
Þingmenn Sjálfstæðisflokksins létu teyma sig út í fjóshaug í Ásthildar Lóu málinu, sem hefði aldrei átt að verða neitt mál, og svo sátu Sjálfstæðismennirnir eftir í fjóshaugnum þegar upp var staðið. Þetta var verra fyrir flokkinn en málþófið gegn leiðréttingu veiðigjalda. Ríkisstjórnin græddi á málþófinu vegna þess að hún losnaði við að láta samþykkja fullt af málum sem sum hver hafa ekki verið lögð fram aftur. Vilhjálmur Egilsson er gestur Ólafs Arnarsonar í hlaðvarpi Eyjunnar.
Vilhjalmur Egilsson - 7
Þú sast nú á þingi lengi.
„Já, tólf ár.“
Hvernig líst þér á þína menn? Þinna flokksmenn? Finnst þér þeir hafa staðið sig vel? Varstu ánægður með þá í málþófinu?
„Ég segi nú bara, það græddi nú enginn meira á málþófinu heldur en ríkisstjórnin. Vegna þess að þá var ekki hægt að afgreiða fullt af alls konar málum sem var búið að leggja fram, sem var síðan hægt að taka og skoða upp á nýtt. Og einhver komu bara ekkert fram aftur eða komu í allt annarri mynd heldur en lagt var upp með og svona.“
Stjórnarandstöðuflokkarnir töpuðu verulegum stuðningi, sýna skoðanakannanir.
„Það var nú ekki bara það, held ég. Það var mjög óheppilegt þegar þetta fór í gang, Ásthildar Lóu málið. Mér fannst það nú eiginlega vera meiri skaði heldur en nokkurn tíma málþófið, að Sjálfstæðisflokkurinn gerði þau mistök einhvern veginn að láta teyma sig út í þennan fjóshaug, bara að taka þátt í þessu vegna þess að þetta mál var náttúrulega þannig vaxið. Og ég segi bara, þetta átti aldrei að vera neitt mál.“
Þetta var tilbúið mál.
„Ja, bara stóru mistökin sem að forsætisráðherrann gerir, þegar það kemur einhver kona til hennar og er að tala um eitthvert viðtal og erindi. Það á bara ekkert að hlusta á svona. Það á bara að segja bara við, við þessa manneskju, heyrðu, ég ansa þessu ekki, og þú færð bara eintak af Biblíunni hérna.
En svo var farið að búa til út úr þessu eitthvert stórmál og alla vega bara, guð minn góður. En mér fannst þetta vera bara mjög vont mál, að Sjálfstæðisflokkurinn eða þingmennirnir skyldu yfirleitt vera að blanda sér í þetta af því að þeir sátu dálítið, þeir sátu bara eftir í þessum fjóshaug þegar upp var staðið.“
Já, Þetta kom mjög illa út fyrir þá. Ég held að það sé ekkert hægt að deila um það.
„En með málþófið, ja, hvað getur maður sagt? Mér fannst það ekki eins alvarlegt. Ég skildi það nú að mörgu leyti og þetta er alltaf bara tvíeggjað sverð fyrir hvern sem tekur þátt í þessu.“
Ég held þeir hafi skorið sig á þessu.
„Ég myndi segja að ríkisstjórnin græddi á þessu bara út af því að þá losnaði hún við að afgreiða fullt af þessum ruglmálum. En ég veit það ekki. Þetta bara kemur í ljós.“