
Nú styttist í jólin og vel fer á að rifja upp deiluna um jólatréð í Kokkedal í Danmörku í desember 2012. Í bænum er hverfið Egedalsvænge. Um er að ræða þyrpingu fjölbýlishúsa með sameiginlegt hverfisráð. Ráðið tekur ýmsar ákvarðanir meðal annars um opin svæði sem í hverfinu eru. Stjórn ráðsins er kosin af íbúum í lýðræðislegri kosningu. Í hverfinu var meirihluti íbúa innflytjendur frá ýmsum löndum, þar á meðal var töluverður hópur múslima.
Löng hefð var fyrir því í desember ár hvert að hverfisráðið keypti myndarlegt jólatré til koma fyrir á einu þessara opnu svæða fyrir íbúa að njóta um jól. Í stjórn hverfisráðsins sátu sjö fulltrúar og í kosningum sem fram fóru haustið 2012 fóru leikar svo að í hana voru kjörnir fimm múslimar. Hin nýkjörna stjórn hafnaði því, með fimm atkvæðum gegn tveimur, að setja fé í kaup á jólatré og halda smá hátíð þegar það yrði tendrað. Áætlaður kostnaður við þetta verkefni var um 8000 danskar krónur. Skömmu áður hafði stjórnin ráðstafað um 60 þúsund dönskum krónum til trúarhátíðar múslima. Ákvörðunin um að kaupa ekki jólatré var rökstudd með því að peningar væru af skornum skammti og stjórnin vildi ekki setja í forgang kaup á jólatré. Ýmis mál væru brýnni.
Þetta olli óánægju marga íbúa í hverfinu og vakti málið athygli. Stjórn hverfisráðsins reyndi að skýra mál sitt og leggja áherslu að það snerist ekki um trúarbrögð eða óvirðingu meirihluta stjórnar við danskar jólahefðir. Bar hún fyrir sig fjárskort og ýmis önnur atriði formlegs eðlis. Allt kom fyrir ekki og ákvörðunin túlkuð af mörgum sem dæmi um trúarlega og menningarlega forgangsröðun í þágu múslimskra hefða á kostnað kristinna og danskra hefða og gilda.
Danskir fjölmiðlar á landsvísu tóku málið upp og töldu sumir að um væri að ræða skýrt dæmi um óþol múslima gagnvart öðrum trúarbrögðum og ákvörðunina árás á danska menningu og henni sýnd óvirðing. Það sem í upphafi var talið staðbundið ergelsi nokkurra íbúa í Egedalsvænge varð brátt að víðtækari umræðu í dönsku samfélagi sem náði langt út fyrir hverfið og bæinn og snerist um hin stærri málefni fjölmenningarsamfélagsins, ólíka menningarhópa og áhrif þeirra á danskt samfélag og menningu. Málið rataði alla leið inn í danska þingið og þess krafist að Uffe Elbæk þáverandi menningarmálaráðherra léti málið til sín taka. Hann hafnaði því að blanda sér í ákvörðun hverfisráðsins og mátti í kjölfarið þola líflátshótanir. Þegar hér var komið sögu var málið í huga margra orðið táknmynd fyrir alvarlega menningarkreppu og átök milli danskrar menningar og „útlenskrar“ menningar.
Í stuttu máli, ákvörðun hverfisráðs í smábæ í Danmörku um að kaupa ekki jólatré var blásin upp sem birtingarmynd víðtækara og stærra vandamáls um aðlögun útlendinga að dönsku samfélagi.
