fbpx
Mánudagur 01.september 2025
EyjanFastir pennar

Davíð Þór Björgvinsson skrifar: Rétturinn til fundafriðar

Eyjan
Mánudaginn 1. september 2025 17:30

Davíð Þór Björgvinsson.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Talsvert hefur verið rætt um frægan fund (eða ekki-fund) í Háskóla Íslands 6. ágúst sl. þar sem prófessor Gil S. Epstein frá Ísrael hafði verið fenginn sem fræðimaður til að halda erindi á sérsviði sínu. Fundurinn leystist upp vegna mikils ónæðis frá fundarmönnum sem litu á hann sem tækifæri fyrir sig til að mótmæla framferði Ísraelsmanna á Gaza. Undirritaður var ekki á fundinum, en hefur tvisvar á löngum fundaferli sínum orðið vitni af svipuðu, en þó þannig að einstaka ræðumenn sem mótmælendum var í nöp við urðu á brott að hverfa til koma á friði á fundi sem síðan var fram haldið.

Mannréttindi

Ef við skoðum mál þetta frá mannréttindasjónarmiði snýst það um málfrelsi og fundafrelsi, nánar tiltekið réttindi sem mælt er fyrir um í 73. stjórnarskrárinnar um tjáningarfrelsi, sem og 3. mgr. 74. gr. hennar um rétt manna til að koma saman vopnlausir (fundafrelsi), sbr. einnig 10. og 11. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Hægt er að nálgast þetta frá ólíku sjónarhorni en eitt þeirra er að spyrja hvort í málfrelsi og rétti manns til að mótmæla felist réttur hans til að meina öðrum manni með háreysti og uppivöðslu að taka til máls á fundi sem honum hefur verið boðið til og hleypa þar með fundi upp og eyðileggja hann.

Ef þetta er metið á grundvelli mannréttindasáttmála Evrópu og dómaframkvæmdar mannréttindadómstóls Evrópu þá er bæði stutta og langa svarið eftirfarandi: Nei, í rétti manns til málfrelsis og til að mótmæla felst ekki réttur til að hleypa upp löglegum fundum annarra og eyðileggja þá. Um þetta vitna margir dómar MDE. Þeir ganga út á að ríkinu beri einmitt skylda til að tryggja að menn geti haldið löglega fundi sína í friði fyrir fólki sem er ósátt við ræðumenn sem þar eru á mælendaskrá eða af öðrum ástæðum. Ef ríkið, nánar tiltekið þau yfirvöld innan þess sem málið varðar hverju sinni, rísa ekki undir þeirri skyldu sinni að tryggja mönnum rétt til að halda löglegan fund sinn í friði fyrir háreysti og uppivöðslu annarra sem vilja eyðileggja hann, þá er vissulega mögulegt líta svo á að ríkið hafi brotið gegn jákvæðum skyldum sínum samkvæmt 11. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. En vitaskuld þarf að láta reyna á þetta innanlands fyrst áður en haldið er til Mannréttindadómstóls Evrópu með slíkt mál. Taka má fram að skylda íslenska ríkisins til að vernda með þessum hætti funda- og málfrelsi tekur til allra þeirra einstaklinga sem eru innan lögsögu íslenska ríkisins og er óháð þjóðerni þeirra eða uppruna að öðru leyti.

Hegningarlög

Íslenska ríkið uppfyllir jákvæðar skyldur sínar til verndar fundafrelsi meðal annars með 122. gr. almennra hegningarlaga. Í 1. mgr. greinarinnar segir að hver, sem hindrar, að löglegur mannfundur sé haldinn, skuli sæta sektum eða fangelsi allt að 1 ári, eða fangelsi allt að 2 árum, ef miklar sakir eru, einkum ef ofríki eða ógnun í framferði hefur verið viðhaft. Síðan segir í 2. mgr. sömu greinar að raski nokkur fundarfriði á lögboðnum samkomum um opinber málefni með háreysti eða uppivöðslu, þá varði það sektum eða fangelsi allt að 3 mánuðum.

Ákvæðið er að finna í XIII. kafla almennra hegningarlaga sem ber yfirskriftina: Brot gegn almannafriði og allsherjarreglu. Íslenskir fræðimenn í refsirétti hafa ekki gefið þessu ákvæði mikinn gaum og ekki tókst mér að finna dóma þar sem beinlínis er sakfellt fyrir brot samkvæmt 1. mgr. Þó eru til dómar þar sem 2. mgr. var til skoðunar eða hliðstætt ákvæði í 1. mgr. 113. hegningarlaganna frá 1869.

