fbpx
Mánudagur 05.janúar 2026
Eyjan

Björn Jón skrifar: Lærdómur sögunnar

Eyjan
Sunnudaginn 4. janúar 2026 16:00

Galíuleuvatn varð á svipstundu sem ólgandi haf í ógurlegu hvassviðri eins og lesa má í um fjórða kapítula Markúsarguðspjalls. Hér er í túlkun Rembrandts frá árinu 1633. Myndin heitir á frummálinu „Christus in de storm op het meer van Galilea“ og var lengi varðveitt á Isabella Stewart Gardner Museum í Boston. Henni var stolið ásamt fleiri dýrmætum listaverkum árið 1990 og hefur ekki fundist síðan.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Allir þurfa að læra sögu, þó ekki nema væri til að auka sjálfskilning og þekkja svörin við einföldum spurningum á borð þá hvernig Íslendingum tókst á tuttugustu öld að brjótast úr örbirgð til bjargálna, en nánar tiltekið þá tólffaldaðist landsframleiðsla á mann hér á landi á síðustu öld og Íslendingar komust í hóp ríkustu þjóða heims. Augljósustu svörin við þessari spurningu liggja í nútímavæðingu samfélagsins, nýjum og stórvirkum atvinnutækjum, vélvæðingu fiskveiða og vinnslu, síðar uppbyggingu stórvirkjana og stóriðnaðar samhliða aðgangi að erlendum mörkuðum. Stórstígastar verða framfarirnar þegar til kemur erlent fjármagn. En framfarnir gátu samt ekki orðið nema með menntabyltingu, fjöldi Íslendinga sótti sér margs konar þekkingu til nálægra ríkja og byggði upp skóla hér á landi.

Þessi mikli uppbyggingartími — fyrstu áratugir síðustu aldar — hefur verið mér mjög hugleikinn nú um áramótin eftir að ég hafði lesið nýútkomna bók Ásgeirs Jónssonar seðlabankastjóra um afa sinn og ömmu, Bjarna Jónsson og Laufeyju Valgeirsdóttur, sem bjuggu í Asparvík á Ströndum og síðar í Bjarnarhöfn á Snæfellsnesi. Bókin er skrifuð af mikilli næmni og vandvirkni; stakri virðingu fyrir forfeðrunum án þess þó að nokkuð sé dregið undan. Höfundur hefur viðað að sér gríðarmiklum fróðleik sem varpar ljósi á búskaparhætti og útgerð á Ströndum. Ég verð satt að segja að ýmislegt þar kom mér mikið á óvart, en þá er til þess að líta að menning og atvinnuhættir voru ekki hinir sömu um landið allt. Blessunarlega hafa fyrri tíðar fræðimenn safnað miklum fróðleik hér um og mætti þar nefna Íslenska þjóðhætti Jónasar frá Hrafnagili og Íslenska sjávarhætti Lúðvíks Kristjánssonar, bækur sem eiga að vera til að hverju heimili. Við bætist svo staðbundinn fróðleikur sem menn hafa víða borið gæfu til að varðveita, eins og til dæmis með útgáfu Strandapóstsins.

Hugarfarsbreyting

Ásgeir lætur ekki þar við sitja að rekja sögu síns fólks á Ströndum heldur setur hann hana í samhengi við hræringar í þjóðmálum, ekki hvað síst efnahagsmálum, sem eru jú sérsvið hans. Þá komum við að hinu sem ég nefndi hér í upphafi, hvernig við skýrum það að tiltölulega staðnað og fátækt bændasamfélag varð að tæknivæddu nútímaríki þar sem lífskjör urðu með því besta sem þekkist í víðri veröld. Ég nefndi hér að framan ýmsa ytri þætti en Ásgeir telur að hugarfar fólksins sjálfs hafi haft lykiláhrif hér á, hugarfar fólksins af svokallaðri aldamótakynslóð.

Í gamla sveitasamfélaginu hafði vinnusemi vitaskuld verið dyggð enda iðjuleysi móðir allra lasta en það sem við bættist um aldamótin næstseinustu var ungmennafélagsandi sem fól í sér sannan vilja í verki til að byggja upp nýtt velmegandi Ísland. Ásgeir gerir í þessu sambandi að umtalsefni kvæðið „Syndafall“ úr hinni frægu ljóðabók séra Sigurðar Einarssonar í Holti, Hamar og sigð. Þar koma fyrir ljóðlínurnar: „Að særa hinn svarta svörð til hlýðni.“ Mannfólkið gæti nefnilega ræktað sinn eigin Edensrann með áræði og hugviti að vopni. Ásgeir segir ekki leika á tvennu að trúin hafi gegnt hér lykilhlutverki, hún hafi verið samofin viðhorfi forfeðra sinna til lífsins. Vinnan væri alls engin bölvun, það væri skylda mannsins að yrkja jörðina og búa sér sjálfum í haginn.

