Lögfróðir í Bandaríkjunum hafa varpað ljósi á það hvers vegna teymi lögmanna leikarans Johnny Depp virtust kætast hressilega þegar Amber Heard minntist í aðilaskýrslu sinni á fyrirsætuna Kate Moss.
Johnny Depp stendur nú í umfangsmiklu meiðyrðamáli við fyrrverandi eiginkonu sína, Amber Heard. En Heard ritaði grein árið 2018 þar sem hún kvaðst vera þolandi heimilisofbeldis og þótti ljóst af skrifum hennar að hún væri þar að vísa til þess að Johnny Depp væri gerandi hennar, þó svo hún hafi ekki nefnt hann á nafn.
Breski miðillinn The Sun ritaði grein þar sem Depp var kallaður ofbeldismaður og höfðaði leikarinn meiðyrðamál á hendur miðlinum sem hann tapaði er dómari í Bretlandi komst að þeirri niðurstöðu að 12 af þeim 14 skiptum sem Heard hélt fram að Depp hefði beitt hana ofbeldi væru sönnuð og þar að leiðandi hefði The Sun mátt tala um Depp sem ofbeldismann.
Í kjölfarið gaf einn lögmanna hans það út að von væri á umfangsmeira meiðyrðamáli sem háð yrði fyrir bandarískum dómstólum. Aðalmeðferð í því máli hefur staðið yfir síðustu vikurnar og hefur vakið mikla eftirtekt, enda sýnt frá réttarhöldunum í beinni útsendingu.
Amber Heard hóf að gefa aðilaskýrslu sína í síðustu viku, en nú stendur yfir dómshlé og verður þráðurinn tekinn upp að nýju í næstu viku þar sem lögmenn Depp munu fá að spyrja Heard spjörunum úr.
Amber greindi í síðustu viku frá því ofbeldi sem hún segir að Depp hafi beitt hana í gegnum samband þeirra og hjónaband og var frásögnin gífurlega átakanleg. Greindi hún þar frá meintri áfengis- og lyfjaneyslu Depp sem hafi orðið til þess að hann varð ofbeldisfullur og hafi ráðist á hana í fjölmörg skipti.
Hún gekkst við því að hafa beitt ofbeldi í varnarskyni í eitt skipti þegar systir hennar var með henni. Þá hafi þær systurnar staðið í stiga þegar Depp hafi ætlað að veitast að þeim. Þá hafi Heard munað að hafa heyrt af því að þegar Depp var á föstu með fyrirsætunni Kate Moss hafi hann hrint henni niður stiga og óttaðist hún að systir hennar væri við það að hljóta sömu örlög. Hún hafi því kýlt frá sér til að stöðva atlögu Depps.
Við þetta virtust lögmenn Depp kætast nokkuð og greindi heimildarmaður New York Post frá því að hann hafi séð tvö lögmannanna slá hnúum sínum saman í fögnuði.
Einhverjir hafa velt fyrir sér hvers megna lögmennirnir hafi brugðist við með þessum hætti.
Lögfróðir þarna úti hafa nú útskýrt hvers vegna þessi frásögn gæti komið Depp vel. Orðrómurinn um að Depp hafi hrint Kate Moss niður stiga hefur gengið manna á milli í þó nokkurn tíma. Moss hefur þó aldrei staðfest að þetta hafi átt sér stað.
Þar sem Heard nefndi Moss að fyrra bragði geta lögmenn Depp nú fjallað um þennan orðróm. Vanalega má ekki í réttarhöldum í Bandaríkjunum fjalla um meint brot sem tengjast ekki því viðfangsefni sem réttað er um – eins og áðurnefndan orðróm – en þar sem Heard minntist sjálf á þetta mega lögmenn Depp nú taka orðróminn fyrir.
Einn sérfræðingur, lögmaðurinn Mitra Ahouraian, sagði:
„Moss er víst enn vinur Johnny og það mátti ekki kalla hana inn sem vitni áður því vitnisburður hennar þótti ekki koma málinu við“
Undir þetta tekur Halim Dhanidina sem er sérhæfður vörn meintra glæpamanna.
„Teymið Johnny Depp mun núna halda því fram að þeim sé heimilt að kalla Moss fram sem vitni til að kveða niður orðróminn um að Johnny hafi hrint henni niður stiga.“
Að sama bragði gætu lögmenn Heard haldið því fram að hún hafi greint frá orðróminum til að lýsa því hvað hún var að hugsa þegar hún kýldi Depp.
Aðrir lögfróðir á samfélagsmiðlum hafa haldið því fram að með því að nefna Moss á nafn hafi Heard opnað ormagryfju sem geri lögmönnum Depp kleyft að fjalla um hennar fyrrverandi ástarsambönd og þar með ásakanir um að Heard hafi beitt fyrrverandi kærustu sína, Tasya Van Ree, ofbeldi. Þær hafa þó báðar vísað þeirri ásökun á bug en ásökunina má rekja til þess að Heard og Ree rifust heiftarlega á flugvelli árið 2009 og Heard í kjölfarið handtekinn fyrir að hafa beitt Ree ofbeldi. Ree greindi þó opinberlega frá því í kjölfarið að atvikið hafi verði mislesið og Heard væri ranglega sökuð um ofbeldi. Engin ákæra var gefin út á hendur Heard í kjölfar atviksins.
Dhanidina segir:
„Fyrir mér er áhugaverða spurningin, hvort að með því að minnast á Moss eða orðróminn um þetta atvik hafi veitt Johnny Depp þá heimild að draga fram gögn um fyrri ásakanir um heimilisofbeldi á hendur Heard. Ef fólk fer út fyrir rammann um þá hegðun sem er til umfjöllunar í máli og nefnir aðra ofbeldisfulla hegðun gagnaðila, þá er aðeins sanngjarnt að gagnaðilinn fái að gera slíkt hið sama.“
Rétt er þó að taka fram að dómarinn í málinu hefur fullt forræði á því hvort Moss verði kölluð inn sem vitni eða hvort Depp verði heimilt að minnast á handtöku Heard frá árinu 2009. Þó telja lögfróðir að líkurnar séu meiri en minni eftir að Heard minntist á Moss.
Líkt og áður segir mun aðalmeðferð hefjast að nýju í næstu viku. Er þar talið að teymi Depp muni svífast einskis til að varpa rýrð á frásögn Heard enda liggur sönnunarbyrðin, um að Depp sé ekki ofbeldismaður, á teymi Depps þar sem um meiðyrðamál er að ræða. Þar eiga Depp og félagar á brattann að sækja þar sem breskur dómstóll hefur þegar komist að þeirri niðurstöðu að ásakanir Heard séu réttmætar.