Nærtækur er sá skilningur að 1. mgr. þessarar lagagreinar taki til allra löglegra „mannfunda“ eins og það er kallað, þ.e. funda sem boðaðir eru á lögmætan hátt og brjóta ekki í bága við lög eða reglur. Um getur verið að ræða margs konar fundi, svo sem stjórnmálafundi, félagsfundi af ýmsu tagi og svo einnig fundi fræðafélaga og akademískra stofnana þar sem rædd eru fræðileg og vísindalega málefni. Ákvæði 2. mgr. sömu greinar sýnist aftur á móti þrengra því ef tekið er mið af orðalaginu, og síðan ákvæðinu í 137. gr. dönsku hegningarlaganna til hliðsjónar, sýnist því ætlað að taka til funda sem eru beinlínis lögboðnir og tengjast opinberum málefnum, t.d. sveitarstjórnarfundi, Alþingisfundi eða aðra opinbera fundi þar sem stjórnvöld taka ákvarðanir.

Ef þetta er réttur skilningur hjá mér á ákvæði 1. mgr. sýnist tilgangur þess vera að tryggja að aðilar sem boða löglega fundi í löglegum tilgangi geti haldið þá í friði. Þannig skilin tengist 122. gr. almennra hegningarlaga 73. stjórnarskrárinnar um tjáningarfrelsi, sem og 3. mgr. 74. gr. hennar um rétt manna til að koma saman vopnlausir (fundafrelsi), sem og einnig 10. og 11. gr. mannréttindasáttmála Evrópu sem fyrr eru nefndar.

Samkvæmt þessu er ljóst að rétti manna (félaga, stofnana o.s.frv.) til að halda löglega fundi í friði og án röskunar er veitt sérstök refsivernd. Af því leiðir að hafi umræddur fundur í HÍ (Þjóðminjasafninu) verið „löglegur mannfundur“ í skilningi 122. gr. almennra hegningarlaga og mótmælendur hafa „hindrað“ að hann færi fram er mögulega um hegningarlagabrot að ræða sem getur varðað fangelsi allt að einu ári. Ef til viðbótar þykir sannað að „ofríki eða ógnun“ í framferði hafi verið viðhaft þá getur fangelsisrefsing orðið allt að tveimur árum. Þar sem ég þekki ekki atvik á fundinum í smáatriðum læt ég öðrum, sem betur þekkja til, eftir mat á því hvort skilyrðum 122. gr. til að koma fram refsingu kunni að vera fullnægt.

Pistilinn ber ekki með nokkrum hætti að skilja sem stuðning höfundar við framferði Ísraelsmanna á Gaza.

Höfundur er hæstaréttarlögmaður og prófessor í lögfræði við HA.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

EyjanFastir pennar
Fyrir 1 viku

Svarthöfði skrifar: Eftirlit í þágu milliliða – hver fylgist með eftirlitsmönnunum?

Svarthöfði skrifar: Eftirlit í þágu milliliða – hver fylgist með eftirlitsmönnunum?
EyjanFastir pennar
Fyrir 1 viku

Þorsteinn Pálsson skrifar: Ameríka fyrst eða fullveldi og frelsi

Þorsteinn Pálsson skrifar: Ameríka fyrst eða fullveldi og frelsi
EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Nína Richter skrifar: Miðaldra konur í hörtóga á Balí

Nína Richter skrifar: Miðaldra konur í hörtóga á Balí
EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Davíð Þór Björgvinsson skrifar: Stjórnarskráin og ESB

Davíð Þór Björgvinsson skrifar: Stjórnarskráin og ESB
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Sigmundur Ernir skrifar: Svona er pólitíkin að breytast á Íslandi

Sigmundur Ernir skrifar: Svona er pólitíkin að breytast á Íslandi
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Óttar Guðmundsson skrifar: Minnisleysi ráðherrans

Óttar Guðmundsson skrifar: Minnisleysi ráðherrans
EyjanFastir pennar
Fyrir 4 vikum

Óttar Guðmundsson skrifar: Stjörnustund ráðherrans

Óttar Guðmundsson skrifar: Stjörnustund ráðherrans
EyjanFastir pennar
01.08.2025

Nína Richter skrifar: Þessi mjóa og vonda Monica í Friends

Nína Richter skrifar: Þessi mjóa og vonda Monica í Friends