Hinn virti ferðavefur Condé Nast Traveler birti á dögunum lista yfir sjö íslensk heimili sem skráð eru á Airbnb sem vert er að skoða nánar. Bæði er um að ræða einbýlishús og minni íbúðir og eru heimilin staðsett víða innan höfuðborgarsvæðisins og utan.Mælir greinarhöfundur sérstaklega með þessum eignum ef að ferðamenn vilja geta fundist þeir vera „heima hjá sér“ á Íslandi. Gestgjafarnir sem um ræðir hafa allir fengið nafnbótina „Superhost“ sem þýðir að þeir eru allir með minnst 4,8 af 5 í einkunnagjöf.
Fyrir stelpuferðina
Greinarhöfundur mælir sérstaklega með þessu húsi fyrir vinkonuhópa. Eignin er á fullkomnum stað í miðbænum, inniheldur fjögur svefnhergi og er á tveimur hæðum. Eignin hentar líka vel fyrir fjölskyldur með börn þar sem henni fylgir bæði rimlarúm og ungbarnastóll.
Fyrir alla fjölskylduna
Þetta heimili er tilvalið fyrir stórfjölskyldur að mati greinarhöfundar. Það er staðsett í tuttuga mínútna akstursfjarlægð frá miðborginni og inniheldur allt sem þarf: þvottavél, rimlarúm, barnastól og nóg af bókum og leikföngum fyrir yngri kynslóðina. Gestir geta látið farið vel um sig í heita pottinum og þá skemmir ekki fyrir að Esjan er í einungis 20 mínútna göngufjarlægð.
Fyrir Instagrammarann
Þessi íbúð er sannkallaður fjársjóður fyrir áhrifavalda á Instagram. Hún er innréttuð á skemmtilegan hátt og býður upp á fjölmörg skemmtileg ljósmyndatækifæri. Fyrir þá „Instagrammara“ sem vilja fá frí frá endalausum lækum og kommentum þá er íbúðin einnig notalegur og hlýlegur griðarstaður.
Fyrir þann sem vill ekki ferðast langt
Þeir sem dvelja hér þurfa varla að eyða stórfé í útsýnisferðir um borgina, þar sem þeim nægir í raun að horfa út um gluggann. Hallgrímskirkja sést út um svefnherbergisgluggann og þegar stigið er út á svalir er hægt að virða fyrir sér útsýni til fjalla. Þá eru allir þekktustu ferðamannastaðirnir innan seilingar, þar sem að íbúðin er staðsett í hjarta borgarinnar.
Fyrir þann sem elskar Bláa Lónið
Þeir sem sett hafa stefnuna á Bláa Lónið verða ekki sviknir af þessum notalega sumarbústað sem staðsettur er mitt á milli miðborgarinnar og Lónsins. Að lokinni heimsókn í lónið er síðan hægt að kúra upp við arineld.
Fyrir sælkerann
Þetta heimili er draumagististaður þeirra sem elska að elda. Greinarhöfundur lýsir henni sem sérstakri, skrautlegri og skondinni, sem sé ágæt tilbreyting frá þeim fjölmörgu Airbnb íbúðum sem líkjast hótelherbergjum. Fyrir þá sem vilja spara peninga er tilvalið að kaupa inn í matinn í næsta stórmarkaði og nýta eldhúsið sem fylgir íbúðinni, enda má þar finna allt til alls.
Fyrir nýliðann
Að lokum mælir greinarhöfundur þessu heimili fyrir þá sem eru að leigja á Airbnb í fyrsta sinn og vita ekki alveg hverju við er að búast. Þeir sem gista hér geta verið fullkomlega öruggir: íbúðin er afar stílhrein og snyrtileg og engir persónulegar munir til staðar.