Það eru pólitísk umskipti á Íslandi. Breytingarnar eru jafnvel meiri og örari en áður hafa þekkst, og hafa þó væringarnar verið í vambþykkara lagi um langa hríð.
Sjö ára valdaþreyta kyrrstöðuflokkanna hlýtur að valda þar miklu. Almenningur las í landið. Hann sá fallin grös í stað stæðilegra stilka. Og þetta er ekki líking, heldur sýking af völdum vondra stjórnmála. Magtið hélst því aðeins að ekkert væri gert og engum væri ógnað.
Og þegar hreinn og ilmandi andblær leikur um landið eftir svona pólitíska pestarmóðu – og fram á sjónarsviðið kemur loksins ótvíræður og trúverðugur stjórnmálaforingi sem skákar burtu flestu af því af því sem áður þótti álitlegt í íslenskum þjóðmálum – er kannski ekki að sökum að spyrja.
Gamlir stjórnmálaflokkar verða kjaftstopp. Þeir neyðast til að lesa pólitíska sannfæringu sína upp af blaði, svo fálmkennt er svarið við umskiptunum. Þeir kunna ekki lengur pólitík sína á eigin tungu. Og horfa stjörfum augum inn í óttablandna framtíðina.
En þá er því farið svo. Aldna valdakerfið kann ekki lengur á landáttirnar. Það sér ekki lengur hvaðan vindurinn blæs, en öðruvísi manni áður brá. Það misles fylgi sitt, margendurtekið, og fer utan við stóran boga þess. Í skiptum fyrir skamma dúsu. Og fyllin er flenging flestra landsmanna.
Tökum stöðuna. Horfum inn að hvítu beini hvers og einasta flokks sem situr Alþingi.
Framsókn á hvað bágast. Hún mælist undir þingmörkum. Höfnunartilfinningin sem leikur um hana er orðin meiri en í síðustu kosningum – og var flokknum þó hafnað þá. Ástæðu þessa má ef til vill rekja til þeirrar ólukku sem stafar af honum, sem blandin er gremju og ólund. Þess utan hefur hann horfið í skuggann af Miðflokki og Sjálfstæðisflokki, og ekki gert einustu tilraun til að sýnast vera annað en þeir.
„Aldna valdakerfið kann ekki lengur á landáttirnar. Það sér ekki lengur hvaðan vindurinn blæs, en öðruvísi manni áður brá.“
Miðflokkurinn má una hvað best við hlutskipti sitt af minnihlutaflokkunum, en honum virðist unnt að verja kjörfylgi sitt, þótt málatilbúnaðurinn sé helst til einsleitur þar sem þrástagast er andúðinni á öllu því sem útlenskt er. Fyrir vikið er flokkurinn orðinn harla afvelta í íslenskri pólitík, á stundum næsta undarlegur, og getur ekki gert sér vonir um samstarf við aðra en afturhaldssömustu sjálfstæðismenn.
Sjálfstæðisflokkurinn er farinn úr hárum. Veslings skinnið er ekki svipur hjá sjón frá því hann bar höfuð og herðar yfir aðra íslenska stjórnmálaflokka. Hann er enda farinn að haga sér eins og minnipokaflokkur. Af samtölum við fjöldamarga sjálfstæðismenn um allt land má ráða að gamli ábyrgi flokkurinn sé ekki lengur vandur að virðingu sinni, heldur þæfi hann málin eins og ráðvilltir píratar. Hann megi hvorki heita stjórntækur né stjórnarandstöðutækur. Og ekki hjálpar Mogginn.
Viðreisn mátti ekki komast til valda öllu seinna. Vel mannaður þinghópurinn hefur gripið tækifærið með alla fingur á taumi. Ráðherrar hans hafa sýnt af sér djörfung og festu, og tala þess utan af það miklu viti og reynslu að á þá er hlustað. Flokkurinn getur enn um sinn gert sér vonir um að höggva í fylgi frjálslyndari Sjálfstæðismanna, þeirra sem þola ekki „heilaga skyldu“ leiðandi foringja hans.
Flokkur fólksins ætti ekki að þurfa að óttast pólitískar punktmælingar, enda fær hann iðulega meira upp úr kjörkössunum en skoðanakannanir sýna, eins og saga hans sannar. Hann á það vissulega til að skvetta úr klaufunum, en talar fyrir vikið inn í kviku alþýðunnar sem ber hvað skarðastan hlut frá borði í íslensku samfélagi. Hann er sem fyrr í augnhæð við kjósendur sína. Þar er hans styrkur sem fyrr.
Samfylkingin er að festa sig í sessi sem meginafl í stjórnmálalífi þjóðarinnar. Veldur þar mestu vinsæll formaður sem býr yfir miklum trúverðugleika og pólitískri greind. Fylgjendur gömlu valdaflokkanna hafa margir hverjir orð á því að þeir gætu kosið Samfylkinguna út af því einu hver leiðir hana. Þess utan nýtur flokkurinn þess að vera einn um hituna á vinstri væng stjórnmálanna hér á landi. Þoka aðgerðaleysis og ósamstöðu í síðustu stjórnartíð liggur enn þá svo þungt yfir VG, að línuritið lyftist ekki, og Sósíalistar eru farnir að skjóta sig miklu heldur í höfuðið en fótinn.
Athyglisvert verður að sjá á haustdögum hvort minnihlutinn á Alþingi hafi lært eitthvað af leiðindum sínum á vorþingi. Varla er hægt að mislesa heila þjóð af meiri einurð en hann gerði á sínum tíma.