fbpx
Miðvikudagur 24.september 2025
EyjanFastir pennar

Thomas Möller skrifar: Veisla hjá Viðreisn

Eyjan
Miðvikudaginn 24. september 2025 06:00

Í forgrunni má sjá Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur, Guðmund Kristjánsson í Brim og Guy Verhofstadt, fyrrverandi forsætisráðherra Belgíu. Mynd/samsett

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Viðburðaríkt og vel heppnað landsþing Viðreisnar var haldið um helgina og var það hið fjölmennasta í sögu flokksins en þátttakendur voru um 300 sem komu af öllu landinu.

Viðreisnarþingið var sannkölluð lýðræðisveisla þar sem gleði, vinátta og samhugur einkenndi starfið.

Á þinginu var mótuð stefna til næstu ára. Árangri flokksins í síðustu kosningum var fagnað svo og þátttöku hans í núverandi ríkisstjórn sem lofar góðu. Áherslur Viðreisnar eru mjög áberandi í stjórnarsáttmálanum.

Flokkurinn fékk 33.606 atkvæði eða um 16% fylgi í síðustu kosningum en Viðreisn hefur náð þessum mikla árangri á aðeins tæpum 10 árum en flokkurinn var stofnaður af hópi kvenna og karla undir forystu Benedikts Jóhannessonar þann 24. maí 2016 eftir undirbúningsstarf í nokkur ár.

Það sem sameinaði hópinn var jákvæðni gagnvart Evrópusambandinu og það að Hrunið hafi sýnt að Ísland þarf að eiga bandamenn, bæði í meðbyr og þegar á móti blæs, eins og Benedikt orðar það í blaði sem hann gaf út um sögu flokksins.

Viðreisn lætur verkin tala

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar, sagði þetta um stjórnmálaályktunina: „Viðreisn var sett á fót til þess að vinna að umbótum í samfélaginu og standa vörð um dýrmæta frelsið okkar. Við höfum sett mark okkar á stjórn landsins og munum halda því áfram. Ég er mjög stolt af stjórnmálaályktun flokksins. Þar er sleginn tónn fyrir það sem koma skal, bæði í ríkisstjórn en ekki síður í sveitarstjórnarkosningunum næsta vor.“

Forgangsmál Viðreisnar eru framsýni, frjálslyndi og fagleg vinnubrögð.

Viðreisn vill samkeppnishæft og heilbrigt atvinnulíf, öfluga velferðarþjónustu fyrir alla landsmenn og að almannahagsmunir séu ávallt settir framar sérhagsmunum.

Með opnu hagkerfi og nýsköpun ásamt hagstæðum rekstrarskilyrðum fyrir fyrirtækin í landinu ætlar Viðreisn að efla atvinnulífið, styðja við einstaklingsframtakið og efla markaðslausnir. Viðreisn ætlar að draga úr samkeppnisrekstri ríkisfyrirtækja og efla samkeppnishæfni einkarekinna fyrirtækja.

Náttúruvernd fékk mikinn hljómgrunn á landsþinginu enda er náttúra Íslands ein dýrmætasta auðlind okkar.

Evrópuhugsjónin er lykilatriði hjá Viðreisn

Evrópuhugsjónin um frið, hagsæld og samvinnu lýðræðisþjóða er kjarni í stefnu Viðreisnar enda mun hagsmunum Íslands best borgið með því að gerast fullgildur aðili að Evrópusambandinu.

Við Íslendingar eigum landfræðilega, menningarlega og efnahagslega samleið með þeim sjálfstæðu og fullvalda ríkjum í ESB sem þar hafa átt gott og farsælt samstarf um mannréttindamál, öryggismál og virðingu fyrir alþjóðalögum.

Með fullri aðild fæst meira svigrúm og athafnafrelsi á stærsta frjálsa markaðssvæði heims. Þetta á við einstaklinga í atvinnurekstri um land allt – bændur og búalið, vísindi og skapandi menningarstörf.

Full aðild að ESB leiðir til  sterkara efnahagslegs öryggis og fyrirsjáanleika fyrir heimilin í landinu með upptöku evru.

ESB aðild eykur vald einstaklinganna segir Guðmundur í Brim

Sigmar Guðmundsson þingmaður Viðreisnar stjórnaði fjörugum pallborðsumræðum. Þar kom ýmislegt athyglisvert fram.

Guðmundur Kristjánsson sagði að engin ógn stæði af aðild Íslands að ESB fyrir fyrirtækin í landinu eða neytendur.

Hann væri hins vegar skíthræddur við aðild ef hann væri stjórnmálamaður vegna þess að aðild að ESB þýddi að íslenskir stjórnmálamenn gætu ekki lengur úthlutað gæðum til vina og vandamanna að vild.

Í raun er Guðmundur að segja að aðildin eykur einstaklingsfrelsið á Íslandi.