Ásgeir birtir glefsu úr viðtali við ömmu sína, Laufeyju, sem tekið var árið 1974. Þar sagði hún það aldrei hafa þjakað líkama sínum eða sálarheill að vinnan væri mikil: „Ég er ekki alinn upp við það að líta á vinnuna sem böl. Við hjónin höfum bæði hlotið þá heimanfylgju, að hver sá er gengi heill til skógar „skyldi neyta síns brauðs í sveita síns andlits.““

Hér kynnu margir að benda á að þannig hafi það verið um allar aldir — menn hafi stritað í sveita síns andlits — en eftir því sem ég les fleiri minningar og æviþætti fólks af svokallaðri aldamótakynslóð þykir mér blasa við að það hugsaði með öðrum hætti en forfeður þeirra; setti sér háleitari markmið í lífinu. Vitaskuld sköpuðust fleiri tækifæri en áður en augljóst er að þessi kynslóð stefndi hærra, og hún var að auki reglusamari og fágaðri í háttum en fyrri kynslóðir. Athugum meðal annars í þessu sambandi að Ísland verður fyrst vestrænna landa til að banna sölu og tilbúning áfengra drykkja. Ásgeir getur þess að Bjarni afi sinni hafi aldrei neytt áfengis eða tóbaks um sína daga. Grípum niður í lýsingu Ásgeirs á afa sínum:

„Hann var alla jafna glaðlegur og yfirleitt lék bros um varir hans en hann fór samt aldrei með spaug eða spé eða hló upphátt. Hann tók aldrei þátt í eftirhermum eða kaldhæðni um náungann sem svo mjög var iðkuð á Ströndum. Ef hann hló þá brá hann hendi fyrir munn sér. Líkt og honum fyndist það ekki hæfa. Þá blótaði hann aldrei né fór með tvíræðni af nokkrum toga. Hann hafði rólegt fas og talaði yfirleitt af hógværð en að baki bjó járnharður vilji.“

Stóri lærdómurinn

Lýsingar Ásgeirs á afa sínum minntu mig á móðurafa minn heitinn sem var líku reki þó fæddur væri hér í Reykjavík og eldist upp við aðrar aðstæður. Lýsingin minnir á lýsingar á heilli kynslóð ef út það er farið, kynslóðinni sem kennd er við aldamótin næstsíðustu. Venjulega er þá átt við fólk sem hafði miklar hugsjónir um viðreisn lands og þjóðar, trúði því að með mikilli vinnu og samstilltu átaki yrði þjóðin hafin upp úr fátækt og fáfræði til bjargálna og þekkingar. Hér hafði margt áhrif á, þar með talið skáldin og Ásgeir vitnar til ótal kvæða sem forfeður hans unnu en annar þáttur er stóraukin lestur Íslendingasagna sem urðu ekki almenningseign í prentuðum heildarútgáfum fyrr en um aldamótin 1900. Þjóðin vaknaði þar með öll til vitundar um hið glæsilega samfélag sögualdar.

Hér á árum áður var því iðulega haldið fram að Íslendingar væru of fáir og smáir til að geta stjórnað eigin málum. Aldamótakynslóðin afsannaði þær fullyrðingar. Ísland er harðbýlt land sem varð nútímalegt velsældarríki fyrir hugvit og vinnusemi fólksins sjálfs. Stóri lærdómurinn af sögunni er sá að hagsæld til framtíðar mun byggja á því sama.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 6 dögum

Vilhjálmur Egilsson: Kannski er þetta tímabil í sögu Bandaríkjanna bara liðið

Vilhjálmur Egilsson: Kannski er þetta tímabil í sögu Bandaríkjanna bara liðið
Eyjan
Fyrir 1 viku

Guðrún Karls Helgudóttir: Þegar á reynir leitar fólk til Kirkjunnar

Guðrún Karls Helgudóttir: Þegar á reynir leitar fólk til Kirkjunnar
Eyjan
Fyrir 1 viku

Guðrún Karls Helgudóttir: Ótrúlegt hvað stórfelldar breytingar á Þjóðkirkjunni frá 2019 hafa farið lágt

Guðrún Karls Helgudóttir: Ótrúlegt hvað stórfelldar breytingar á Þjóðkirkjunni frá 2019 hafa farið lágt
EyjanFastir pennar
Fyrir 1 viku

Nína Richter skrifar: Er ekki allt í jólalagi?

Nína Richter skrifar: Er ekki allt í jólalagi?
EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Björn Jón skrifar: Framtíðin veltur á lestri

Björn Jón skrifar: Framtíðin veltur á lestri
Eyjan
Fyrir 2 vikum

Gylfi Magnússon: Eini raunhæfi kosturinn er innganga í ESB og upptaka evru

Gylfi Magnússon: Eini raunhæfi kosturinn er innganga í ESB og upptaka evru
Eyjan
Fyrir 2 vikum

Gylfi Magnússon: Bandaríkjamenn eru sjálfir að borga tolla Trumps

Gylfi Magnússon: Bandaríkjamenn eru sjálfir að borga tolla Trumps
Eyjan
Fyrir 2 vikum

Orðið á götunni: Til hamingju – Eins árs afmæli og verkin tala

Orðið á götunni: Til hamingju – Eins árs afmæli og verkin tala