fbpx
Laugardagur 06.september 2025
EyjanFastir pennar

Sigmundur Ernir skrifar: Okkur hefur mistekist hrapallega á húsnæðismarkaði

Eyjan
Laugardaginn 6. september 2025 13:30

Mynd: Eyþór Árnason

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Í samfélagi þar sem aðeins fimmtungur ungmenna hefur ráð á að koma sér þaki yfir höfuðið er ástæða til að staldra við. Vel fer raunar á því að skammast sín um stund fyrir þá pólitísku afleiki sem eru að baki í málaflokknum. Þar blasa við fingurbrjótar á borð við gjaldþrota séreignarstefnu og gersamlega stjórnlausa braskvæðingu sem hefur sprengt upp íbúðaverð á nýrri öld.

Og sjáum til. Þreföldun. Það lætur nokkuð nærri lagi. Á rétt liðlega tíu árum eða svo hefur verð á ósköp venjulegri íbúð í Reykjavík farið úr 50 milljónum í 150 milljónir. Það er alþekkt. Og sér víða stað.

Það eru efnahagslegir hamfarir, einkum fyrir unga fólkið, eins og því sé ekki ætlaður staður í samfélagi þjóðanna, og beri að greiða fjórum sinnum meira en aðrir fyrir sömu íbúðina, ævina á enda.

Veldur þar mestu vonlaus króna, en líka lóðapólitík sveitarfélaga og ríkisvædd ringulreið á stóru sviði mannvirkjamála. Fyrir nú utan endalausa eftirlátssemi við kapítalið sem eitt skuli ráða.

En gott og vel, byrjum einmitt á krónunum allt í kringum okkur. Því hvers lags eru þær?

Sú danska býður upp á tveggja til fjögurra prósenta húsnæðisvexti, allt eftir samningum og kjörum lánastofnana, en verðbólga í Danmörku mælist nú 1,8 prósent. Danska leiðin er líka fjölbreytt, svo sem á leigumarkaði. Dæmi eru um lífeyrissjóði sem reisa fjölbýli þar sem leigan dregst saman eftir því sem byggingarlánið lækkar.

Sænska leiðin leggur rétt ríflega þriggja prósenta vexti á húsnæðiskaupendur, gegn því að lántakinn reiði fram 15 prósent af eigin fé, en stýrivextir í Svíþjóð eru tvö prósent. Þar er lágmarks afborgun af höfuðstóli lánsins bundin við tvö prósent á ári. Dæmigerð íbúð á þessum kjörum greiðist upp á 25 árum, en skemur ef kaupandanum er fært að greiða meira inn á lánið.

„Til samanburðar hafa meðalvextir innan evrunnar verið 3,3 prósent í ár samkvæmt Seðlabanka Evrópu. Munurinn er 6,6 prósent, Íslandi í óvil.“

Nefnum líka Spán til gamans. Húsnæðisvextir þar eru að jafnaði 3,5 til 3,9 prósent. Dæmi eru þó um Íslendinga sem greiða 4,2 prósent vexti, en það er af því að þeir versla við alþjóðlega banka á Spáni af ástæðum sem rekja má til þess að spænskir bankar treysta ekki fólki með tekjur í íslenskum krónum.

Á Íslandi hafa vegnir vextir húsnæðislána á þessu ári verið 9,9 prósent þegar uppsöfnunaráhrif eru tekin með í dæmið. Stýrivextir hér á landi eru nú 7,5 prósent, en fóru hæst í 9,25 prósent í byrjun áratugarins. Verðbólga er nú fjögur prósent. Afleiðing þessa er að lántakendur reyna að afturhlaða lán sín í verðtryggingu, sem þekkist ekki annars staðar, svo þeir verða að greiða sama lánið margsinnis.

Til samanburðar hafa meðalvextir innan evrunnar verið 3,3 prósent í ár samkvæmt Seðlabanka Evrópu. Munurinn er 6,6 prósent, Íslandi í óvil.

Og enda þótt nokkrir stjórnmálaflokkar á Alþingi lofi og prísi svona gjaldmiðil, er ekki öll vitleysan eins hér á landi þegar kemur að húsnæðismálum. Íslenskar byggingareglugerðir gera fátt annað en að hækka húsnæðisverð, og það sama verður sagt um óhemju flóknar eftirlitskröfur í hverju sveitarfélagi af öðru, sem þess utan leggja á slík lóðagjöld og síðar fasteignagjöld á íbúa sína, að kalla má hreina óhæfu. Og víðast hvar fara þau hækkandi. Þá verður ekki annað séð en að stjórnvöld, sem fara með lagasetningu og reglugerðarvald, bæði hvað varðar fjármálamarkað, mannvirki og skipulagsmál, hafi beinlínis gengið erinda fjármagnseigenda og sérhagsmunaafla á síðustu árum og áratugum, sem sjá hag sínum best borgið í hávaxtaumverfi. Gróðatölur bankanna blasa þar við. Þeir elska krónuna.

Þessu verður að linna, svo unga fólkið fari ekki í auknum mæli að flýja svona land sem kann ekki að koma húsnæðismálunum í eðlilegt horf, og leggur heilu björgin í veg fyrir það, í stað þess að greiða götu þess.

Þar er komin áskorun og úrlausnarefni nýrra stjórnvalda. Einmitt, að þjónusta fólk.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

EyjanFastir pennar
Fyrir 1 viku

Þorsteinn Pálsson skrifar: Sleggjudómar

Þorsteinn Pálsson skrifar: Sleggjudómar
EyjanFastir pennar
Fyrir 1 viku

Thomas Möller skrifar: Er Ísland fimm stjörnu land?

Thomas Möller skrifar: Er Ísland fimm stjörnu land?
EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Nína Richter skrifar: Strætófólkið og spandex-rassarnir

Nína Richter skrifar: Strætófólkið og spandex-rassarnir
EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Svarthöfði skrifar: Eftirlit í þágu milliliða – hver fylgist með eftirlitsmönnunum?

Svarthöfði skrifar: Eftirlit í þágu milliliða – hver fylgist með eftirlitsmönnunum?
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Davíð Þór Björgvinsson skrifar: Stjórnarskráin og ESB

Davíð Þór Björgvinsson skrifar: Stjórnarskráin og ESB
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Þorsteinn Pálsson skrifar: Sverð og skildir íslenskra hagsmuna

Þorsteinn Pálsson skrifar: Sverð og skildir íslenskra hagsmuna
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Björn Jón skrifar: Vestrænt sjálfshatur

Björn Jón skrifar: Vestrænt sjálfshatur
EyjanFastir pennar
Fyrir 4 vikum

Sigmundur Ernir skrifar: Svona er pólitíkin að breytast á Íslandi

Sigmundur Ernir skrifar: Svona er pólitíkin að breytast á Íslandi