fbpx
Föstudagur 03.maí 2024
Fókus

„Ég er alltaf að reyna að gera allt 100%, en mér líður eins og ég nái ekki að gera neitt vel“

Fókus
Sunnudaginn 14. júní 2020 21:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Kristín Tómasdóttir, fjölskyldumeðferðarfræðingur með meiru, hefur gengið til liðs við DV og mun svara spurningum lesenda um málefni er varða fjölskylduna, börnin og ástina í nýju Fjölskylduhorni. Að þessu sinni svarar Kristín lesanda sem er að bugast undan kröfum samtímans um fullkomnum.

_ _ _ _ _ _ _ _ _

Hæ, Kristín. Ég er alltaf að reyna að gera allt 100%, en mér líður eins og ég nái ekki að gera neitt vel. Mér finnst ég vera með þúsund bolta á lofti, vinnuna, börnin, hjónabandið, vinkonur, ræktina, stórfjölskylduna og háskólanám í fjarnámi. Svo þurfa barnaherbergin að vera fullkomin, barnaafmælin flott og heimilið almennt í röð og reglu. Stundum er ég örmagna þegar ég loksins leggst á koddann og þá bitnar það á hjónalífinu. Þegar ég lít í kringum mig þá virðast allir á sama stað, en mig langar ekki til þess að vera á þessu hamstrahjóli. Áttu einhver ráð til þess að lifa og njóta, en samt þannig að þessir helstu póstar séu í lagi?

Sæl, ofurkona

Það væri svo auðvelt að segja þér að hætta að reyna að vera fullkomin og slaka bara á, en það er hægara sagt en gert. Börnin þurfa samt að læra heima, þau eiga afmæli einu sinni á ári, hreyfing er góð fyrir sál og líkama og tengsl við maka, stórfjölskyldu og vinkonur auka hamingju

Og hvað, á ég svo bara að segja þér að slaka á og hætta að vera ofurkona? Það er mótsögn sem bitnar verulega á ofurkonum. Þær eru margar hverjar farnar að bera skömm í ofanálag yfir að standa sig svona vel og vera uppfullar af streitu.

Mikið ertu að standa þig vel

Heldur væri hjálplegt að hrósa þér, vinkona. Mikið ertu að standa þig vel, þetta er hörkupúl og því miður hefur engin enn fundið leynitrix sem leysir vandann þinn. Ef svo væri, væri sú hin sama moldrík. En ég get tínt til nokkur atriði sem vonandi geta hægt aðeins á hamstrahjólinu og gefið þér aukið svigrúm til þess að anda, vera til og knúsa makann þinn.

Í fyrsta lagi er auðvelt að setja fókusinn á aðstæður sínar og reyna að breyta þeim, í staðinn fyrir að horfa á viðhorf sitt gagnvart aðstæðunum. Þú nefnir barnaafmælin og háskólanámið og eru það vissulega krefjandi breytur, en fyrst þú stendur frammi fyrir þeim á annað borð þá gæti verið streitulosandi að skoða hvers vegna afmælin þurfa að vera flott. Hver dæmir um það hvort þau séu nægilega flott? Hversu háar einkunnir þarftu að fá? Geturðu dreift náminu á lengri tíma? Þetta eru viðmið sem þú stýrir sjálf og auðveldara er að stýra þeim heldur en að hafa áhrif á námsvísi Háskólans eða skoðanir samfélagsmiðlastjarna á barnaafmælum

Æfðu þig í að gera mistök

Það sem ég er að reyna að segja er að þú getur dregið úr streitu og vanlíðan með því að leiðrétta hugsanaskekkjur, til dæmis breyta hugsuninni „barnaafmælið verður að vera flott“ í „það verður barnaafmæli og það verður eins flott og ég ræð við þá stundina“.

Ef það er fullkomnunarárátta sem þú ert að mestu að glíma við, þá gætirðu þurft að æfa þig í að gera mistök. Það er gert með því að mæta einni mínútu of seint, sleppa því að þurrka blett úr buxunum þínum, eða kaupa köku í staðinn fyrir að baka hana óaðfinnanlega sjálf. Og nú er ég aldeilis ekki að halda því fram að aðkeypt kaka sé mistök, síður en svo. Ég er einungis að benda þér á að þú þarft að horfast í augu við ótta þinn, hugsa hugsunina til enda og æfa þig í því sem þú vilt helst ekki þurfa að díla við. Ef það er aðkeypt kaka, nú þá er númerið hjá Myllunni 510-2300.

