

Fyrir skemmstu snjóaði verulega í Reykjavík í einn sólarhring. Bílar spóluðu fastir og andstuttir fréttamenn töluðu við fullorðið fólk eins og börn um snjóinn. Drýldnir Akureyringar sögðust reyndar hafa séð mun meiri snjó fyrir norðan. Fjölmargir tóku myndir af öngþveitinu sem skapaðist í þessu fannfergi. Frægasta myndbrotið var af pirruðum ökumanni sem keyrði utan í hjólreiðamann sem var fyrir honum á veginum. Fjölmargir voru virkir á athugasemdum og höfðu skoðun á þessu máli. Stór hluti dró taum ökumannsins og áfelldist hjólamanninn fyrir að vera úti á götu í þessari færð. Hann kallaði yfir sig að bílstjóri keyrði á hann af fullkomnu tillitsleysi.
Þessi viðbrögð komu mér á óvart. Árlega er haldin Drusluganga víða um land til að árétta að réttlætingar af þessu tagi standast engan veginn. Ekki er hægt að afsaka ofbeldishegðun með því að fórnarlamb nauðgunar eða líkamsárásar hafi kallað yfir sig ógnina. Gerandinn ber alltaf ábyrgð á gjörðum sínum. Hann getur ekki réttlætt afbrotið með því að þolandinn hafi verið í stuttu pilsi eða þvælst fyrir honum í hálku á strætum borgarinnar.
Það er mikið fagnaðarefni að þessi einstrengingslegu viðhorf gilda ekki í umferðinni. Hjólamenn eða gönguhrólfar eiga að sjálfsögðu ekki að tefja fyrir á götunum. Bílaumferð á að vera í algjörum forgangi og hver sá sem þvælist fyrir för bílanna er eiginlega réttdræpur. Viðkomandi hjólamaður sýndi innræti sitt með því að ráðast á bílinn og brjóta spegil. Ekki þarf frekari vitna við. Ísland er bílaland þar sem bíllinn er samkomutæki, stöðutákn, átrúnaður og hluti af sjálfsmynd einstaklingsins. Mörgum sjúklinga minna þykir mun vænna um bílinn sinn en maka og börn. Hjólamaður sem ræðst með ofbeldi að bílum í snjókomu og vondri færð á ekkert gott skilið.