
Las frétt í Mogganum nýlega þar sem vitnað var í Mark Rutte, framkvæmdastjóra NATO, á fundi í Berlín: „Evrópa næsta skotmark Rússa.“ Hvað á maðurinn við? Þegar ég var í barnaskóla lærði ég að Rússland vestan Úralfjalla tilheyrði Evrópu. Ætla Rússar að ráðast á sjálfa sig? Eða er Evrópa bara ESB í huga Rutte? Eru þá Ísland, Sviss, Noregur og Liechtenstein stikk frí? Ætli Rússum sé umhugað um að leggja hollvini í Evrópu í rúst eins og t.d. Ungverjaland, Slóvakíu og Serbíu? Halda Rutte & Co virkilega að Pútín, Lavrov, Medvedev og strákarnir í Kreml ætli að eyða ellinni í neðanjarðarbyrgi Kremlar, sötrandi vodka og hámandi í sig kavíar á meðan Evrópa brennur, Rússland meðtalið? Nei, þessir fírar eru of sjálfgóðir. Þeir ætla að eyða ellinni á herragörðum sínum í friðsælli, rússneskri sveitasælu. Vil undirstrika að ég vinn ekki í utanríkis- og varnarmálaráðuneytinu eða telst vera sérfræðingur í her- og varnarmálum. Ég er bara áhyggjufullur borgari að reyna að átta mig á öllum þessum stríðsæsingi.
OK, Rússar réðust inn í Úkraínu. Þeir eru búnir að vera að paufast þar í skotgröfunum í tæp 4 ár og hafa aðallega afrekað að eyðileggja orkuinnviði, drepa konur og börn og reyndar náð yfirráðum yfir nokkru landsvæði. Hvað vakir fyrir þeim er mér hulin ráðgáta, sennilega í fýlu af því að Úkraínu var boðin aðild að NATO, en ekki þeim. En hvað veit ég, enda ekki sérfræðingur eins og áður sagði. En halda Rutte & Co virkilega að Rússar, sem verður lítið ágengt í baráttu sinni í Úkraínu, ætli að leggja til atlögu við ESB? Hver á þá að kaupa jarðgas af þeim? ESB er enn að kaupa jarðgas af Rússum þrátt fyrir yfirlýstar viðskiptaþvinganir þeim á hendur. Það eru í raun bullandi viðskipti í gangi milli ESB og Rússlands. Það eru engir svo vitlausir að halda að s.k. viðskiptaþvinganir haldi nema íslenskir ráðamenn, sem eru búnir að setja tvö fyrirtæki, sem þjónusta sjávarútveginn, á hausinn og loka, einir Evrópuþjóða, sendiráðinu í Moskvu.
Og Rutte heldur áfram. Samkvæmt honum stöndum við nú frammi fyrir stórstyrjöld í Evrópu, sem gæti staðið árum saman, þ.e. ef Pútín ýtir ekki á rauða hnappinn. Hvað verður þá um þriggja daga viðlagakassann með útvarpi, gastæki, vasaljósi og eldspýtum, sem fólk keypti hjá Olís? Fara menn nú að selja þriggja ára kassa? Og svo kemur rúsínan í pylsuendanum: „Og ef hann (Pútín) er reiðubúinn að fórna venjulegum Rússum á þennan hátt (þ.e. í Úkraínu), hvað er hann tilbúinn að gera við okkur?“ Ætti ekki spurningin frekar að vera, hvað Pútín geti gert okkur, þegar hann er búinn að fórna öllum „venjulegum“ Rússum í yfirstandandi átökum?
Ef marka má fréttir, er Pútín hálfgert hrekkjusvín, sem er að hrella aðra Evrópubúa með því að klippa á sæstrengi og einhverju tilviljanakenndu drónaflugi, fullyrðingar sem ekki fást staðfestar. Og það er kostulegt að fylgjast með fálmkenndum viðbrögðum Rutte & Co, sem dettur ekkert annað í hug en að magna upp stríðsótta meðal almennings. Mætti ætla að Rutte og allar silkihúfur Evrópu væru búnar að kaupa hlutabréf í stríðstólaframleiðendum, en vopnaframleiðendur græða sem aldrei fyrr https://thjodolfur.is/vopnaframleidendur-graeda-a-ta-og-fingri/. Og til að fjármagna vígbúnaðinn þarf að hækka skatta og koma á nýjum gjöldum og það er best gert með því að ala á ótta þegnanna, því þegar búið er að hræða úr þeim líftóruna, opna þeir fúslega budduna til að kaupa sér sálarró. Svínvirkaði í „baráttunni“ við hamfarahlýnunina, hví ekki vegna yfirvofandi stórstyrjaldar í Evrópu? Spái því að innan tíðar verði farið að innheimta vígbúnaðargjald af íslenskum heimilum og það sett í einn sjóðinn enn. Hvort peningarnir verði nýttir til að efla varnir landsins er svo allt annað mál.
Ekki misskilja mig, Pútín er kolklikkaður, en við Rutte & Co vil ég segja þetta: Róið ykkur og ef stríðsæsingur og -eftirvænting er að buga ykkur, fáið ykkur heitt kakó og piparkökur og lesið Veröld sem var eftir Stefan Zweig.
Bestu kveðjur úr óbærilegum léttleika tilverunnar.