Nýr formaður Samtaka Atvinnulífsins, Jón Ólafur Halldórsson kemst að kjarna málsins í viðtali við Morgunblaðið þar sem hann segir að „það þarf að efla samkeppnishæfni íslensks atvinnulífs og þar með landsins alls.“ Hann nefnir síðan að „hátt vaxtastig og kyrrstaða í atvinnulífinu hamli eðlilegri þróun.“
Síðar segir Jón í viðtalinu að „það er mikil fjárfestingaþörf og það þarf að rjúfa þessa kyrrstöðu. Hluti af því er að vextir þurfa að lækka.“
Þarna kveður við nýjan og ferskan tón hjá formanni SA. Áherslan á samkeppnishæfni og lækkun vaxta er mikilvægasta málið að hans mati.
Samkeppnishæfni Íslands er margþætt.
Í fyrsta lagi byggist hún á lágum orkukostnaði, bæði í jarðhita og rafmagni. Þess vegna er Ísland meðal helstu framleiðslulanda á áli í heiminum. Hitunarkostnaður er með því lægsta sem gerist og leiðir meðal annars til þess að íslenskt grænmeti er að fullu samkeppnisfært við ótollaðan innflutning.
Í öðru lagi eru ein fengsælustu fiskimið heimsins kringum Ísland. Þannig getum við framleitt fiskafurðir í hæsta gæðaflokki með miklum hagnaði og sem seljast á hæstu verðum á mörkuðum.
Í þriðja lagi laðar náttúra landsins yfir um milljónir ferðamanna til Íslands á ári. Sérstaða landsins er mikil enda dást ferðamenn að náttúru og sögu landsins okkar, jarðsögunni, hestunum, fuglalífinu og jarðhitanum.
Í fjórða lagi byggist samkeppnishæfnin á aðgengi að heitum sjó til landeldis á laxi. Fyrstu skrefin sjást í Þorlákshöfn og Vestmannaeyjum. Engin önnur þjóð hefur yfir slíkum auðlindum að ráða.
Í fimmta lagi felst samkeppnishæfni landsins okkar í háu menntunarstigi og framúrskarandi skólum sem útskrifa sérfræðinga, iðnaðarmenn og skapandi fólk á mörgum sviðum.
En það eru dökkar hliðar á samkeppnishæfni Íslands. Jón Ólafur orðaði það með hnitmiðuðum hætti í öðru viðtali við Morgunblaðið á dögunum.
Þar sagði hann að „vandinn sem við erum að horfa á núna er náttúrulega það að við búum við gríðarlega hátt raunvaxtastig. Vextir til fyrirtækja og þess vegna einstaklinganna, það er að segja nafnvextirnir eru einhver10 til 13 % meðan raunvextirnir eru kringum 7%.“
Svo segir Jón að „ef maður horfir bara síðan til þess hvað er að gerast í löndunum í kringum okkur; við sjáum það að atvinnulífið í Evrópu er svolítið að þétta raðirnar í samtali sínu við stjórnvöld, bæði í hverju landi og við Evrópusambandið. Við sjáum að Seðlabankar í kringum okkur eru í lækkunarferli (vaxta).“
Þarna kemur Jón að kjarna málsins en sögulega hafa vextir á Íslandi verið um þrisvar sinnum hærri en í nágrannalöndum okkar sem skerðir samkeppnishæfi landsins verulega.
Heildarskuldir á Íslandi eru um 10 þúsund milljarðar og eru vextir af þeim um 750 milljarðar á ári. Vextir af sömu skuld eru um 300 milljarðar í evrulöndunum í kringum okkur, einnig hjá Dönum og Færeyingum sem eru með krónu sem er fasttengd við evruna.
Þarna munar um 450 milljörðum á ári sem við erum að greiða í hærri vexti eða um milljón á mann á ári, einn og hálfan milljarð á dag sem er í raun kostnaðurinn við krónuna.
Að vísu þarf að leiðrétta þetta sem nemur skuldum þeirra um 270 fyrirtækja sem hafa yfirgefið krónuna og greiða sömu vexti og eru í Evrópu og hafa þannig losnað við krónuálagið sem er á vextina hjá okkur hinum.
Þannig er ljóst að háir vextir draga niður samkeppnishæfni landsins okkar og valda því að flestir atvinnuvegir landsins búa við allt að þrefalt hærri vexti en samkeppnisaðilar þeirra í nágrannalöndum okkar. Þetta skekkir líka samkeppnisstöðuna innanlands þar sem sumir njóta lágra vaxta með því að yfirgefa krónuna, hinir sitja eftir með himinháa krónuvexti.
Mörg fyrirtæki á Íslandi í ferðaþjónustu, verslun, iðnaði, landbúnaði, hugbúnaði, byggingageiranum og í sjávarútvegi keppa á innlendum markaði við erlend fyrirtæki í sama geira sem fjármagna sig í erlendum gjaldmiðli. Nægir að nefna Costco, Bauhaus, Bygma (Húsasmiðjan), Berjaya hótelin, CocaCola, Benchmark Genetics, Kerecis, Marel og Smyril-line. Þessi fyrirtæki búa við allt önnur vaxtakjör en íslenskir samkeppnisaðilar.
Að auki má nefna að sjávarútvegsfyrirtækin sem hafa yfirgefið krónuna og fjármagna sig í erlendum gjaldmiðlum á lágum vöxtum, hafa keypt tugi fyrirtækja í iðnaði, verslun, flutningum og fasteignageiranum sem eru að keppa við íslensk fyrirtæki sem fjármagna sig á mun hærri krónuvöxtum en þau.
Nýlega kom fram á ráðstefnu um innviði að Færeyingar fjármagna sín jarðgöng á mun lægri vöxtum en við sem skýrir hraðan vöxt í jarðgangagerð hjá þeim. Færeyskur fyrirlesari fullyrti að íslenskir krónuvextir myndu gera jarðgangagerð í Færeyjum óarðbæra.
Flestir eru sammála því að gjaldmiðillinn okkar, krónan, er orsakavaldur þessara háu vaxta í landinu okkar og veldur skertri samkeppnisstöðu landsins.
Því má búast við því að Samtök Atvinnulífsins muni berjast fyrir því að nýr alþjóðlegur gjaldmiðill verði tekinn upp í landinu okkar á næstu árum og að þannig verði tryggt að samkeppnisstaða landsins batni með lægri vöxtum.