Rætt var um uppbyggilega aðlögun sem vísar til virkar þátttöku aðkomufólks í hinum ýmsu samfélagslegum einingum eða stofnunum, svo sem húsfélögum, skólum og vinnumarkaði, t.d. með þátttöku starfi stéttarfélaga. Frá þessu sjónarmiði má raunar segja að málið sé ágætt dæmi um vel heppnaða uppbyggilega aðlögun íbúa af erlendum uppruna með því að múslimar þeir sem áttu í hlut tóku þátt í lýðræðislegu ferli með því að bjóða sig fram til trúnaðarstarfa og hljóta kosningu til þess. Umboðið sem þeir fengu í kosningum notuðu þeir til að hafna því að eyða peningum í sameiginlegt jólatré fyrir íbúa. Vissulega vakna hér ákveðnar spurningar um hvernig þeir sem kosnir eru til slíkra trúnaðarstarfa skuli beita valdi sínu í fjölmenningarsamfélagi, en látum þær liggja milli hluta.
Einnig var talað um menningarlega aðlögun sem snýst um gagnkvæma virðingu. Töldu margir Danir að ákvörðunin vitnaði um skort á slíkri virðingu fyrir dönskum gildum. Er þá vísað til þess að einstaklingar sem tilheyrðu minnihlutahópi í samfélaginu, virtust ekki reiðubúnir að virða staðbundnar hefðir meirihlutans, svo sem þá að allir Danir ættu rétt á því á aðventunni að „hygge sig“ í kringum jólatré. Litið var á þær skýringar sem stjórn hverfaráðsins hafði gefið sem hreinan fyrirslátt þar sem ástæða ákvörðunarinnar væri í raun af miklu dýpri menningarlegum toga.
Loks var rætt um þá þversögn þá sem stundum felst í kröfu um aðlögun. Hún er sé sú að í einu orði séu útlendingar hvattir til þátttöku í uppbyggilegri aðlögun. Í hinu orðinu er aftur á móti litið svo á réttur þeirra til lýðræðislegrar ákvörðunartöku sé takmarkaður við að þeir taki ákvarðanir sem féllu þeim í geð sem aðhylltust hin réttu þjóðlegu gildi. Með þessu væri útlendingum send þau skilaboð að þeir væru í raun ekki fullgildir þátttakendur í samfélaginu. Eins og við var að búast notuðu flokkar á hægri væng stjórnmálanna málið sem dæmi um misheppnaða aðlögun eða eftir atvikum að slík aðlögun væri tálsýn. Standa bæri vörð um danska menningu og að skýrari innflytjenda- og aðlögunarstefna væri nauðsynleg.
Hvað sem líður þessum hugleiðingum um aðlögun var jólunum þó ekki aflýst í hverfinu þetta árið, enda leiddu þessar miklu umræður til þess að einstaklingar og fyrirtæki tóku sig saman og gáfu fé til að kaupa jólatré og borga fyrir athöfn þegar það var tendrað. Ýmsir önduðu léttar og litu svo á að með þessu hefðu danskar hefðir farið með sigur af hólmi. Aðrir litu aftur á móti svo á að með þessu hefði verið valtað yfir ákvörðun lýðræðislega kjörinnar stjórnar hverfisráðsins. Málið vekur því spurningar um hvernig þeir sem tilheyra minnihluta í samfélaginu geti tekið þátt í lýðræðislegum ferlum án þess að mæta vantrausti, sem og hvernig þeir sem telja sig til meirihluti í samfélaginu sýni lýðræðislegum ákvörðunum óvirðingu ef þær eru ekki í samræmi við þjóðlegar og menningarlegar væntingar þeirra.
Að lokum. Að framan er lýst því sem virtist í fyrstu lítilfjörleg ákvörðun stjórnar hverfisráðs í Egedalsvænge í Kokkedal um að kaupa ekki jólatré. Þessi ákvörðun leiddi til víðtækrar umræðu í Danmörku um innflytjendamál, aðlögun og togstreitu menningarheima. Ekki geri ég lítið úr því að þetta er snúin umræða og viðkvæm. Samt sem áður má kannski segja að sagan um jólatréð í Kokkedal sé dæmi um hvernig ein fjöður verður að fimm hænum!
Óska lesendum mínum gleðilegra jóla.
Höfundur er hæstaréttarlögmaður og prófessor við HA.