
Á forsíðu Morgunblaðsins í dag er uppsláttur um að verið sé að hækka erfðafjárskatt. Talað er við Guðlaug Þór Þórðarson. þingmann Sjálfstæðisflokksins, sem hneykslast á því að ríkisstjórnin sé „að hækka alla þá skatta sem hún mögulega getur.“ Heldur hann því fram að „áformaðri hækkun erfðafjárskatts“ hafi verið laumað inn í frumvarp fjármálaráðherra um breytingu á ýmsum lögum um skatta og gjöld milli umræðna, en frumvarpið bíður nú 2. umræðu.
Þingmaðurinn gengur svo langt að fullyrða að verði af þessum lagabreytingum sé augljóst a‘ margir muni „ekki hafa efni á að þiggja arf.“ Hann heldur því fram að erfingjar muni þurfa að selja eignir sem þeir erfa og þannig þurfa að greiða 22% fjármagnstekjuskatt ofan á 10% erfðafjárskatt. „„Þetta eru allt saman skattar af eignum sem arfláti hefur þegar greitt skatt af,“ segir Guðlaugur Þór.“ Inni í blaðinu heldur umfjöllunin áfram og þar talar þingmaðurinn um að þetta muni helst bitna á bændum.
Orðið á götunni er að arna hafi Guðlaugur Þór og Morgunblaðið í besta falli skotið hátt yfir markið og að í raun sé um falsfréttaflutning að ræða. Alls ekki sé um skattahækkun að ræða heldur sé einfaldlega verið að samræma matsreglur þegar kemur að arfi. Þá sé af og frá að þessi einföldun bitni með neinum hætti á bændum.
Orðið á götunni er að mögulega geti breytingarnar haft áhrif til hækkunar hjá mjög efnuðu fólki vegna þess að samkvæmt þeim breytingum sem lagðar hafa verið til er að meta skuli eignir samkvæmt raunverulegu verðmæti þeirra en ekki samkvæmt bókfærðu verði. Þetta getur t.d. haft áhrif þegar kemur að einkahlutafélögum. Mjög algengt er að einkahlutafélög séu stofnuð með á bilinu 500 þúsund til milljón krónur í eigið fé. Þrátt fyrir að miklar eignir geti safnast inni í þessum félögum hefur hingað til verið regla að við skipti á arfi hafa félögin verið metin á bókfærðu virði sínu, 0,5-1 milljón. Ekki hefur verið tekið tillit til þess að í einhverjum tilfellum geta verið milljónatugir eða jafnvel meira inni í þessum félögum.
Orðið á götunni er að Morgunblaðið og Sjálfstæðisflokkurinn séu að þyrla upp moldviðri um þetta mál til að standa vörð um forréttindi ríkasta fólksins á Íslandi, rétt eins og gert var með málþófinu og tafaleikjum vegna leiðréttingar veiðigjalda fyrr á þessu ári. Einatt sýni flokkurinn og málgagnið með hverjum hjartað slær. Það slær ekki með almenningi heldur auðstéttinni.
Orðið á götunni er að slái ekki ryki í augu fólks þótt þingmaðurinn og Morgunblaðið reyni að gera píslarvotta úr bændum í þessu máli. Ef hlutabréf í skráðu félagi erfast eru þau metin á markaðsvirði til erfðafjárskatts. Ef einhver erfir t.d. 100 af hlutabréfum í Brim hf. er greiddur erfðafjárskattur af 100 milljónum. Hví skyldi ekki sá sem erfir einkahlutafélag með 100 milljóna virði af óskráðum eignum borga erfðafjárskatt af 100 milljónum rétt eins og hinn sem erfir hlutabréf í Brim?
Orðið á götunni er að þingmenn Sjálfstæðisflokksins láti nú kappið bera fegurðina ofurliði í örvæntingarfullum tilraunum sínum til að koma höggi á ríkisstjórnina. Kjósendur láta ekki blekkjast af slíku. Þeir dæma flokka og ríkisstjórnir af verkum sínum – nokkuð sem er súrt í broti fyrir Sjálfstæðismenn.