Guðlaugur Þór Þórðarson fyrrum ráðherra hefur að undanförnu mátt þola ávirðingar fyrir að hafa gleymt nokkurra ára gamalli skýrslu, sem hann lét gera þegar hann sat í utanríkisráðuneytinu og sýndi að aðildarumsóknin er enn í fullu gildi.
Umræðan vekur tvær spurningar:
1) Er réttmætt að gagnrýna alþingismann og fyrrum ráðherra til margra ára fyrir það eitt að reka ekki minni til einnar skýrslu?
2) Hvernig reyndist Guðlaugur Þór í hagsmunagæslu fyrir Ísland sem ráðherra og áhrifaríkur stjórnarþingmaður?
Varðandi fyrri spurninguna má hver maður finna hjá sjálfum sér að örðugt er að muna alla þá hluti, sem sýslað var með fyrir mörgum árum.
Þetta á alveg sérstaklega við um minniháttar mál. Og í sjálfu sér skiptir heldur ekki öllu þótt menn gleymi einstökum pappírum um þau mál sem standa hjarta þeirra næst.
Umræða um minnistap af þessu tagi getur haft skemmtunargildi en hefur litla pólitíska þýðingu.
Matið á hinu hvernig Guðlaugur Þór reyndist í hagsmunagæslu fyrir Ísland ræðst af því frá hvaða sjónarhorni er horft.
Hafa verður í huga að frá því eftir kosningar 2013 hafa þingmenn sjálfstæðismanna bara staðið fyrir eitt utanríkispólitískt hjartansmál:
Það er að hindra að þjóðin fái að ráða því sjálf hvort gengið verði til viðræðna við Evrópusambandið um fulla aðild Íslands í stað áttatíu prósent aðildar með EES-samningnum.
Frá minni bæjarhellu horfir málið svona við:
Ég tel að andstaða Guðlaugs Þórs við þjóðaratkvæði og hugsanlega fulla aðild að Evrópusambandinu stríði gegn hagsmunum fólksins í landinu.
Á hinn bóginn virði ég honum annað til betri vegar. Í ellefu ár sem stjórnarþingmaður og síðar ráðherra, og þar af utanríkisráðherra í fimm ár, kaus hann fremur að láta aðildarumsókn Íslands liggja í dvala en að afturkalla hana.
Þetta verðskuldar þeim mun meiri virðingu að afturköllunin var helsta utanríkispólitíska hjartansmál hans á þessum langa tíma.
Þar næst kom formlegt viðskiptasamstarfssamkomulag hans 2019 við fyrri Trumpstjórnina til að draga úr viðskiptahindrunum. Síðari Trumpstjórnin telur það hins vegar ekki pappírsins virði eða hefur bara gleymt því.
Aftur á móti á ég erfiðara með að ímynda mér hvernig þessi framganga Guðlaugs Þórs blasir við frá sjónarhorni Diljár Mistar Einarsdóttur, sem hrópar nú hæst um skort á hagsmunagæslu fyrir Ísland.
Fyrir skömmu krafðist Diljá Mist skyndifundar í utanríkismálanefnd til að gæta að íslenskum hagsmunum. Hún mætti ekki.
Formaður utanríkismálanefndar boðaði viku seinna til nýs fundar. Þá mætti Diljá Mist.
Eftir fundinn greindi hún þjóðinni frá því að hún hefði þar óskað eftir lista yfir flugferðir utanríkisráðherra. Af honum dró hún þá ályktun að verulega hefði skort á hagsmunagæsluna. Ferðirnar voru sem sagt ekki allar til Brussel.
Mælikvarðinn var ekki pólitísk afstaða heldur fjöldi flugferða!!!
Áður hafði Diljá Mist talið að það væri ögrun við fullveldi Íslands að Ursula von der Leyen skyldi þiggja boð um að heimsækja Ísland og eiga viðræður við forsætisráðherra og utanríkisráðherra um öryggis- og viðskiptamál hér heima hjá okkur.
Hefðu ráðherrarnir aftur á móti flogið til Brussel hefði flugmiðalistinn orðið lengri. Þá hefði Diljá Mist þurft að finna sér annan mælikvarða.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson lét í forsætisráðherratíð sinni svæfa í nefnd þingsályktunartillögu um afturköllun aðildarumsóknar.
Síðar var tillaga Guðlaugs Þórs Þórðarsonar utanríkisráðherra sama efnis svæfð svefninum langa strax við ríkisstjórnarborðið. Hverjir stoppuðu utanríkisráðherrann af? Og með hvaða rökum?
Höfðu þessar ríkisstjórnir ekki þann þingmeirihluta sem þær sögðust hafa? Voru aðrir hagsmunir teknir fram fyrir stærsta utanríkispólitíska hjartansmál stjórnarflokkanna? Eða voru ráðherrarnir ekki með hugann við það sem þeir töldu mestu hagsmuni Íslands?
Væri ekki ráð að formaður utanríkismálanefndar kallaði þessa fyrrum ráðherra á fund til að svara þessum spurningum.
Það gæti auðveldað Diljá Mist að finna mælikvarða á góða hagsmunagæslu frá hennar sjónarhorni.
Kjósendur geta þá dæmt hvort eðlisþyngd stóryrða hennar er nær blýi eða dúni. Það hefur meiri málefnalega þýðingu en gleymska fyrrum utanríkisráðherra.