Íhugaðu að biðja um aðstoð

Nú þekki ég þig ekki en mér finnst spurningin hljóma eins og þú eigir ekki auðvelt með að biðja um aðstoð, eða að tengslanet þitt bjóði ekki upp á slíkt. Sennilega hefur þú leitt hugann að því sjálf, en er einhver möguleiki að þú getir hagrætt verkefnum með aðstoð? Hvað hafið þið hjónin rætt í tengslum við þetta? Getið þið skipt álaginu á heimilinu meira niður? Býður fjárhagurinn upp á þrifþjónustu? Kann makinn þinn að baka? Með öðrum orðum: Að útdeila öllum þeim verkefnum sem þú mögulega getur.

Stundum er hægt að leysa vanda af þínu tagi með Excel, skipulagi og forgangsröðun. Það er samt eitthvað sem segir mér að þú sért búin að hámarka slíka nýtingu, en ef ekki þá gæti verið ráð að skoða hvort hægt sé að nýta slíkt til hagræðingar. Sum pör gera lista yfir allt það sem liggur fyrir, það þarf að setja í þvottavél, skutla og sækja, mæta á foreldrafund, bjóða tengdó í mat, ryksuga og skúra. Öll verkefnin eru sett upp í lista og svo er þeim skipt jafnt á milli og öllu smellt inn í Calendar. Svona skipulag hefur í alvörunni bjargað mörgum hjónaböndum, einfaldað mörgum ofurkonum lífið og dregið úr streitu á heimilum.

Þetta verður ekki alltaf svona

Ofurkonan er tímabundið ástand. Það stendur yfir á meðan börnin eru lítil og húsnæðislánin eru í botni. Þó það lagi ekki pressuna í dag, þá finnst sumum gott að hugsa þetta sem tímabil í lífi sínu, erfitt en gefandi tímabil. Eftir því sem börnin verða eldri og sjálfstæðari, háskólanámið klárast og barnaherbergjunum fækkar á heimilinu, þá hægist á. Þetta verður ekki alltaf svona og þá munt þú líta til baka og vonandi hugsa: „Mikið var ég dugleg, hvernig fór ég að þessu?“

_ _ _ _ _ _ _ _ _ _

Við hvetjum lesendur til að senda spurningar og vangaveltur sínar til Kristínar í tölvupósti á: hjonabandssaela@gmail.com. Spurningunum verður svo svarað hér í Fjölskylduhorninu, að sjálfsögðu nafnlaust og í fullum trúnaði.

 

 

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Framboð Viktors gilt
Fókus
Í gær

,,Þetta var komið gott eftir líflátshótanir”

,,Þetta var komið gott eftir líflátshótanir”
Fókus
Í gær

Helgi Seljan og pabbabrandarinn sem endaði á prenti

Helgi Seljan og pabbabrandarinn sem endaði á prenti
Fókus
Fyrir 2 dögum

„Um tíma átti ég erfitt með að kaupa mér maskara því ég eyddi svo miklum pening í maníu“

„Um tíma átti ég erfitt með að kaupa mér maskara því ég eyddi svo miklum pening í maníu“
Fókus
Fyrir 2 dögum

Móeiður og Hörður héldu glæsilegt barnaafmæli í anda Kardashian-fjölskyldunnar

Móeiður og Hörður héldu glæsilegt barnaafmæli í anda Kardashian-fjölskyldunnar
Fókus
Fyrir 3 dögum

Elizabeth Hurley afhjúpar leyndarmálið að unglegu útliti

Elizabeth Hurley afhjúpar leyndarmálið að unglegu útliti
Fókus
Fyrir 3 dögum

Velta fyrir sér tekjum Gústa B eftir að hann pungaði út milljónum í sumargjöf

Velta fyrir sér tekjum Gústa B eftir að hann pungaði út milljónum í sumargjöf
Fókus
Fyrir 3 dögum

Vikan á Instagram – „Maður fer all inn á brókinni fyrir vinkonu sína“

Vikan á Instagram – „Maður fer all inn á brókinni fyrir vinkonu sína“
Fókus
Fyrir 3 dögum

Guðrún byrjaði með manni í fangelsi og varð ólétt eftir hann – „Ég vissi ekki fyrir hvað hann sat inni“

Guðrún byrjaði með manni í fangelsi og varð ólétt eftir hann – „Ég vissi ekki fyrir hvað hann sat inni“