
Aukin fjölbreytni í íslensku atvinnulífi og fjölgun undirstöðuútflutningsgreina gerir það að verkum að áföll á borð við fall Play og rekstrarstöðvun Norðuráls að stórum hluta vegna bilunar eru vel viðráðanleg fyrir hagkerfið en ekki rothögg eins og varð í Hruninu og Covid. Gylfi Magnússon, hagfræðiprófessor og fyrrverandi ráðherra, er gestur Ólafs Arnarsonar í hlaðvarpi Eyjunnar.
Gylfi Magnusson - 1
„Það er náttúrlega eins og alltaf á Íslandi. Sveiflur á fiskimiðunum og í náttúrunni og svo náttúrlega í stórfyrirtækjum eins og álverinu og og fluginu. Þannig að þetta er kannski ekki stór áföll, svona ekki í samanburði við hrunið 2008 eða Covid, en það hefur ýmislegt gengið á og hrúgast inn svona frekar vondar fréttir, smá mótbárur, en samt ef maður lítur á heildarmyndina þá er hún nú ekkert afskaplega svört. Það gengur nú svona flest alveg þokkalega og þó að það sé svona eitthvað að hægja á ferðaþjónustunni, þér virðist, og auðvitað þessi tímabundnu vandræði í áliðnaðinum þá er nú útflutningur að vaxa og fer að nálgast 2.000 milljarða á einu ári þannig að þetta er nú enn þá ansi öflugt efnahagslíf sem að, sem betur fer, tryggir svona alveg þokkaleg lífskjör og reyndar auðvitað, hvort heldur er í alþjóðlegum samanburði eða sögulegum fyrir Ísland, þá eru þetta afskaplega góð lífskjör sem við erum að fá, þó að auðvitað finnist sumum að þeir gætu haft það betra og það séu alltaf óskir um að fá meiri fjárveitingar í hitt og þetta. Það er bara eins og gengur.“
Já, já. Og það er auðvitað, eins og þú bendir á, þessi áföll sem hafa dunið yfir á þessu ári, þetta er ekkert í líkingu við Covid eða hrunið. Þetta er ekkert í líkingu við það þegar síldarstofninn bara brast og hvarf.
„Einmitt. Þetta eru svona hversdagslegri áföll, ef við getum lýst því þannig, án þess að ég vilji nú neitt vera að gera lítið úr tjóni þeirra sem að standa að því næst, þá er þetta fyrir hagkerfið í heild svona vel innan marka þess sem er viðráðanlegt.“
Við njótum þess auðvitað að við erum ekki lengur jafn háð einni atvinnugrein. Við vorum, ja, fram undir aldamót þá vorum við mjög háð sjávarútvegi og ef illa áraði í sjávarútvegi, þá áraði mjög illa á Íslandi.
„Já, það er tvímælalaust framfaraskref. Við erum komin með fleiri stoðir undir útflutninginn og þar með efnahagslífið. Og við erum auðvitað enn þá töluvert að veðja á náttúruauðlindir, því að orkufreki iðnaðurinn er auðvitað okkar leið til þess að koma þeim auðlindum í verð og jafnvel ferðaþjónustan er nú auðvitað að miklu leyti keyrð á fegurð náttúrunnar og því sem hún hefur að bjóða. En það er þó mun betra að vera með fleiri stoðir, þó þær séu allar tengdar náttúrunni, heldur en færri og svo erum við auðvitað líka að byggja upp fleira. Það eru til dæmis miklar fjárfestingar núna í gangi í fiskeldi, sérstaklega landeldi, og í gagnaverum og, og því sem þeim tengist. Og fyrirhugaðar töluverðar framkvæmdir í orkuöflun, sem tengist ekki stóriðju, heldur verður notað í annað. Þannig að fjölbreytnin er nú að aukast og, og það er af hinu góða.“