Um þessa helgi er haldin Njáluhátíð í Rangárþingi undir slagorðinu „Upp með Njálu.“ Á opnunarkvöldinu að Hvolsvelli var ný söguskoðun áberandi. Hallgerður langbrók hefur nú endanlega fengið uppreisn æru. Ekki er lengur litið á hana sem kvendjöful heldur sterka og sjálfstæða konu í miskunnarlausu karlaveldi. Hún á engan möguleika í hjónabandi sínu við Gunnar Hámundarson vegna dularfullra tengsla hans við Njál lögspeking á Bergþórshvoli. Leikarar í hlutverkum þessara persóna drógu upp þá mynd af Gunnari að hann hafi verið hálfruglaður vingull sem átti erfitt með að taka ákvarðanir. Fyrirlesarar sögðu frá lagaklækjum Njáls og harmi og hefndarhug Hildigunnar Starkaðardóttur.
Nýir og ferskir vindar blása í Njáluathugunum þar sem örlagasaga kvenna fær meira vægi. Gamalli hetjurómantík var reyndar viðhaldið af þróttmiklum karlakór sem söng um hámark karlmennskunnar, Skarphéðinn í brennunni. Aðstandendur sýningarinnar voru allir klæddir bláum skykkjum að fornmannasið. Reykvél spúði gufum yfir leiksviðið svo að fólki fyndist það þátttakendur í reykmettaðri Njálsbrennu.
Um 600 manns sóttu þessa opnunarhátíð í íþróttahúsinu. Hvarvetna mátti heyra samkomugesti ræða Njálssögu af innsæi og kunnáttu. Einhverjir veltu fyrir sér kynhneigð Gunnars og Njáls en aðrir bágri stöðu kvenna. Þekktur verkalýðsleiðtogi sagðist hafa uppgötvað með lestri Njálssögu af hverju ríkisvaldið valdi 112 sem neyðarnúmer. Höskuldur Hvítanesgoði er drepinn af þeim Njálssonum og Kára í kafla númer 111. Í næsta kafla númer 112 kemur Hildigunnur aðvífandi og finnur mann sinn dauðan og hringir eftir hjálp útum alla sveit. Þetta fannst mér skarplega athugað.
Í kvöld á að brenna Bergþórshvol í annað sinn á Rangárbökkum. Vonandi mæta sem flestir til að skoða þetta sjónarspil. Það er gaman að finna fyrir þessum mikla Njáluáhuga í samfélaginu. Njála er eign okkar allra og miklu skiptir að fólk lifi sig inn í söguna, lesi hana og dragi eigin ályktanir. Ef fræðasamfélag háskólanna fær að slá eign sinni á Njálu og Njálurannsóknir deyr bókin hægum og kyrrlátum dauðdaga. Ég vil þakka Guðna Ágústssyni fyrir frumkvæði hans að þessari Njáluhátíð og óska honum jafnframt til hamingju hversu vel hefur til tekist.