
Óhætt er að segja að stjórnarandstaðan er ekki að eiga gott mót um þessar mundir. Hefur hún reyndar verið heillum horfin allt frá því að þjóðin rak vinstri stjórn Bjarna Benediktssonar og Katrínar Jakobsdóttur á dyr í kosningunum fyrir rétt rúmu ári. Sjálfstæðisflokkur og Framsókn virðast hafa með öllu misst sitt erindisbréf í íslenskri pólitík. Tómarúmið yst á hægri kantinum hefur síðan orðið Miðflokknum fengsæll veiðistaður, þótt málflutningurinn sé innflutt drasl.
Nú bar svo við í vikunni að innviðaráðherra kynnti samgönguáætlun til næstu fimm ára. Meðal þeirra gagna sem hann lagði til grundvallar var ný skýrsla frá Háskólanum á Akureyri um jarðgangakosti. Fram kom að ráðherrann hefði ekki lesið skýrsluna frá orði til orðs heldur hafði hann lesið tiltekna hluta hennar og einnig samantekt á niðurstöðum hennar.
Þá trylltust þingmenn stjórnarandstöðunnar, einkanlega oddvitar stjórnarandstöðunnar í Norðausturkjördæmi. Þeir nánast froðufelldu af bræði og lýstu vanþóknun sinni á því að Fljótagöng hefðu verið tekin fram yfir Fjarðaheiðagöng. Sögðu að samgönguáætlun væri fallin um sjálfa sig þar sem ráðherra hefði ekki lesið skýrsluna og því væri ákvörðun hans pólitísk en ekki fagleg.
Svarthöfði efast ekki um að þessi málflutningur fellur vel í kramið á Austfjörðum. Hann veltir hins vegar fyrir sér hvað kjósendum á Siglufirði, Ólafsfirði og Dalvík finnst um hneykslan oddvitana á því að samgöngubætur við þá staði skuli settar í forgang. Þetta er nefnilega allt sama kjördæmið.
Þá sér Svarthöfði tragíókómedíuna í því að Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, Ingibjörg Isaksen og Jens Garðar Helgason og fleiri þingmenn skuli fárast yfir því að ákvörðun ráðherra sé pólitísk. Lýðræðið sjálft gengur út á að teknar eru pólitískar ákvarðanir. Við þá ákvarðanatöku reiða ráðherrar og þingmenn sig ekki eingöngu á eigin heimavinnu heldur nýta þeir þekkingu fag- og fræðifólks á hverju sviði. Það er nákvæmlega það sem innviðaráðherra gerði í þessu tilviki.
Embættismannakerfið var ekki byggt upp til þess eins að ráðherrar sniðgangi það og þá þekkingu sem þar býr og reyni sjálfir að gerast mestir sérfræðingar í öllum málum. Embættismannakerfið er til þess að styðja við ákvarðanatöku ráðherra, ekki til að stjórna henni. Ef umboðslausir embættis- og fræðimenn eiga að sjá um ákvarðanatöku getum við hæglega sleppt því að kjósa til Alþingis á fjögurra ára fresti. Þá er engin þörf fyrir þingmenn eða ráðherra og allar ákvarðanir verða óskaplega „faglegar“.
Ef Svarthöfði vissi ekki betur héldi hann að ofangreindir þingmenn hefðu ekki grænan grun um gangverk lýðræðisins, út frá hneykslan þeirra á „pólitískri“ ákvarðanatöku ráðherra. Því fer hins vegar fjarri. Sigmundur Davíð er fyrrverandi forsætisráðherra. Hann tók pólitíska ákvörðun um margt í ráðherratíð sinni, m.a. uppgjörið við kröfuhafa gömlu bankanna. Þar fór hann gegn faglegu mati embættismannakerfisins. Ingibjörg Isaksen var þingflokksformaður ríkisstjórnarflokks í vinstri stjórn Bjarna og Katrínar. Og þótt Jens Garðar sé nýgræðingur á þingi er hann þar á vegum þess valdaflokks sem lengst hefur setið í ríkisstjórn frá því að Ísland hlaut fullveldi og hefur því enga afsökun fyrir þessu upphlaupi sínu.
Svarthöfði er þess fyllilega meðvitaður að vitaskuld var það pólitísk ákvörðun Sigurðar Inga Jóhannssonar, fyrrum innviða- og samgönguráðherra, að vanrækja viðhald og uppbyggingu samgönguinnviða. Það var líka pólitísk ákvörðun Illuga Gunnarssonar, þáverandi menntamálaráðherra, að skipa Ársæl Guðmundsson skólameistara Borgarholtsskóla þrátt fyrir að valnefnd væri einhuga um að hann væri langt í frá hæfasti umsækjandinn. Afleiðingar þeirrar pólitísku ákvörðunar Illuga eru margvíslegar og alvarlegar fyrir núverandi og fyrrverandi nemendur skólans.
Svarthöfði veit nefnilega, rétt eins og stjórnarandstaðan þótt hún krossleggi nú lappir og þykist hrein og óspjölluð, að lýðræðið gengur út á pólitískar ákvarðanir og sumar slíkar eru bara alveg ágætar en aðrar síðri. Hinn kosturinn er alræði ókjörinna embættismanna.