„Í ljósi hins sanna jólaanda birti ég hér smá myndskeið sem gleður ykkur vonandi í skammdeginu,“ segir Sigríður Dögg Auðunsdóttir, stjórnandi Kastljóss og formaður Blaðamannafélags Íslands, í færslu sem hún birtir á Facebook-síðu sinni í dag.
Um er að ræða myndband sem sýnir hvernig Sunna Valgerðardóttir, fréttakonu og þáttastjórnanda Þetta helst á Rás 1, bregst við hrekk sem Sigríður skipulagði. „Þetta er hún Sunna Valgerðardóttir kær vinkona mín sem bregst svona innilega móðguð og sár yfir „gjöf“ sem hún fékk frá „leynivini“ á fréttastofunni fyrir ekki svo löngu,“ segir Sigríður um viðbrögð samstarfskonu sinnar.
Þá útskýrir Sigríður forsögu hrekksins: „Hún hafði sem sagt ekki fengið neina gjöf (tímafrestur gjafa var n.b. ekki liðinn) og var mjög upptekin af því þannig að ég „gaf“ henni í nafni leynivinar (sem ég var ekki) sömu (óvinsælu) jólagjöfina og RÚV hafði gefið starfsmönnum árið áður: risotto og vöfflumix.“
Sigríður vekur svo athygli á því að Sunna vissi ekki að verið var að taka upp viðbrögðin hennar, því var um að ræða svokallaða falda myndavél.
„Ekki missa af viðbrögðum hennar í lokin. Priceless. Gjörið þið svo vel og gleðilega aðventu. Horfið með hljóðið á!“ segir Sigríður svo en myndbandið má sjá í færslunni hér fyrir neðan.
Í athugasemd við færslu Sigríðar segir Sunna að hún skammist sín örlítið fyrir vanþakklætið. „En mér féllust bara hendur. Ég tek flestum gjöfum fagnandi þessi jólin,“ segir hún og útskýrir svo nánar hvað var í pakkanum: „Og þetta var byggottó, ekki rísottó. Og gróft hafravöfflumix, ekki bara vöfflumix.“