Daisy Malin, 27 ára hlaðvarpsstjórnandi frá Bretlandi, hafði skipulagt stefnumót með karlmanni sem hún kynntist á stefnumótaforritinu Tinder. Þegar hún sendi honum hlekk að Instagram-síðunni sinni ákvað karlmaðurinn hins vegar tafarlaust að blokka hana. Hún telur að ástæðan sé sú að á Instagram-síðunni sinni talar hún opinskátt um líf hennar með exem.
Í samtali við Daily Star segir Malin að húðin sín sé ekki það sem skilgreini hana og að maðurinn hefði getað séð það ef hann hefði mætt á stefnumótið í stað þess að blokka hana. Þá segir hún að exemið hafi haft mest áhrif á tilhugalífið hennar.
Malin minnist þess í viðtalinu þegar hún var í grunnskóla og var að leiða strák sem spurði hana hvers vegna höndin hennar væri svona þurr. Hún segist ekki hafa leitt neinn aftur þar til hún var orðin 16 ára gömul. „Þetta hafði sálfræðileg áhrif á mig á sínum tíma. Við erum öll með eitthvað sem við erum óörugg með og við vitum alltaf af því. Maður vill vera eins og allir hinir, sérstaklega þegar maður er yngri,“ segir hún.
Þá útskýrir Malin í viðtalinu að í dag líði henni betur með exemið sitt en áður, það sé að hluta til því að þakka að hún er orðin betri í að meðhöndla það. Hún segist nota kremið Epaderm og að það hafi hjálpað henni mikið. „Lífið mitt er mun eðlilegra núna,“ segir hún og bætir við að kremið hafi komið henni í gegnum erfið augnablik, þegar húðin hennar var sem verst.
„Mér líður mun betur núna. Ef einhver annar er að kveljast og ganga í gegnum það sama og ég, vittu til að þetta verður auðveldara og eins slæmt og þetta getur orðið þá verður það ekki þannig að eilífu.“