fbpx
Miðvikudagur 09.júlí 2025
Eyjan

Illugi Jökulsson: „Dómadagsþvaður“ frá þingmanni í ræðustól Alþingis – skyldi maðurinn ekki skammast sín?

Eyjan
Mánudaginn 7. júlí 2025 18:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Skyldi maðurinn ekki skammast sín agnarögn fyrir að standa þarna á háum launum frá almenningi í landinu og fara með annað eins dómadagsþvaður?“ skrifar Illugi Jökulsson í færslu á Facebook í dag.

Hann vísar þar til málþófsræðu sem Þórarinn Ingi Pétursson, þingmaður Framsóknar flutti á Alþingi laust fyrir hádegið. Illugi tekur sig til og skrifar upp ræðu Þórarins Inga og sá sem les þann texta áttar sig skjótt á því að ekki aðeins fjallar ræðan ekki um veiðigjöld heldur er eins og Þingmaðurinn viti hreint ekkert hvað hann er að tala um.

„Ja, frú forseti, við höldum áfram í umræðu um veiðigjöld, og … eee, mér finnst ánægjulegt að segja frá því að ég fór í … það er svo sem ekkert ánægjulegt svona sérstaklega, en hérna ég fór í svona venjulega veislu um helgina, og það sem var mest ánægjulegt í þeirri veislu, þar hitti maður fullt af fólki, og alveg klárlega voru skilaboðin skýr, standið eins lengi og þið getið. Það voru skilaboðin og þetta var nú bara í venjulegu sjávarplássi úti á landi, það hefur svo sem verið títtnefnt hér, Grenivík eða Grýtubakkahreppur, hvað það varðar, en þetta eru skilaboðin sem við erum að fá vítt og breitt úr Norðausturkjördæmi, þess efnis, þið verðið að standa eins lengi og þið getið, og það hlýtur að koma að því að á ykkur verði hlustað, en frú forseti, mig langar aðeins að breyta út af þeirri umræðu, og tengja hana að vísu sjávarútvegi, mig langar að fara svolítið í söguna, frú forseti, og mig langar að fara alveg aftur til ársins 1869. Það ár var mikið harðindaár, það var mikill fellir á búpeningi, og, og, og almenningur á Íslandi, ja, hann svalt, en þetta ár fæddist mjög merkilegur maður, Sæmundur Sæmundsson fæddist þetta ár frammi í Kaupangssveit í Eyjafirði … eee …“

Og áfram heldur Þórarinn Ingi:

„Sæmundur átti eftir að verða sennilega einn held ég af okkar meiri frumkvöðlum í sjávarútvegi, svona þegar að litið er aftur, og hvað gerðist á þessum tíma … eee … Níu ára gamall, þá fer Sæmundur í vist, út í Látur á Látraströnd, og þrettán ára gamall er hann kominn með fullan hlut við haustróðra við utanverðan Eyjafjörð, og þótti það nú töluvert mikið, mikið af þrettán ára gömlum dreng að vera kominn þangað, en það sem ég er að segja með þessu og ætla að tengja í næstu ræðum, frú forseti, er á hverju við erum, af hverju er staðan eins og hún er í dag? Og til þess að geta greint stöðuna eins og hún er í dag þá þurfum við að hafa forsendurnar með … eee … og það er aðdragandi að því hvernig, hvert, af hverju við erum komin á þennan stað, það er ekki þannig að, að þetta gerðist allt bara á sínum tíma þegar að við settum á kvótakerfið, heldur þetta er aðdragandi, miklu lengri aðdragandi, og á þessum tíma, 1882, þegar að Sæmundur er þrettán ára, þá er jú, kominn þarna, farinn að róa við haustróðra við utanverðan Eyjafjörð, og hlutirnir gerast hratt, og þetta var á þeim tíma sem að Íslendingar fiskuðu hvað mest hákarl, veiddu hákarl, og var náttúrlega gríðarlega verðmæt vara til útflutnings, og Sæmundur verður skipstjóri 1889, eða, þá er hann stýrimaður fyrst, og síðan tekur hann við, eee, skipstjóra … verður hann skipstjóri mjög fljótlega, og það er um 1902, þá er hann kominn í það að, að vera skipstjóri á seglskipi, sem að hét Hjalteyrin, sem veiddi bæði þorsk og síld, og það er nefnilega áhugavert í þessu samhengi að velta því fyrir sér á þeim tíma sem þetta er, þá eru Norðmenn hér að veiða … eee … hringinn í kringum landið, eee, voru vissir frumkvöðlar, eee, voru náttúrlega Íslendingum mun, mun fremri á, varðandi bara efni og, og, og hvernig þeir gátu, eee, hagað sér í sinni útgerð, og þeir voru svo ráðandi við Íslandsstrendur á þessum tíma og sérstaklega þegar kemur að, að veiði á uppsjávarfiski.“

