Fyrirsætan og leikkonan Julia Fox hefur heldur betur vakið athygli að undanförnu fyrir óvenjulegan fatastíl sinn. Það göptu til að mynda margir netverjar þegar hún mætti á kvikmyndahátíðina Tribeca í New York í stuttu pilsi og topp sem virtist hafa verið þrívíddarprentaður.
Fox ræddi í kjölfarið við People um fatastílinn sinn og sagði að hún væri að „þjónusta almenning“ með honum. „Mér líður eins og ég sé að veita þjónustu, ég er að veita þjónustu,“ sagði hún.
Nýjasta dæmið um óvenjulegan fatastíl Fox hefur þó vakið töluvert meiri athygli, sérstaklega vegna buxnavals hennar.
Fox klæddist buxunum sem um ræðir þegar hún fór út að borða ásamt vinum sínum á veitingastaðnum Indochine í New York um helgina. Buxunum hefur verið lýst sem „hættulega lágum“. Það eru eflaust engar ýkjur þar sem buxur Fox voru nánast eins langt niðri og mögulegt er, það munaði í raun ekki miklu á að hún ætti í hættu um að vera sektuð fyrir nekt á almannafæri.
Ljóst er að Fox hefur húmor fyrir sjálfri sér þar sem hún birti mynd af sér í buxunum en búið var að eiga við myndina til að láta hana líta út sem kentár.
View this post on Instagram