fbpx
Sunnudagur 28.apríl 2024
Fókus

„Guði sé lof að ekki voru til myndavélasímar eða samfélagsmiðlar þegar ég var sem verstur í mínu djammlífi“

Tómas Valgeirsson
Laugardaginn 8. febrúar 2020 16:11

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Útvarpsmaðurinn og smiðurinn Ómar Úlfur Eyþórsson er landsmönnum að góðu kunnur en hann er umsjónarmaður Síðdegisþáttarins Ómar á X-977 og var nýlega ráðinn dagskrárstjóri stöðvarinnar. Ómar er einstaklega lífsglaður og kemur ávallt til dyranna eins og hann er klæddur. Hann er þekktur fyrir að vera laus við alla tilgerð og tekur lífinu með stóískri ró og það smitar út frá sér.

Á þessu ári fagnar Ómar bæði fertugsafmæli sínu og ellefu árum í edrúmennsku. Í samtali við DV tjáir hann sig um áskoranirnar fram undan, hið sífellt krefjandi föðurhlutverk, eftirminnilegan Stuðmannahitting, æskuárin og skemmtanalífið á „hálfvitaárunum,“ eins og hann orðar það hressilega.

Meðfylgjandi er brot úr stærra viðtali við Ómar í nýju helgarblaði DV

Platan sem öllu breytti

Ómar segir uppvaxtarár sín hafa einkennst af frjóum og flottum tíma fyrir íslenska tónlist. „Þá vorum við með hljómsveitir eins og Þey, Purrk Pillnikk, Utangarðsmenn, Fræbblana, Tappa Tíkarrass og fleiri. Það var svo mikill kraftur og gredda í þessu. Þetta var svo á móti straumnum,“ segir útvarpsmaðurinn. „Kannski er þetta erfiðara í dag, þegar allir eru í lopapeysunum og faðmandi tré vantar alveg gredduna og ágengnina sem við upplifum öll í gegnum ævina. Þetta er auðvitað alveg geggjaður tími og það er svo gaman að sjá, með endurkomu vínylsins, að þetta eru verðmætustu plöturnar sem þú finnur, með þessum listamönnum sem ég taldi upp meðal annars.“

Um ellefu ára aldurinn var Ómar orðinn ágætlega sjóaður í íslenskri tónlist. Áhuginn á mismunandi tónlist og stefnum var kominn til að vera, en þó var ein plata sem breytti öllu á þeim aldri. Aðdragandi þessarar uppgötvunar var þegar móðir hans fór með hann í ferðalag til Reykjavíkur frá Hvolsvelli, þar sem hann er uppalinn.

„Það má alveg segja að miklihvellurinn í mínu tónlistarlífi hafi verið þegar mamma keypti handa mér Nevermind með Nirvana, sem þá var til á kassettu. Ég man þetta eins og það hefði gerst í gær. Ég var með blátt Walkman-vasadiskó og ég setti kassettuna í tækið og hlustaði tvisvar á hana alla, á leiðina úr bænum og heim. Þar sem við bjuggum á Hvolsvelli náði ég að renna henni í gegn oftar en einu sinni á leiðinni til og frá,“ segir Ómar.

„Þegar ég horfi til baka breytti þessi kassetta alveg lífi mínu. Og þarna á þessum tíma gat maður ekkert bara spólað til baka eða ýtt á einn takka til að hlusta á Smells Like Teen Spirit. Maður leyfði þessu bara að rúlla í gegn. En á ellefu ára aldrinum var ég farinn að grúska töluvert í tónlist og menningarheimi hennar, á allt öðrum tíma líka, enda erfitt að leita sér upplýsinga um tónlist og allt slíkt sem kemur með einni handahreyfingu á símann í dag. Þegar ég fékk Nevermind fyrst í hendurnar hélt ég að Kurt Cobain væri dáinn, þetta var árið 1991. Það var ekkert internet þá og engin leið að kanna hvort það væri rétt.“ 

 

„Ég var einu sinni algjör hálfviti“

Ómar segir það ótvírætt vera auðveldara fyrir áhugafólk um tónlist og listir almennt að afla sér upplýsinga og nýjunga með tilkomu tækni og sítengingar. Í tengslum við umræðuna um samfélagsmiðla og nútímavædda farsíma segist hann þó vera dauðfeginn að hafa alist upp þegar myndavélar voru ekki í hverjum vasa, ekki síst þegar hann stundaði skemmtanalífið af krafti.

„Heimurinn er búinn að breytast svo mikið, eins og hefur verið margsagt. Á unglingsárunum ef ég var hrifinn af stelpu, þá þurfti ég að hringja heim til hennar í landsímann. Í dag eru það samfélagsmiðlar sem sjá um megnið af þeirri erfiðisvinnu. Ég segi bara Guði sé lof að ekki voru til myndavélasímar eða samfélagsmiðlar þegar ég var sem verstur í mínu djammlífi,“ segir hann. 

„Sonur minn var heima um daginn í tölvunni með frænda sínum og ég spurði hvað þeir væru að gera. Þeir svöruðu: „Við erum að gúgla foreldra okkar.“ Þá hugsaði ég bara „Djöfull er ég feginn að ekki sé til einhver grein þar sem stendur „Ómar Úlfur hellaður á B5 eða Austur, standandi ber að neðan uppi á einhverju borði.“ Internetið gleymir engu og þarna slapp ég vel.“

Útvarpsmaðurinn sagði skilið við áfengi árið 2009 og sér ekki eftir þeirri ákvörðun. „Það er öllum hollt að skoða sjálfan sig. Ég þekki það sjálfur úr mínu lífi og verð að horfast í augu við að ég var einu sinni algjör hálfviti. Það var bara þannig, en ég hef reynt að bæta fyrir þær syndir og laga sjálfan mig og gera sjálfan mig ánægðari með lífið og tilveruna í leiðinni. Það er miklu orkufrekara að vera í fýlu en að vera jákvæður,“ segir Ómar.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 2 dögum

Sophia Bush kemur út úr skápnum – Blæs á kjaftasögurnar um hvernig nýja sambandið byrjaði

Sophia Bush kemur út úr skápnum – Blæs á kjaftasögurnar um hvernig nýja sambandið byrjaði
Fókus
Fyrir 2 dögum

Svona eiga þau saman – Ekki aðeins æðislegir elskhugar heldur líka mjög góðir vinir

Svona eiga þau saman – Ekki aðeins æðislegir elskhugar heldur líka mjög góðir vinir