Jón Gnarr, þingmaður Viðreisnar, segir það ánægjuefni að sífellt fleiri konur klæðist þjóðbúningnum við hátíðleg tækifæri. Segir hann karlana mega vera duglegri enda eigi þeir einnig búning.
„Mikið finnst mér gaman að sjá hvað margar konur eru farnar að klæðast Íslenskum þjóðbúningum við hátíðleg tækifæri. Í minni æsku voru það nær einungis gamlar konur sem klæddu sig upp í upphlut, skautbúning og peysuföt en nú eru það ekki síður ungar konur og þeim fjölgar hratt sem eiga fallegan búning sem þær hafa jafnvel saumað sér sjálfar. Þjóðlegt og glæsilegt.“
Segir Jón karlmenn ekki hafa verið jafn duglegir að klæðast Íslenskum karlabúningum.
„Flestir virðast ekki einu sinni vita að þeir séu til. Það er talsvert ólíkt frændum okkar í Færeyjum sem eiga sín þjóðlegu plögg eins og konurnar. Og börnin sín.“
Spyr Jón af hverju þessi góði siður hafi ekki náð sömu fótfestu hér á landi ?
„Við eigum búning. Við eigum jafnvel nokkur afbrigði,“ segir Jón og bætir við að hann langi að breyta þessu.
„Þurfum við ekki að taka höndum saman og hefja þjóðbúning Íslenskra karla til vegs og virðingar ? Ég er amk staðráðinn í að koma mér upp þjóðbúningi og hvet aðra karla til að kynna sér málið.“
Segist Jón þiggja allar upplýsingar og leiðbeiningar séu vel þegnar.