Ein helsta kvörtun fólks hjá geðlæknum er lífsleiði og tilbreytingarleysi tilverunnar. Lífið líður hratt hjá og dagarnir eru næsta keimlíkir. Margir eiga þó því láni að fagna að upplifa einstök glæsileg andartök í eigin lífi sem „lýsa eins og leiftur um nótt.“ Mér kemur í hug þýski knattspyrnumaðurinn Jurgen Sparwasser. Hann var leikmaður austurþýska landsliðsins í heimsmeistarakeppninni 1974. Þýsku liðin tvö drógust saman í fyrsta skipti í stórri keppni. Leikurinn fór fram í Hamborg og lauk með sigri Austur Þjóðverja 0-1. Jurgen gerði markið og lifði á þessu afreki það sem eftir var.
Jón Sigurðsson forseti stóð upp á Þjóðfundinum 1851 og mælti gegn gjörræði Dana. Hann hrópaði hátt og skörulega: „Við mótmælum allir.“ Meira gerðist reyndar ekki en atburðurinn var gerður ódauðlegur í málverki sem hangir í þinghúsinu. Þetta andartak var stjörnustund Jóns forseta þótt hún skipti litlu máli í stóra samhenginu. Kristnitakan á Alþingi árið 1000 var glæsiafrek Þorgeirs Ljósvetningagoða. Rómarferðin 1234 var hápunkturinn í tilveru Sturlu frænda míns Sighvatssonar.
Þessa dagana er mikið rætt um embættisfærslur Framsóknarmannsins Gunnars Braga Sveinssonar frá Sauðárkróki sem utanríkisráðherra. Á Klausturbarnum 2018 gerði hann reyndar upp ráðherratíð sína og hrósaði sér af ýmsum vafasömum, pólitískum embættisveitingum. Stjörnustund Gunnars Braga í embætti var sá gjörningur að tilkynna Evrópusambandinu að hann drægi til baka umsóknina um aðild. Þetta var eins og markið hjá Sparwasser, glæsilegasta augnablikið á litlausum pólitískum ferli þessa stjórnmálamanns. Nú er komið í ljós að allt var þetta á misskilningi byggt. Umsóknin var aldrei dregin til baka. Hún lá bara sofandi eins og Þyrnirós og beið eftir fagurri prinsessu með próf í hagfræði sem vekti sig með kossi. Gunnar Bragi hamast við að kveikja aftur á þessari einu stjörnu sem lýsti upp viðburðalausan feril hans sem ráðherra. En formsatriðum var ekki fullnægt svo að eina afrek Gunnars Braga á ráðherrastól var flautað af eins og hvert annað rangstöðumark.