fbpx
Þriðjudagur 09.desember 2025
EyjanFastir pennar

Sigmundur Ernir skrifar: Þrálát sóun á almannafé

Eyjan
Laugardaginn 6. desember 2025 13:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Fjárlög næsta árs voru afgreidd frá Alþingi í gær – og við það tilefni er vert að velta fyrir sér hvernig stjórnmálin og stofnanir samfélagsins umgangast sjóði þess og fara með opinbert fjármagn.

Þar ískrar í brotalöminni, svo ekki sé meira sagt.

Heita má að áætlanagerð ríkisins, sem lýtur að opinberum framkvæmdum, sé meira og minna í skötulíki. Og það hefur svo sannarlega kostað sitt þegar horft er til þess að áratugum saman hefur óskhyggjan ein og óstudd ráðið för við útreikninga á kostnaði við mannvirkjagerð og önnur viðamestu útgjöldin úr ríkissjóði.

Pólitíkin á Íslandi hefur einatt réttlétt framkvæmdagleði sína með þeim orðum að kostnaðurinn sé réttlætanlegur, en skilið eftir efasemdirnar um hvort hann sé raunhæfur. Niðurstaðan hefur oftar en ekki verið framúrkeyrsla, stundum svo skiptir milljörðum, og öðru hverju svo nemur tugmilljörðum.

Rannsókn á raunkostnaði og umfangi verkanna hefur einfaldlega verið skilin eftir úti á túni – og má ástæðuna einkum rekja til þess að verkgleðin hefði líklega breyst í ógleði ef allt hefði verið talið með. Þess heldur að ana út í framkvæmdir og láta bara reka á reiðanum.

Saga íslenskra ríkisframkvæmda er þessu marki brennd. Við endurskoðun hafa þær farið langt fram úr upphaflegu kostnaðarmati, án þess að nokkur beri þar ábyrgð, hvorki stjórnmálin né stofnanir, og svo er bara talið í næstu framkvæmd með tilhlökkun í brjósti.

„Pólitíkin á Íslandi hefur einatt réttlétt framkvæmdagleði sína með þeim orðum að kostnaðurinn sé réttlætanlegur, en skilið eftir efasemdirnar hvort hann sé raunhæfur.“

Reynslan ætti að kenna okkur sem samfélagi að óttast það versta þegar fyrstu skóflustungur eru teknar á vettvangi, og jafnvel líka þegar klippt er á borðana, því jafnt á byggingartímanum sjálfum og að aflokinni vígslunni, fara bakreikningarnir að skila sér í bunkum. Og það hefur ekki verið nokkur möguleiki á því – og hvað þá sátt um það á milli stjórnmálaflokka landsins – að læra eitthvað af þessari löngu uppsöfnuðu reynslu.

Ríkið bara borgar.

Starfsmenn Ríkisendurskoðunar komu fyrir Stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis í vikunni sem er að líða. Þar var fjallað um eftirfylgniskýrslu hennar vegna framkvæmda og reksturs Landeyjarhafnar. Og það skal segjast alveg eins og er að það var ekki ánægjulegt að heyra raunasögurnar um allar þær ófarir sem rekja má til þess að afráðið var að byggja höfn á sandi.

Látum vera að hafnargerðin, sem átti að kosta þrjá milljarða, hafi á endanum þurft á tíu milljörðum að halda, enda er það nú bara dæmigerð framúrkeyrsla. En af því að allt eðli og umfang verksins var rannsakað eftir á, hlaut það augljósa að gerast að bakreikningarnir hrönnuðust upp inn í langa framtíð. Kostnaður við dýpkun á næstu árum eftir opnun hafnarinnar, sem átti að vera óverulegur sem hlutfall af stofnkostnaði – og þar var ein réttlætingin fyrir verkinu komin – hefur reynst vera um hálfur milljarður á ári á þeim tveimur áratugum sem liðinn er frá vígslu bryggjunnar. Ástæðan er einkum og sér í lagi sú að það var aldrei lagt í að reisa skjólgarð á sandrifi austan við hafnarmynnið til að búa innsiglinguna það nauðsynlega skjól fyrir sandburði úr Markarfljóti, sem eftir á að hyggja var ein af forsendum þess að mannvirkið væri á pari við verkfræði og aðrar þær raungreinar sem kunna skil á duttlungum náttúrunnar.

Því fór sem fór. Og viðhald þessa verks verður rándýrt um ókomin ár. Og við það mun sitja.

Nú skal ekki dregið úr mikilvægi Landeyjarhafnar fyrir samgöngur á milli lands og eyja – og rétt að halda því til haga að nýting hennar er og hefur verið um 85 prósent, sem er viðunandi – en þessi opinbera framkvæmd er bara dæmi um að oftar en ekki er höndum kastað við áætlanagerð á vegum opinberra aðila. Þar er sjaldnast forskoðað af ábyrgð, en þess heldur bara endurskoðað.

Í tiltekt nýrra stjórnvalda á komandi misserum þarf að huga að endurbótum og umskiptum á þessu sviði, ella heldur þrálát sóun á almannafé bara áfram. Það á ekki að vera í boði.

„Pólitíkin á Íslandi hefur einatt réttlétt framkvæmdagleði sína með þeim orðum að kostnaðurinn sé réttlætanlegur, en skilið eftir efasemdirnar hvort hann sé raunhæfur.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

EyjanFastir pennar
Fyrir 1 viku

María Rut Kristinsdóttir skrifar: Hvernig væri lífið án EES?

María Rut Kristinsdóttir skrifar: Hvernig væri lífið án EES?
EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Björn Jón skrifar: Hægribylgjan og menningarstríðið

Björn Jón skrifar: Hægribylgjan og menningarstríðið
EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Þorsteinn Pálsson skrifar: Breytt flokkakerfi og ný framtíðarmynd

Þorsteinn Pálsson skrifar: Breytt flokkakerfi og ný framtíðarmynd
EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Thomas Möller skrifar: Sögueyjan Sikiley

Thomas Möller skrifar: Sögueyjan Sikiley
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Svarthöfði skrifar: Uppblásinn hoppukastali Sjálfstæðismanna til sölu – nafnið öfugmæli

Svarthöfði skrifar: Uppblásinn hoppukastali Sjálfstæðismanna til sölu – nafnið öfugmæli
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Þorsteinn Pálsson skrifar: Hvar á Ísland heima?

Þorsteinn Pálsson skrifar: Hvar á Ísland heima?