Þegar þarna er komið sögu í þessari sundurlausu ræðu virðist þingmaðurinn átta sig á því að bullið kallar á útskýringu og hefst þá „söguskýring“ hans:

„Af hverju er ég að draga þetta fram, frú forseti? Jú, vegna þess að núna er enn og aftur, hundrað og … hvað? … tuttugu eða þrjátíu árum seinna, þá dettur okkur það í hug, eftir að hafa slitið okkur frá Norðmönnum á sínum tíma, í það að fara að verðleggja fisk, makríl, á norsku verði, og … en ég tel að, að sú saga sem að við þurfum að segja, að, nú er ég bara rétt að byrja, frú forseti, á þessari sögu þannig að ég óska eftir því að vera settur á mælendaskrá því að, þessi saga er að mínu mati mjög merkileg hvað varðar og þetta tekur sennilega fimm sex ræður reikna ég með, þar sem að þessi saga verður greind og ég reyni svo að vera með upplýsandi og skemmtileg innlegg inn á milli sömuleiðis …“

Í athugasemd undir færslunni bendir Illugi á að Íslandssöguþekking þingmannsins er vægast sagt bágborin, en Illugi skrifar:

„Það er vitaskuld engin ástæða til að elta ólar við þetta bull, en kannski rétt samt að taka fram að Íslendingar „slitu sig ekki lausa frá Norðmönnum“ kringum aldamótin 1900. Stórveldin í Evrópu tóku Noreg af Dönum árið 1815 og Íslendingar höfðu ekkert um það að segja.

Athugasemdaþráðurinn við færsluna er mjög líflegur og þegar þetta er skrifað hafa 111 skrifað athugasemdir og færslunni hefur verið deilt 186 sinnum.

Meðal þeirra sem tjá sig er Egill Helgason, sjónvarpsmaður. Hann hefur eitt orð yfir málflutning þingmannsins:

„Raus.“

Óhætt er að fullyrða að í nánast hverri einustu athugasemd undir færslunni birtist fullkomin hneykslun og fyrirlitning á málþófinu og bullinu sem stjórnarandstaðan ber á borð fyrir þingheim og alþjóð.

Hér er hægt að sjá færsluna og athugasemdir við hana:

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 1 viku

Ný vonarstjarna Demókrata gæti komist í mikilvægt embætti – Trumpistar kalla hann „hryðjuverkamann“

Ný vonarstjarna Demókrata gæti komist í mikilvægt embætti – Trumpistar kalla hann „hryðjuverkamann“
Eyjan
Fyrir 1 viku

Veiðigjaldafrumvarpið: Harðlínumennirnir hafa undirtökin innan SFS – málflutningurinn heldur ekki vatni

Veiðigjaldafrumvarpið: Harðlínumennirnir hafa undirtökin innan SFS – málflutningurinn heldur ekki vatni
EyjanFastir pennar
Fyrir 1 viku

Óttar Guðmundsson skrifar: Heillandi fól

Óttar Guðmundsson skrifar: Heillandi fól
Eyjan
Fyrir 1 viku

Safna undirskriftum til að skora á Alþingsmenn að stöðva málþófið

Safna undirskriftum til að skora á Alþingsmenn að stöðva málþófið