Tónlistarmaðurinn Valdimar Guðmundsson lenti í ansi vandræðalegu atviki um helgina en hann deildi sögunni með vinum sínum á Facebook í kjölfarið. Síðar ákvað hann að deila sögunni einnig með fylgjendum sínum á Twitter og vakti hún mikla athygli þar.
Sagan hefst á því að Valdimar hringdi í ókunnuga manneskju varðandi gigg. „Þegar hún svaraði í símann þá heyrði ég að hún var að hlusta á eitthvað lag sem ég kannaðist svolítið við,“ segir Valdimar.
„Þá var þetta lagið Jólin eru okkar sem ég söng með henni Bríet fyrir ekki svo löngu. Svo sló þögn á samtalið og þá fannst mér eins og hún hækkaði aðeins í græjunum til að leyfa mér að heyra að hún væri að hlusta á lag með mér. Ég rauf þögnina og sagði „Já, flott.“ og hélt svo áfram að segja það sem ég vildi segja í þessu frekar formlega samtali.“
Valdimar segir að á meðan á samtalinu stóð hafi hann allan tímann verið að velta því fyrir sé hvort manneskjan ætlaði ekki að fara að lækka í tónlistinni. „En aldrei gerist það og hvert jólalagið á fætur öðru spilast á blasti í gegnum þetta samtal okkar,“ segir hann.
Eftir að Valdimar skellti á þá gerði hann sér fyrst grein fyrir því sem hafði gerst. „Það var ekki fyrr en ég skelli á að ég fatta að þetta var mitt eigið Spotify að spila random lög eftir að ég hafði áður verið að hlusta á lagið Yndislegt líf í æfingarskyni,“ segir hann.
„Þannig að ef við spólum aðeins til baka, þá var eins og ég hafi hringt í þessa manneskju, tekið langa pásu til að leyfa henni að heyra að ég væri að hlusta á jólalag með sjálfum mér í maí, sagði svo „Já, flott.“ og hélt svo áfram samtalinu með jólalög á blasti allan tímann.“
Henti í óldskúl Facebook status um helgina. Langaði að deila þessu með njúskúl vinum mínum á Twitter líka. pic.twitter.com/UL2baUvEH0
— Valdimar Guðmundsson (@ValdiMumma) May 9, 2022