Hallfreðar saga vandræðaskálds fjallar um ungt skáld í krónískri tilvistarkreppu. Hann elskar Kolfinnu en tekst aldrei að raungera þá ást. Hún giftist öðrum og Hallfreður harmar hana allt sitt líf. Ævi hans einkennist af vonbrigðum og mikilli beiskju. Ég finn fyrir andlegum skyldleika með Hallfreði og fleiri óhamingjusömum skáldum sem flæktu líf sitt með vafasömum ákvörðunum.
Margs konar tilvistarkreppa fólks er stöðugt viðfangsefni geðlækna. Margir staldra við á lífsgöngunni, líta í kringum sig og spyrja sig einnar áleitinnar spurningar. „Er ég sáttur við lífið mitt?“ Svarið við þessu er oft þvert nei og þá er farið til geðlæknis. Stundum líkir fólk lífi sínu við brautarpall í ókunnu landi. „Ég stend á pallinum og horfa á lestirnir þjóta hjá. Af einhverjum sökum varð ég eftir meðan aðrir láta drauma sína rætast.“ Þetta er reyndar ekki ný samlíking. Óteljandi blússöngvarar hafa einmitt sungið um einmana sálir á brautarpalli. Mörgum sjúklingum mínum finnst þeir vera týndir í flóknum heimi. „Hvað varð um alla drauma og háleit markmið? Hvar er stóra ástin í mínu lífi?“ Við þetta bætast alls konar efasemdir um eigið ágæti, afbrýðisemi og miklar sjálfsásakanir. Á brautarstöðinni eru margir í svipaðri stöðu. Stundum er reyndar glaumur og gleði á pallinum og mikið drukkið. „Sælt er sameiginlegt skipbrot.“ Næsta dag er tilveran jafn grá og tilbreytingarlaus. Lestirnar hraða sér fram hjá án þess að stansa, fullar af fólki með einhver markmið í lífinu. Lífið einkennist af tilgangsleysi og tómleika.
Sjálfur var ég búsettur á þessari brautarstöð vonbrigðanna um árabil en tókst með herkjum komast á braut. Mér auðnaðist að hætta að drekka og liggja í sjálfsvorkunn. Það er eigin ákvörðun að festast á þessum brautarpalli og engum öðrum um að kenna. Spurningin er hverju vil ég breyta og hvert skal stefnt. Allt er betra en að sitja fastur og taka enga ákvörðun. Það er ávísun á óbreytt ástand og eilíft sálufélag við Hallfreð vandræðaskáld. Hann festist á brautarpalli óhamingjunnar og komst aldrei lengra.