fbpx
Sunnudagur 28.apríl 2024
Fókus

Sakamál – Banvænar leggingsbuxur

Erla Dóra Magnúsdóttir
Laugardaginn 24. apríl 2021 21:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Lululemon er þekkt vörumerki í heiminum og um tíma var varla hægt að teljast kona með konu nema eiga eitt par af lululemon jógabuxum, jafnvel þó viðkomandi hefði aldrei svo mikið sem hvíslað orðið Namaste. Fæstir myndu þó drepa fyrir par af leggings. Fæstir, en þó einhverjir og því fékk Jayne Murray að kynnast þann 11. mars árið 2011 eftir að hún steig inn á vinnustað sinn, Lululemon-verslun í Maryland Bandaríkjunum, í síðasta skiptið.

Hryllileg aðkoma

Þann 12. mars hélt verslunarstjóri Lululemon í Bathesda Maryland til vinnu að venju. Hún opnaði búðina en sá fljótt að ekki var allt með felldu. Jayne Murray, 30 ára starfsmaður búðarinnar, lá látin í blóði sínu og önnur starfskona, Brittany Norwood var bundin og blóðug inni á baðherberginu en þó á lífi. Peningaskápur verslunarinnar hafði verið tæmdur. Í búðinni fundust blóðug fótspor eftir karlmannsskó og svo virtist sem að þarna hafi verið um ofbeldisfullt rán að ræða sem hafi farið úr böndunum.

Norwood var flutt á sjúkrahús og reyndust áverkar hennar minniháttar. Hún greindi lögreglu frá því að tveir grímuklæddir menn hafi ruðst inn í búðina. Ekki virtust þeir aðeins á höttunum eftir peningum því þeir tóku hana og Murray, beittu þær ofbeldi og nauðguðu ítrekað. Murray hafi barist á móti árásarmönnunum þegar þeir nauðguðu henni og því hafi þeir drepið hana. Norwood hafi hins vegar ekki barist gegn þeim og því sloppið með líf sitt.

Eitthvað ekki rétt

Rannsóknarlögreglumaðurinn Dimitry Ruvin segir að við betri skoðun hafi þó ekki allt komið heim og saman. „Áverkarnir sem Jayna var með voru ekkert eðlilega miklir,“ sagði hann í samtali við The Price of Duty. Hvers vegna hafði Jayna verið beitt svona hryllilegu ofbeldi á meðan Norwood slapp með minniháttar skrámur?

„Það var lítil rödd í höfðinu á mér sem sagði eitthvað hér er ekki rétt,“ sagði Ruvin. „Hvernig Brittany lýsti þessum árásarmönnum – þeir áttu að vera rasistar, nauðgarar, ræningjar og morðingjar – það hljómar eins og versta manneskja sem þú gætir mögulega lýst er það ekki?“

Ruvin taldi því sögu Norwood ekki trúanlega. Hvers vegna hefðu tveir ræningjar átt að nauðga konunum, berja og drepa aðra þeirra með svona hrottalega ofbeldisfullum hætti þegar þeir höfðu þegar komist  yfir peningana?

Yfir 300 áverkar

Á líkama Murray voru yfir 300 áverkar sem flestir beindust að sömu stöðunum, einkum að hálsi hennar og höfði. Einhverju áhaldi hafði verið stungið í háls hennar af svo miklum krafti að það fór alla leið í gegn, og í gegnum mænuna í leiðinni. Höfuð hennar hafði verið barið svo oft að höfuðkúpan var í molum og réttarmeinatæknir gat ekki slegið því á föstu hversu margir áverkarnir voru í raun og veru þar sem ómögulegt var að greina áverkana í sundur. Þeir voru hreinlega svo margir.

Bíll Murray hafði ekki fundist. Lögregla leitaði til Norwood en hún kvaðst ekki vita hvernig bíllinn leit út.  Aðeins degi síðar hafði fjölskylda Norwood þó samband við lögreglu og sögðu að hún vissi reyndar hvar bíllinn væri. Ræningjarnir hafi neytt hana til að færa bílinn og hún hafi verið of hrædd til að segja frá því þar sem þeir vissu hvað hún héti og hvar hún byggi. Þetta þótti lögreglu líka furðulegt.  Næstu vikurnar var Norwood ítrekað kölluð í skýrslutöku og lögregla beið þess að geta staðið hana að lygum.

Lygasjúk og stelsjúk

Það kom á daginn að Norwood var þekkt fyrir lygar. Og það sem meira var, hún var þekkt fyrir þjófnað.

