Í ávarpi sínu á Landsfundi Viðreisnar um helgina lagði Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir áherslu á frelsi, öryggi, virðingu fyrir lögum og lífsgleði sem grundvöll að samfélagi tækifæra og velmegunar. Hún kynnti áform um atvinnustefnu sem efli samkeppnishæfni Íslands, menntun, sjálfbær orkumál og betri innviði. Evrópumálin voru í forgrunni og lagði hún áherslu á komandi þjóðaratkvæðagreiðslu um áframhald viðræðna við ESB. Þorgerður hvatti til verndar alþjóðalaga, mannréttinda og lýðræðis gegn popúlisma, og undirstrikaði mikilvægi opins, frjálslynds og réttláts samfélags.
Viðburðaríku og vel heppnuðu landsþingi Viðreisnar lauk í gær en fundað var á Grand hótel í Reykjavík alla helgina. Landsþingið var hið fjölmennasta í sögu flokksins og voru þátttakendur um 300.
Fjölbreytt málefnavinna for fram báða dagana og á laugardag var ávarp formanns, Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur. Þorgerður fór vítt og breitt yfir málin og hrósaði samráðherrum sínum úr Viðreisn í hástert, auk þess sem hún hrósaði þingflokknum og starfsfólki hans fyrir frábæra frammistöðu á stuttu og stormasömu þingi síðasta vetur. Sveitastjórnarfólkið fékk hrós og svo þakkaði Þorgerður fjölmörgum sjálfboðaliðum sem hafa lagt blóð, svita og tár í að koma flokknum á þann stað sem hann er í dag, í ríkisstjórn, með þingmenn í öllum kjördæmum og víða með fulltrúa í sveitarstjórnum.
„Viðreisn vill samfélag tækifæra og velmegun – og þá á ég ekki aðeins við efnislega velmegun, heldur líka óefnisleg verðmæti sem ekki er endilega hönd á festandi en eru okkur svo dýrmæt – eins og frelsi, öryggi, virðing og lífsgleði. Draum okkar um að öll fáum við lifað góðu lífi, þar sem ekkert okkar er skilið eftir og við fáum öll að láta ljós okkar skína – á okkar eigin forsendum. Heimur þar sem jafnvægi ríkir. Þar sem er rými til að skapa og stækka kökuna. Fyrir okkur öll.
Það er undir okkur komið að halda áfram að skapa samfélag sem er opið og frjálslynt en á sama tíma öruggt og réttlátt þannig að hægt sé að skapa störf sem byggja á hugviti, þekkingu, sköpun og sjálfbærni – allt eiginleikar sem hafa tryggt byggð á þessari eyju í árþúsund. Það er þannig sem við tryggjum að framtíðarkynslóðir búi ekki aðeins við vöxt, heldur eigi nóg. Skipting gæða er ekki leikur þar sem einn vinnur og annar tapar. Það er ekki þannig. Og við viljum tryggja það.“
Þorgerður kom inn á áformin um atvinnustefnu sem fyrst og fremst er ætlað að styrkja samkeppnishæfni Íslands.
„Við ætlum rjúfa kyrrstöðuna í orkumálum – með skynsamlegum og sjálfbærum hætti. Við þurfum betri vegi, öruggari samgöngur, og hraðari stafræna þjónustu þannig að allt kerfið virki betur fyrir fólk og fyrirtæki um land allt. Við ætlum að losa um reglugerðir sem hamla framförum.
Á sama tíma blasa við okkur fjöldi tækifæra. Heimurinn er að breytast og við getum spilað stórt hlutverk, því við eigum hreina orku, menntað fólk og sterkt samfélag.
Við getum ekki talað um framtíðina án þess að tala um menntun. Menntun er besta fjárfesting sem lítið samfélag eins og okkar getur gert. Hún er lykillinn að tækifærum, nýsköpun, öflugum atvinnurekstri og betri lífsgæðum. Við leggjum áherslu á sókn í menntamálum, virðingu fyrir kennurum og skýrar leiðir fyrir börn og ungmenni sem þurfa ólíkar leiðir í námi. Að grunnurinn í upphafi náms styrki þau fyrir þeirra eigið lífshlaup og mismunandi áskoranir.“
Þorgerður vék einnig að því hvernig sótt er aðalþjóðakerfinu sem hefur frá seinna stríði verið vettvangur stórra viðfangsefna en má nú þola mikla ágjöf og það frá þjóðinni sem er hugmyndasmiður kerfisins og hefur þangað til nýlega verið helsti verndari þess og varðhundur.
