Framsóknarflokkurinn er kominn undir fimm prósent og fengi því engan uppbótarmann ef kosið væri til Alþingis í dag. Flokkurinn hefur eitthvert smáfylgi í Norðvestur og Norðaustur og fengi kjördæmakjörna þingmenn í báðum þeim kjördæmum en annars staðar myndi hann þurrkast út. Ljóst er að fylgi flokksins er orðið hverfandi á höfuðborgarsvæðinu og einhvern tímann hefði það þótt saga til næsta bæjar að Framsókn fengi engan þingmann í Suðurkjördæmi.
Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður flokksins, bar sig þó mannalega í sjónvarpsfréttum í gærkvöldi og sagði þessa nýjustu skoðanakönnun vera sér hvatningu. Hann hefði fulla trú á því að fylgið kæmi aftur þegar flokknum tækist að beina kjósendum að grunngildum flokksins.
Orðið á götunni er að ekki sé hægt að draga fram grunngildi eins stjórnmálaflokks betur en þegar hann fær tækifæri til að hrinda stefnumálum sínum í framkvæmd í ríkisstjórn. Framsókn var nær sleitulaust í ríkisstjórn frá 2013 til 2024, þar af síðustu sjö árin í vinstri stjórn Katrínar Jakobsdóttur og Bjarna Benediktssonar. Þar fór Framsókn með mikilvæga málaflokka á borð við samgöngu- og innviðaráðuneyti. Sigurður Ingi gegndi því embætti sjálfur. Í tíð hans grotnuðu innviðir Íslands svo að talað er um 500 milljarða innviðaskuld er sú ríkisstjórn hrökklaðist frá.
Varaformaður Framsóknar, Lilja Alfreðsdóttir, sem sjálf var ráðherra í síðustu ríkisstjórn og missti þingsæti sitt í kosningunum í nóvember, koma á Rás 2 í morgun og sagði marga hafa hvatt sig til að bjóða sig fram til formennsku í flokknum og að hún lægi nú undir feldi. Allt bendir til þess að flokksþing verði snemma á næsta ári þannig að ný forysta verði komin hjá Framsókn fyrir sveitarstjórnarkosningarnar í maí.
Orðið á götunni er að Lilja muni örugglega bjóða sig fram til formanns burtséð frá því hvort Sigurður Ingi óski eftir endurnýjuðu umboði. Formannsferli Sigurðar Inga sé lokið, pólitískt sé hann það sem á ensku er kallað „dead man walking.“ Lilja hafi gefið skýrt til kynna að hún sé hvergi nærri hætt í pólitík þótt þingsætið hafi tapast. Skilur þar á milli hennar og Ásmundar Einars Daðasonar og Willums Þórs Þórssonar sem báðir hafa sagt skilið við stjórnmálin.
Það þykir enn veikja stöðu Sigurðar Inga að ekki er langt síðan Guðni Ágústsson, fyrrverandi formaður flokksins, gagnrýndi forystuna harðlega, svo harðlega að athygli vakti. Gamlir formenn reyna yfirleitt að beita sér ekki gegn sitjandi forystu
Orðið á götunni er að eina spurningin sé hvort Lilja fái mótframboð. Í þingflokki Framsóknar þykir enginn mjög formannslega vaxinn en einna helst er staldrað við nafn Höllu Hrundar Logadóttur, sem hefur nokkra sérstöðu í þingflokknum. Hún kom ný inn í flokkinn fyrir kosningarnar í fyrra og þykir hafa talað fyrir öðrum áherslum en hefð er fyrir innan Framsóknar. Óvíst er að hún fengið aðra þingmenn flokksins til að fylgja sér yrði hún formaður.
Orðið á götunni er að Lilja höfði til hefðbundinna Framsóknarmanna og sé vel tengd. Það vinni með henni í formannskjöri. Hins vegar er hún ekki á þingi og það vinnur gegn henni. Formaður flokks í stjórnarandstöðu, sem ekki situr á Alþingi, er í mjög veikri stöðu og á erfitt um vik með að leiða flokk sinn í stjórnarandstöðu.
Orðið á götunni er að komandi vetur verði mikill átakavetur í Framsóknarflokknum, sem nú berst fyrir lífi sínu og er í hættu með að þurrkast út í mörgum sveitarfélögum. Á það er bent að flokkurinn, sem fékk sína verstu kosningu í síðustu kosningum, 7,8 prósent, hefur tapað 43 prósent af kjörfylgi sínu og mælist nú með aðeins 4,5 prósent. Almennt eykst fylgi flokka í stjórnarandstöðu en Framsókn virðist vera í frjálsu falli. Formennska Sigurðar Inga er fullreynd.