Rithöfundurinn Illugi Jökulsson hefur ímugustur á málþófinu sem nú á sér stað á Alþingi vegna frumvarps um veiðigjöld. Hann telur málið hneisu fyrir löggjafarþing í lýðræðisríki og bendir á að dýptin í umræðunni sé ekki mikil. Máli sínu til stuðnings deilir hann ræðu sem Ingbjörg Davíðsdóttir þingmaður Miðflokksins flutti í nótt.
Illugi vekur athygli á ræðunni á Facebook og hvetur aðra til að deila henni áfram svo fólk megi sjá dýpt umræðunnar um veiðigjöldin.
„Hið ósæmilega málþóf stjórnarandstöðunnar heldur áfram,“ skrifar Illugi og segir ræðu Ingibjargar í nótt gott sýnishorn. Ræðan er eftirfarandi:
„Já, frú forseti … mig langar líka að þakka háttvirtum þingmanni Jóni Pétri Zimsen fyrir afar skemmtilega ræðu hérna áðan, upplýsandi og hérna, hvað segir maður … inspírerandi … afsakaðu slettuna, frú forseti … eee … það er líka rétt, núna þegar klukkan er að ganga fimm, þá hefur heldur ótæpilega verið drukkið af drykknum Collab, sem heldur okkur öllum vakandi hérna og líflegum og hressum … eee … og auðvitað tengist sá drykkur sjávarútvegnum með mjög beinum hætti … eee … en eins og háttvirtur þingmaður Jón Pétur Zimsen … eee … greindi frá, eða hann er, hann kann að segja góðar sögur, og ég minnist hans nú hérna fyrr á þessum þingvetri, fyrir að, þá var hann að segja ansi skemmtilegar svona tappasögur, áföstum töppum, sem að gerðu það að verkum að það rústaði heilu fjölskylduboðunum, og … það var mikið vesen. Síðan hérna var hann að segja góða sögu áðan af kollega var að opna Collab og skvettist yfir og þurfti að yfirgefa svæðið og skipta um föt og svona … en hérna … maður á aldrei að láta góða sögu líða fyrir sannleikann, getum við ekki verið öll sammála um það? (Skellihlær.) En … í fyrri … eða sem sagt síðustu ræðu minni var ég að fara yfir umsögn … eee … eee … hvaða umsögn var ég að fara yfir? … Ég var að fara yfir umsögn Dalvíkurbyggðar, og mig langar að halda áfram þar sem frá var horfið … ef ég skyldi nú finna það … já! … eee, með leyfi forseta …“
Ingibjörg hafi svo lesið upp úr umsögn Davíkurbyggðar um frumvarpið næstu tvær mínútur ræðutímans, en umsögnin hefur ítrekað verið lesin upp í málþófinu.
„Þið fyrirgefið, en finnst ykkur þetta sæmandi löggjafarsamkundu í lýðræðisþjóðfélagi?“
Málþófið á Alþingi er enn í gangi og í kvöld mun Ingibjörg flytja sína 54. ræðu.