Hún minnti á að enginn er eyland, ekki einu sinni sjálfstæð þjóð úti á miðju Atlantshafi.
Þá kom hún að málinu sem er fyrirferðarmikið hjá Viðreisn, þjóðaratkvæðagreiðslunni um framhald viðræðna við Evrópusambandið.
„Viðreisn hefur alltaf talað skýrt: við viljum að þjóðin fái val um hvar hún telur hagsmunum sínum best borgið. Við einfaldlega treystum þjóðinni. Ísland á heima í hjarta Evrópu. Við erum þegar djúpt tengd – með EES-samstarfinu, með Schengen, með öllum þeim reglum og tengslum sem daglegt líf okkar byggist á. Ég stend með þessari skoðun minni og er tilbúin að ræða hana við þjóðina hvenær sem er og hvar sem er.
Með fullri aðild fá einstaklingar, við fólkið í landinu, meira svigrúm og athafnafrelsi á stærsta frjálsa markaðssvæði heims. Þetta á við einstaklinga í atvinnurekstri um land allt – bændur og búalið, vísindi og skapandi menningarstörf. Svo ég minnist ekki á sterkara efnahagslegt öryggi og fyrirsjáanleika fyrir heimilin í landinu með upptöku evru. Við þurfum sterkan gjaldmiðil.
Innan okkar eigin raða er fólk sem skilgreinir sig sem Evrópusinna, hér er líka fólk skilgreinir sig sem Evrópuáhugasamt og svo er ég nokkuð viss um að hér leynist líka nokkrir sem eru bara óákveðnir. Það er bara flott. Í Viðreisn er pláss fyrir alla liti regnbogans og allar stjörnur Evrópufánans. Við erum tilbúin að vinna vinnuna, taka samtalið og fá úr því skorið hvar hugur og hjarta þjóðarinnar liggur.
Nú er rétti tíminn til að sækja fram fyrir fólkið og fyrirtækin. Við treystum þjóðinni til að vega og meta kosti og galla. Við trúum því að við getum átt þetta samtal og komist að skynsamlegri niðurstöðu – saman.
Þjóðaratkvæðagreiðslan verður ekki bara prófsteinn á samband okkar við Evrópu – hún verður prófsteinn á það hvort við ætlum að byggja stjórnmálin á trausti eða hræðslu, á samtali eða upplýsingaóreiðu.“
Undir lok ræðu sinnar vék Þorgerður að því að Ísland á allt sitt undir því að alþjóðalög séu virt og að talað sé hátt og skýrt fyrir þeim.
„Við eigum líka núverandi lífsgæði okkar undir aðgengi að opnum og frjálsum mörkuðum þar sem leikreglur eru skýrar og áreiðanlegar. Það gefur fólkinu okkar og fyrirtækjunum frið og rými til að skapa – hugsa stórt og halda áfram. Þess vegna ætlum við líka að byggja upp varnir, tala skýrt fyrir alþjóðalögum, standa með mannréttindum og styðja bandalagsríki okkar. Þannig höfum við áhrif í heiminum.
Þær þjóðir sem treysta á grunn gildi lýðræðis, mannréttindi og frjáls viðskipti eiga í vök að verjast. Popúlistaflokkum á jöðrunum til hægri og vinstri vex nú fiskur um hrygg víða um lönd bæði austan hafs og vestan.
Hér heima sjáum við vísi af þessari pólitík. Sumir hafa meira að segja gengið svo langt að taka upp nánast óendurskoðaða strauma sem fljóta um á gruggum hægri væng bandarískra stjórnmála. Flytja inn popúlisma. Þessar hugmyndir eiga ekkert skylt við það opna, frjálsa og lýðræðislega samfélag sem okkur hefur tekist að skapa og er í stöðugri mótun á þessari eyju í Norður Atlantshafi.
Lýðræðið snýst ekki bara um leikreglur, sem við verðum að virða. Það snýst líka um gildi einstaklinganna, trú á grunngildi mannlegs samfélags.
Hér er Viðreisn í lykilhlutverki. Við tölum hátt og skýrt fyrir frelsi og mannvirðingu.“