Krónan er alltof lítill gjaldmiðill sagði Finnbjörn hjá ASÍ

Finnbjörn Hermannsson, forseti ASÍ, hóf mál sitt á því að segjast telja að það hafi verið mistök við síðustu aðildarviðræður að halda enga þjóðaratkvæðagreiðslu. Hann tiltók að ASÍ hafi ekki tekið afstöðu til aðildar núna en þegar kemur að atkvæðagreiðslu muni þau hvetja félagsfólk sitt til að taka þátt og greiða atkvæða út frá sinni sýn. Hann sagðist styðja allar aðgerðir sem lækki vexti og verðbólgu.

Finnbjörn sagði augljóst að íslenska krónan væri of lítill gjaldmiðill til að nota í landinu okkar.

Atvinnurekendur vilja ekki ESB aðild sagði Sigríður hjá SA

Sigríður Margrét Oddsdóttir, framkvæmdastjóri SA sagði stuðning við aðild fara þverrandi innan SA og vitnaði í nýja skoðanakönnun um vilja stjórnenda aðildarfyrirtækja samtakanna máli sínu til stuðnings. Síðar kom reyndar fram þetta væri afstaða aðeins um 14% meðlima í SA.

Fleiri voru þó fylgjandi upptöku evru enda hafa flest stærri fyrirtæki innan SA þegar yfirgefið krónuhagkerfið og taka sín lán í erlendum gjaldmiðlum á mun lægri vöxtum en almenningur og minni fyrirtæki. Þeir sjá greinilega kosti við stöðugleikann sem fylgir evrunni.

Það vakti furðu áheyrenda að heyra atvinnurekendur á Íslandi skuli ekki vera jákvæðari gagnvart fullri aðild landsins að ESB þar sem Ísland sæti við borðið við ákvarðanatöku um lög og reglugerðir í stað þess að fá nánast ekkert að hafa með stefnumótun sambandsins gegnum EES aðild sína.

ESB aðild mun opna um 400 milljóna manna tollfrjálst markaðssvæði fyrir íslenskar vörur og þýða aukna samkeppni frá erlendum bönkum og tryggingarfélögum sem mun lækka tryggingarkostnað og vexti fyrir fyrirtækin í landinu.

Guy Verhofstadt segir lýðræðið á undanhaldi

Guy, sem er fyrrverandi forsætisráðherra Belgíu, flutti ræðu af miklum eldmóði sem vakti fundarmenn til umhugsunar um þá heimsmynd sem nú blasir við. Hann minnti þingfulltrúa á að lýðræði og frelsi eru ekki sjálfgefin gæði heldur verðmæti sem við verðum stöðugt að verja.

Guy sagði að við búum á tímum óstöðugleika þar sem grafið er stöðugt undan lýðræði, mannréttindum og frelsi einstaklinga. Hann hélt því fram að í slíkri heimsmynd væri nauðsynlegt að Evrópa stæði vörð um lýðræðið og að ESB væri mikilvægt mótvægi við þá þróun í einræðisátt sem væri í fullum gangi í heiminum.

Hann sagði að samstaða Evrópu um gildi ESB væri ekki aðeins æskileg, heldur nauðsynleg.

Evrópusambandið er sterkasta vígi lýðræðis og mannréttinda í heiminum að mati Guys og hvatti hann þingfulltrúa til að efla umræðu og kynningu á kostum aðildar meðal landsmanna.

Tímamótalandsþing

Þessi orð Guys eru nauðsynleg hvatning til allra Íslendinga um að standa vörð um Evrópuhugsjónina sem er sterkasta vopn okkar í dag í baráttunni gegn einræði og skerðingu lýðræðis um allan heim.

Fyrir landsþingsfulltrúa Viðreisnar var síðasta helgi mikil upplifun og ríkti mikil samheldni hjá þeim.

Það er ljóst að Viðreisn mun hafa mikil áhrif á þróun íslensks þjóðfélags og hagkerfis á næstu árum.

Hvet ég þig ágæti lesandi að fara inn á heimasíðuna www.vidreisn.is og kynna þér öll þau góðu mál sem Viðreisn ætlar að hrinda í framkvæmd á næstu árum.

Höfundur er stjórnarmaður í Evrópuhreyfingunni. www.evropa.is.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Svarthöfði skrifar: Framsókn í útrýmingarhættu – menn verða að gæta orða sinna

Svarthöfði skrifar: Framsókn í útrýmingarhættu – menn verða að gæta orða sinna
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Davíð Þór Björgvinsson skrifar: Rétturinn til fundafriðar

Davíð Þór Björgvinsson skrifar: Rétturinn til fundafriðar
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Þorsteinn Pálsson skrifar: Sleggjudómar

Þorsteinn Pálsson skrifar: Sleggjudómar
EyjanFastir pennar
Fyrir 4 vikum

Thomas Möller skrifar: Er Ísland fimm stjörnu land?

Thomas Möller skrifar: Er Ísland fimm stjörnu land?
EyjanFastir pennar
22.08.2025

Nína Richter skrifar: Strætófólkið og spandex-rassarnir

Nína Richter skrifar: Strætófólkið og spandex-rassarnir
EyjanFastir pennar
21.08.2025

Svarthöfði skrifar: Eftirlit í þágu milliliða – hver fylgist með eftirlitsmönnunum?

Svarthöfði skrifar: Eftirlit í þágu milliliða – hver fylgist með eftirlitsmönnunum?