fbpx
Þriðjudagur 30.apríl 2024
Fókus

Hleypur með ólæknandi krabbamein

Ágúst Borgþór Sverrisson
Þriðjudaginn 20. ágúst 2019 20:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Edda Dröfn Eggertsdóttir er ein þeirra fjölmörgu sem hleypur af Krafti í Reykjavíkurmaraþoni Íslandsbanka. Sumarið 2015 þegar hún var önnum kafin við að æfa fyrir hlaup byrjaði hún að grennast óeðlilega mikið. Síðar það ár greindist Edda með ólæknandi krabbamein.

Edda Dröfn er 39 ára og var einungis 36 ára þegar hún greindist með GIST krabbamein sem var búið að dreifa sér um allt kviðarholið; í lífhimnuna, smáþarmana, eggjastokka og í þindina. Hún var strax sett í uppskurð þar sem öll æxli voru fjarlægð en árið 2018 komu nokkur æxli aftur í ljós og þá í kringum maga og nýrnahettu. Hún þarf að vera á lyfjum það sem eftir er ævi sinnar til að halda niðri krabbameininu. Lyfjunum sem Edda tekur daglega fylgja ýmsar aukaverkanir t.a.m. bjúgur í kringum augu og vöðvakrampi í fótum en hún lætur það ekki aftra sér frá hlaupunum. „Ég trúi því að hreyfing geri mér gott. Hlaupin og félagsskapur hlaupafélaganna bjarga oft andlegu hliðinni. Stundum þegar ég er eitthvað niðurdregin, súr og lítil í mér er nóg að mæta bara á æfingu, hlæja smá og hlaupa og þá verður dagurinn bara miklu betri fyrir vikið“, segir Edda. Á tímabili í fyrra kom lyfjapása hjá Eddu sem gerði henni kleift að hlaupa bæði Laugaveginn sem er 55 km og 33 km Jökulsárhlaup. En núna þegar hún er komin aftur á lyfin reynast hlaupin erfiðari en hún lætur það þó ekki stöðva sig.

 Edda ætlar að hlaupa 21 km með frænku sinni Söru Líf og safna áheitum fyrir Kraft þar sem hún vill sýna í verki þakklæti fyrir allan þann stuðning sem hún hefur fengið hjá félaginu í gegnum allt sitt ferli sem einstaklingur með krabbamein. „Ég kynntist starfsemi Krafts fyrst í gegnum endurhæfingarhópinn FítonsKraft en ég byrjaði að mæta þar á æfingar um leið og ég mátti eftir aðgerðina árið 2015. Það að geta hitt fólk sem stendur í svipuðum sporum og skilur hvað maður er að ganga í gegnum er ómetanlegt. Það er líka frábært að hafa möguleika á að sækja um styrki hjá Krafti fyrir ýmsum útlögðum kostnaði og að þurfa t.d. ekki að greiða fyrir lyfin sem maður tekur að  staðaldri“, segir Edda enn fremur. Edda stefnir á að safna um 100 þúsund krónum fyrir Kraft og vonar að sem flestir geti heitið á sig til að leggja félaginu lið og hvetja hana áfram í leiðinni.

Þú getur lagt Eddu lið og styrkt hana á https://www.hlaupastyrkur.is/einstaklingar/keppandi?cid=70193.

#éghleypafkrafti

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt