fbpx
Mánudagur 25.ágúst 2025
Eyjan

Hótel Saga: Pólitísk hrossakaup – rándýrt menningarslys á Melunum

Ólafur Arnarson
Mánudaginn 25. ágúst 2025 16:30

Hótel Saga árið 2013. Mynd: Vilhelm

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Fram kom í frétt í Morgunblaðinu í síðustu viku að heildarkostnaður við kaup og standsetningu Hótels Sögu, sem hýsa mun menntavísindasvið Háskóla Íslands og stúdentaíbúðir á vegum Félagsstofnunar stúdenta, nemur nú um 12,7 milljörðum króna og sér ekki fyrir endann á vegna þess að framkvæmdum er ekki lokið. Kaupverðið nam 3,6 milljörðum í ársbyrjun 2022 og framkvæmdirnar hafa kostað 9,1 milljarð.

Séu þessar fjárhæðir reiknaðar til núvirðis er kaupverðið 4,6 milljarðar en ekki 3,6 og framkvæmdirnar hafa kostað u.þ.b. 10,1 milljarð. Heildarkostnaðurinn er því kominn í um 14,7 milljarða en ekki 12,7.

Björn Jón Bragason fór yfir furðulega sögu kaupanna á Hótel Sögu í mjög góðum pistli hér á Eyjunni um helgina. Hann bendir á að engin þarfagreining virðist hafa farið fram áður en ráðist var í kaupin. Þegar kaupin fóru fram hafði staðið yfir mikil endurnýjun og viðgerðir á húsinu og innviðum þess en til að gera húsið að kennslu- og skrifstofuhúsnæði þurfti að rífa. niður megnið af innréttingum.

Sjá einnig:
Björn Jón skrifar: Sukkið vestur á Melum

Björn Jón bendir réttilega á að kaupin á Hótel Sögu voru pólitísk hrossakaup. Fyrir liggur að einkaaðilar voru tilbúnir að kaupa hótelið til að halda hótel- og veitingarekstri þar áfram en þeir voru ekki tilbúnir til að borga sama yfirverð og ríkið borgaði. Yfirverðið var greitt til að bjarga Bændasamtökunum úr kröggum en þau höfðu lagt mikið undir í endurnýjun hótelsins og í stefndi að þau yrði fyrir miklu fjárhagslegu höggi. Hreinlegra hefði verið fyrir Bjarna Benediktsson fjármálaráðherra að styrkja Bændasamtökin beint fremur en að kaupa af þeim Hótel Sögu á yfirverði til að breyta í skólastofnun sem alltaf var ljóst að yrði gríðarlega kostnaðarsamt svo sem komið hefur á daginn.

En svona ganga helmingaskiptin milli Framsóknar og Sjálfstæðisflokksins fyrir sig. Björn Jón rifjar upp fleiri vafasamar fjárfestingar á vegum hins opinbera sem engin leið er að útskýra nema með pólitískri spillingu. Hús Trésmiðjunnar Víðis við Laugaveg var keypt fyrir Skattinn og Mjólkurstöðin við sömu götu var keypt fyrir Þjóðskjalasafnið. Bæði húsin hafa sogað til sín gífurlegt fé úr vösum skattgreiðenda og hentuðu ákaflega illa til þeirrar notkunar sem ríkið ætlaði þeim. Þá hefur eitthvað að skjölum Þjóðskjalasafnsins orðið fyrir vatnsskemmdum vegna leka í húsinu.

Fyrirhuguð kjötiðnaðarstöð SS í Laugarnesi var keypt undir óstofnaðan listaháskóla eftir að Sláturfélagið var komið út í skurð með þá fjárfestingu. Þá má rifja upp dæmigerð helmingaskipti þegar Búnaðarbankinn og Landsbankinn voru einkavæddir fyrir rúmum tveimur áratugum. Sjálfstæðismenn fengu að kaupa Landsbankann og Framsóknarmenn fengu Búnaðarbankann.

Öll reyndust þessi kaup og ráðstöfun ríkiseigna vera óráðsía hin mesta. En kaupin á Hótel Sögu eru meira en bara fjárhagsleg óráðsía. Þau eru menningarsögulegt slys og það alvarlegt. Hótel Saga, Bændahöllin, var hönnuð sem fullkomið hótel með veitingarekstri. Í 60 ár sinnti hótelið þessu hlutverki með miklum sóma. Vandað var mjög til alls í byrjun og sú endurgerð sem gerð var síðustu árin áður en ríkið keypti höllina undir skólahald var trú upphaflegum innréttingum og stíl. Það er alvarlegur sjónarsviptir að ekki skuli lengur vera hótelrekstur í þessari merku byggingu sem enn gengur undir nafninu Hótel Saga í daglegu máli.

Ekki skal gert lítið úr því að mikilvægt sé að standa vel að húsnæði og aðstöðu fyrir menntavísindasvið HÍ. Það er nóg af plássi á háskólasvæðinu og vel hefði verið við hæfi að reisa byggingu sem hönnuð er fyrir skólastarfsemi þar. En þegar horft er til þess hvernig Ísland hríðfellur niður alla lista í alþjóðlegum samanburði á gæðum menntunar og kennslu milli landa hefði kannski verið tilefni til að byrja einhvers staðar annars staðar en á því að hella 15 milljörðum í húsnæði.

Helmingur drengja er ólæs að loknum grunnskóla. Sara Júlíusdóttir, þriðja árs kennaranemi, lýsti því í viðtali við Morgunblaðið í síðustu viku að henni þætti lítið kennt í kennaranáminu: „Ég kannski mæti í tíma og við erum að kubba. Svo mæti ég í næsta tíma og við erum í Varúlfi og nafnaleik. Við erum líka að æfa okkur í að halda bekkjarkvöld. Svo erum við að tala um kenningar.

Við þennan lestur læðist að manni sú tilfinning að eitthvað fleira og alvarlegra bjáti á innan menntavísindasviðs Háskóla Íslands en húsnæðisekla.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 6 dögum

Gréta María Grétarsdóttir, framkvæmdastjóri Prís: Rangt gefið þegar heildsöluverð til hinna minni er hærra en smásöluverðið hjá þeim stóru

Gréta María Grétarsdóttir, framkvæmdastjóri Prís: Rangt gefið þegar heildsöluverð til hinna minni er hærra en smásöluverðið hjá þeim stóru
Eyjan
Fyrir 1 viku

Orðið á götunni: Verður Sjálfstæðisflokkurinn utan valda í nær öllum helstu sveitarfélögunum?

Orðið á götunni: Verður Sjálfstæðisflokkurinn utan valda í nær öllum helstu sveitarfélögunum?
EyjanFastir pennar
Fyrir 1 viku

Thomas Möller skrifar: Meiri bjartsýni – minni svartsýni

Thomas Möller skrifar: Meiri bjartsýni – minni svartsýni
EyjanFastir pennar
Fyrir 1 viku

Málþæfður minnihluti þarf að átta sig

Málþæfður minnihluti þarf að átta sig