
Tollastefna Bandaríkjaforseta er afleit en hefur enn sem komið er haft takmörkuð áhrif og heimshagkerfið virðist hafa fundið leiðir til að lifa með þessu. Engin veruleg áhrif eru merkjanleg hér á landi og þó ber íslenskur fiskur nú tolla vestra, enda er íslenskur útflutningur til Bandaríkjanna að mestu ferðaþjónusta sem ekki ber tolla. Tollar rugla aðfangakeðjum og hætt er við því að meiri áhrifa gæti síðar. Gylfi Magnússon, hagfræðiprófessor við Háskóla Íslands, er gestur Ólafs Arnarsonar í hlaðvarpi Eyjunnar.
Gylfi Magnusson - 2
Það hefur gustað þó nokkuð á alþjóðlega sviðinu og við erum náttúrlega ekkert óháð því sem er að gerast. Það hafa orðið miklar breytingar. Það kemur kemur forseti í Bandaríkjunum sem í raun og veru snýr heimsmyndinni á hvolf.
„Já, það voru auðvitað afleitar fréttir þegar hann fór í þessa herferð sína með, með tolla, þannig að hún ætlaði að taka ýmsar aðrar djarfar ákvarðanir en það sem hefur nú kannski mest áhrif á efnahagslífið eru þessar hugmyndir um tolla og þær hafa alveg augljóslega haft ýmis slæm áhrif en kannski minni heldur en sumir óttuðust. Það er eins og að heimshagkerfið, ef við köllum það það, hafi fundið leiðir til þess að lifa með þessu. Og það er til dæmis athyglisvert að Kína, sem var nú kannski það land sem að var helst, þessu var helst beint gegn, öðrum fremur, útflutningur þaðan er að aukast þannig að einhvern veginn hafa Kínverjar fundið leiðir til þess að búa við þetta. Og þetta hefur ekki haft nein veruleg, að því er maður getur séð, áhrif á Ísland. Við flytjum auðvitað töluvert út til Bandaríkjanna, þó að Evrópa sé miklu stærri markaður. En þeir tollar sem þó hafa verið lagðir á íslenskar vörur virðast ekki hafa truflað neitt verulega þótt án efa séu einhverjir sem að, að sjá fram á lægri tekjur út af því.
Það skiptir örugglega töluverðu í því samhengi að okkar útflutningur til Bandaríkjanna er mikið ferðaþjónusta, sem er auðvitað ekki tolluð af Bandaríkjamönnum. Svo erum við að flytja út lyf sem hafa ekki verið tolluð enn þá en svona einhverjar líkur á því að þau verði tolluð og það getur náttúrulega haft áhrif á þann geira. En fiskur og fleira sem við flytjum út til Bandaríkjanna er núna með tollum. En það virðist ekki hafa slegið menn út af laginu. Líklega eru Bandaríkjamenn í reynd að borga þá tolla svona að mestu.“
Maður veltir fyrir sér hvort það sé hugsanlegt að áhrifin af þessum tollum, hvort þau eru ekki að fullu fram komin. Við sjáum bara það sem er að gerast hér. Nú verða vörugjöld á bíla, jarðefnaeldsneytisbíla, hækkuð um áramót og það verður til þess að það hefur aukist núna, síðustu mánuði þessa árs, innflutningur og sala á þeim bílum sem að lenda í þessum vörugjöldum. Mögulega hefur eitthvað svipað verið í Bandaríkjunum, að menn hafi birgt sig upp áður og þannig að það geti átt eftir að koma svona skýrari áhrif af þessu.
„Já, ég held að það sé alveg rétt hjá þér og bæði út af svona einhverri birgðasöfnun sem að tafði að tollarnir kæmu fram. Svo líka það að í einhverjum tilfellum þá hafa fyrirtæki svona ákveðið að bíða og sjá og taka kannski á sig kostnaðinn, sem þau munu nú ekki gera varanlega, en gera það kannski tímabundið til þess að eyðileggja ekki einhverja markaði meðan það er að koma í ljós hvort að tollarnir til dæmis standast nú bara bandarísku stjórnarskrána, en það er verið að takast á um það. En síðan eru það líka, án efa, langtímaáhrif sem tekur töluverðan tíma að koma fram, að ef að þessir tollar verða í einhver ár, þá truflar þetta aðfangakeðjur. Það eru bara heilu atvinnugreinar þarna sem byggja á því að flytja aðföng og hálfsmíðaða bíla og annað yfir landamæri, jafnvel oft, og ef tollarnir verða þá þarf að endurhugsa það allt saman en það tekur bara einhver ár að stilla upp nýjum aðfangakeðjum og færa framleiðslu til á milli landa.
Bretar ráku sig nú á þetta eftir Brexit, að til dæmis þeirra bílaiðnaður var mjög samfléttaður við bílaiðnað á meginlandinu. Og það var bara töluvert snúið að finna leiðir fyrir bílaiðnaðinn til þess að lifa með þeim múrum sem að voru settir upp með Brexit. Á endanum þá líklega ákváðu menn nú eiginlega bara að semja sig frá því, þannig að það var gerður fríverslunarsamningur sem svona að mestu gerir það mögulegt að vera með bílaframleiðslu sem er kannski þannig að vélin er sett saman í Tékklandi og stálið kemur frá Kóreu og samsetningin er einhvers staðar í í Essex eða Sussex eða einhvers staðar. Bílarnir fara fram og til baka yfir landamæri. Það það virðist vera hagkvæmast að gera það þannig og ég á nú svona von á því að það verði lendingin í Bandaríkjunum líka, þó að það kannski náist ekki að stilla því þannig upp með núverandi Bandaríkjaforseta.“