

Dauðinn er atkvæðamikill leikstjóri í samfélaginu. Fólk á góðum aldri deyr af einhverjum ástæðum og eftir standa maki og börn. Lífið heldur áfram og stundum vill eftirlifandi maki stofna til nýs sambands eða sambúðar. Börn og aðrir ættingjar bregðast mjög misjafnlega við slíkum fyrirætlunum. Í starfi mínu hef ég rekist á harðfullorðin börn sem börðust af alefli gegn nýja sambandinu og gerðu allt til að spilla fyrir foreldrinu og nýja aðilanum.
Margt kemur til. Sum börn krefjast þess að foreldrið haldi ævarandi tryggð við minningu látna makans. Æskuheimilið á að vera óbreytt þótt annar aðilinn sé dáinn og enginn má hrófla við því. Margir óttast um arfinn sem muni aflagast ef stofnað sé til nýs sambands. Aðrir líta á foreldra sína eins og ósjálfbjarga börn sem fari sér að voða úti í hinum stóra heimi. Venjulega skipta þó mestu persónueiginleikar eins og sjálfhverfa og stjórnsemi hjá viðkomandi einstaklingum.
Þetta er þó ekki ný saga. Droplaugarsonasaga er ein Íslendingasagna. Hún segir frá ekkjunni Droplaugu og sonum hennar. Droplaug tekur saman við Hallstein bónda í mikilli óþökk Helga sonar síns. Svo fer að Helgi fær mann til að drepa Hallstein en sagan segir að Droplaug hafi verið með í ráðum þegar það var ákveðið. Hún var orðin svo tvístígandi og áttavillt vegna stjórnsemi og frekju Helga að hún tók þátt í illvirkinu. Helgi réði för en vilji hennar sjálfrar og tilfinningar skiptu engu máli.
Þetta hef ég séð gerast. Börnin taka foreldrið í hálfgildings gíslingu og krefjast þess að nýja sambandinu verði slitið. Ég brýni venjulega fyrir fólki að það sé sjálfráða og verði að stjórna sínu lífi í samræmi við eigin þarfir og vonir. En það er erfitt að vera milli steins og sleggju og þurfa að velja á milli barnanna sinna og nýja kærastans eða kærustunnar. Fengi Helgi Droplaugarson að ráða væri nýi aðilinn í lífi mömmu eða pabba alltaf réttdræpur.
Móðir mín heitin var ekkja í tæp 30 ár áður en hún hitti gamlan mann í blindrafélaginu sem varð félagi hennar og vinur í ellinni. Þau eignuðust afskaplega fallegt samband sem var þeim báðum mikils virði á lokametrum langrar ævi. Helgi Droplaugarson hefði án efa séð ofsjónum yfir þeim samskiptum og ráðið gamla manninum bana.