir til að halda sér í formi

Einkaþjálfari Taylor Swift varpar ljósi á það sem hún gerir til að halda sér í formi