„Hún var besta vinkona mín í háskólanum. Það slitnaði þó á milli okkar því þessi stelpa var stelsjúk,“ sagði Leanna Yust fyrrum skólafélagi Norwood. Hún sagði að Norwood hafi stolið bæði peningum og hátísku skyrtu af henni.

Síðan komst lögregla að því að kvöldið sem Murray var myrt heyrðu starfsmenn Apple-búðarinnar við hliðina á Lululemon hávært rifrildi milli tveggja kvenna. Þeir heyrðu aðra  þeirra öskra „Talaðu við mig, ekki gera þetta. Talaðu við mig, hvað er í gangi?“ síðan hafi tekið við öskur og óp í um 2o mínútur og svo heyrðist: „Ó guð, hjálpaði mér. Plís hjálpaðu mér.“ Hins vegar datt engum í Apple-búðinni í hug að hringja í lögregluna, en það var nokkuð sem var harðlega gagnrýnt á meðan málið var í umræðunni og voru Apple-starfsmennirnir kallaðir kaldrifjaðir og afskiptaleysi þeirra ógnvekjandi.

Eftir rannsókn á vettvang, frásagnir vitna og upptökur úr öryggismyndavélum taldi lögregla ljóst hvað hafði átt sér stað. Það voru engir grímuklæddir menn sem réðust inn í Lululemon. Það var í raun enginn sem réðst þangað inn.

Það sem gerðist í raun og veru

Norwood og Murray voru saman á vakt og lokuðu versluninni þann 11. mars. Murray tók þá eftir því að í tösku Norwood var varningur úr versluninni sem var greinilega tekinn ófrjálsri hendi. Hún ákvað að greina yfirmanni sínum frá þessu. Þær læstu búðinni og héldu heim á leið. En þá hringdi Norwood í Murray og bað hana að snúa við því hún þyrfti að aflæsa búðinni svo Norwood gæti náð í veski sitt.

Ekki er nákvæmlega ljóst hvað gerðist eftir að þær snéru aftur inn í búðina. En lögregla taldi líklegt að Murray hafi sakað Norwood um þjófnað og það hafi orðið tilefni deilna. Í raun hafði Norwood lengi verið grunuð um þjófnað og höfðu yfirmenn og samstarfsmenn beðið eftir tækifærinu til að ná að losna við hana. Murray hringdi í yfirmann sinn rétt áður en hún snéri aftur í verslunina þetta örlagaríka kvöld og sagði „Við náðum tíkinni“.

Norwood ætlaði þó ekki að leyfa Murray að kosta sig starfið og réðst á hana. Það er talið að hún hafi beitt sex ólíkum áhöldum við morðið meðal annars hamar, skiptilykil, reipi og járnstöng.  Við krufningu sást að Murray hafði reynt að verjast árásinni og sagði réttarmeinatæknirinn að hann hafi aldrei á sínum starfsferil séð jafn mikið af varnarsárum á einni manneskju.

Sviðsetti rán

Eftir að Norwood myrti samstarfsmann sinn var hún í klemmu. Hvað nú? Hún fór út úr búðinni, settist inn í bíl hinnar myrtu Murray, færði hann nokkrar húsalengjur og sat svo í 90 mínútur og lagði á ráðin um hvernig hún gæti komið sér út úr þessu án þess að vera kennt um morðið.

Hún ákvað því að setja á svið rán. Aftur fór hún í Lululemon og klæddi sig í karlmannsskó. Síðan steig hún í blóð Murray og þrammaði um til að búa til sönnunargögn fyrir lygina sem hún ætlaði að reyna að selja. Hún klippti gat á buxur Murray til að gefa til kynna að hún hafi verið beitt kynferðisofbeldi.

Síðan skar hún sjálfa sig, batt og beið þess að verslunarstjórinn kæmi að henni um morguninn.

Norwood var handtekinn og eftir aðeins sex daga réttarhöld var hún sakfelld fyrir morð af yfirlögðu ráði.

Við réttarhöldin kom fram að stolni varningurinn, sem varð til þess að Murray tapaði lífinu, voru par af Lululemon leggingsbuxumLeggingsbuxur sem greinilega voru þess virði, í augum Norwood, að drepa fyrir.

 

 

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 2 dögum

Sophia Bush kemur út úr skápnum – Blæs á kjaftasögurnar um hvernig nýja sambandið byrjaði

Sophia Bush kemur út úr skápnum – Blæs á kjaftasögurnar um hvernig nýja sambandið byrjaði
Fókus
Fyrir 2 dögum

Svona eiga þau saman – Ekki aðeins æðislegir elskhugar heldur líka mjög góðir vinir

Svona eiga þau saman – Ekki aðeins æðislegir elskhugar heldur líka mjög góðir vinir