fbpx
Laugardagur 30.ágúst 2025
EyjanFastir pennar

Sigmundur Ernir skrifar: Ekki vera það sem þú ert

Eyjan
Laugardaginn 30. ágúst 2025 13:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Íhaldsskipun líðandi stundar er sú að fólk megi ekki vera það sem það er. Því beri að fara að gamalkunnum gildum og halda sig innan þeirra dilka sem afturhaldið hefur úthlutað mannkyni um aldir alda. Ekkert hafi breyst, og hafi mannkynið þróast, sem efast megi um, sé það ekki af hinu góða.

Öll sú viðleitni að upplifa sig út fyrir klefann sé í besta falli ímyndun ein og leikaraskapur, en þó umfram allt hættulegt athæfi sem ögri siðareglum samfélagsins um of.

Og boðskapurinn er skýr: Vertu karl eða kona. Það rúmast ekki annað yfirbragð í almannarými þessa lands, og ef þú ert með einhvern derring í þessum efnum, fer betur á því að þú haldir þig enn þá inni í skápnum, því ásýnd þinni sé ofaukið á meðal annars fólks.

Umburðarlyndi og afþvottur svona hugsandi manna er eitthvað á þá leið að hommar og lesbíur megi alveg segjast glíma við sína samkynhneigð, en það fari aftur á móti ekki vel á því að vera með allan þessa eilíflegu sýndarmennsku undir berum himni. Það séu nefnilega takmörk fyrir því hvað fögnuður og frjálslyndi þessa utanveltufólks í mannheimum megi taka mikið pláss í samfélaginu. Sýnileikinn megi ekki vera óheftur. Hann særi blygðunarkennd venjulegra landsmanna og fari að róta full til harkalega í kolli þeirra um hvaða manngerðir megi vera til. Þá sé nú hætt komið.

En afleiðing þessarar einbeittu og ofstækisfullu þröngsýni, þegar aldarfjórðungur er liðinn af nýrri öld, er alvarlegri en umræðan gefur til kynna. Hún merkir aukið súrefnisstreymi út í samfélagið fyrir hatursumræðu um hinsegin fólk. Úldinn fylgifiskurinn er afsökun fyrir ofbeldi á hendur því saklausa fólki sem fer ekki að kreddum kynjatvíhyggjunnar.

„Nú er aftur byrjað að berja svona fólk. Það er vegna þess að það er farið að kynda undir í óþol í garð þessa óþolandi frjálslyndis, eins og það er kallað …“

En sagan fer í hringi.

Afturkippurinn í mannréttindum hinsegin fólks – og raunar líka í réttindabaráttu fatlaðs fólks, sem ku vera farið að kosta of mikið – leiðir hugann aftur um hálfa öld. Þá birtist fyrsta blaðaviðtalið við Íslending sem talaði opinskátt um samkynhneigð sína. Leikstjórinn og söngvaskáldið Hörður Torfa steig fram og kvaðst vera hommi. Honum var ekki tekið betur en svo að vinsæl dægurlög hans – og var þar af nógu að taka – voru bönnuð í Ríkisútvarpinu í einni svipan. Hann var sviptur öllum atvinnutækifærum á hvaða sviði samfélagsins sem var. Hann flúði að lokum til Danmerkur, útlægur homminn, og heimkominn nokkrum árum seinna, nokkuð vongóður um að ástandið á klakanum hefði batnað, blasti enn þá við honum hélan ein í hugsanagangi þjóðar sinnar. Fyrir náð og miskunn fékk hann þó, vegna forfalla, að setja upp eina leiksýningu í Menntaskólanum á Akureyri vorið 1978, en hélt svo suður undir hærri sól og stofnaði samtök sem kennd voru við ártalið, til þess meðal annars, að fleiri vinir hans og kunningjar tækju ekki líf sitt út af skömminni einni saman og andúð þess einsleita samfélags sem þá var til staðar í landinu.

Nú er aftur byrjað að berja svona fólk. Það er út af því að farið er að kynda undir í andstyggð í garð þessa óþolandi frjálslyndis á okkar tímum, eins og það er kallað, sem þar að auki hefur gengið alltof langt á kostnað viðurkenndra skilgreininga á manni og konu, svo það sé líka sagt, gott ef ekki ættuðum úr Gamla testamentinu sem aldrei skuli rengja.

Svo ekki vera það sem þú ert. Og ef þú ert í einhverjum vafa um tæplega boðlegar tilfinningar, ja, troddu þeim inn í einn og sama skápinn sem hentar hálfvitaskapnum í sjálfum þér.

Við lesendur þessa pistils vil ég segja að lokum: Við hlýðum ekki þessu kalli. Við þóknumst ekki þessum kreddum. Við höfum trú á fólki eins og það birtist sjálfu sér og sínum þrám. Við elskum fjölbreytnina og höfum ímugust á einsleitninni.

Hinn kosturinn er andlegt þrælahald nýrrar aldar, og líkamleg útskúfun.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

EyjanFastir pennar
Fyrir 1 viku

María Rut Kristinsdóttir skrifar: Sítengd og stimpluð

María Rut Kristinsdóttir skrifar: Sítengd og stimpluð
EyjanFastir pennar
Fyrir 1 viku

Björn Jón skrifar: Réttindi og skyldur

Björn Jón skrifar: Réttindi og skyldur
EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Þorsteinn Pálsson skrifar: Sverð og skildir íslenskra hagsmuna

Þorsteinn Pálsson skrifar: Sverð og skildir íslenskra hagsmuna
EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Svarthöfði skrifar: Öfugmælavísa ritstjórans – niðurlæging stjórnarandstöðunnar tekur engan endi

Svarthöfði skrifar: Öfugmælavísa ritstjórans – niðurlæging stjórnarandstöðunnar tekur engan endi
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Nína Richter skrifar: Til varnar „mömmuklámi“

Nína Richter skrifar: Til varnar „mömmuklámi“
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Thomas Möller skrifar: Meiri fræðsla, minni hræðsla

Thomas Möller skrifar: Meiri fræðsla, minni hræðsla
EyjanFastir pennar
30.07.2025

Davíð Þór Björgvinsson skrifar: Aðild að ESB bakdyramegin

Davíð Þór Björgvinsson skrifar: Aðild að ESB bakdyramegin
EyjanFastir pennar
30.07.2025

María Rut Kristinsdóttir skrifar: Er samtal svona hættulegt?

María Rut Kristinsdóttir skrifar: Er samtal svona hættulegt?