fbpx
Miðvikudagur 26.nóvember 2025
EyjanFastir pennar

María Rut Kristinsdóttir skrifar: Hvernig væri lífið án EES?

Eyjan
Miðvikudaginn 26. nóvember 2025 06:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Síðasta vika markaði ákveðin vatnaskil í orðræðu um EES-samninginn á Íslandi þegar leiðtogar stjórnarandstöðunnar öttu kappi í keppnisgreininni dramatískar yfirlýsingar án atrennu. „Evrópusambandið er hnignunarsamband,“ sagði einn. „Setjum allar EES innleiðingar á ís,“ sagði annar. Botninn tók svo úr þegar formaður Sjálfstæðisflokksins, sem eitt sinn var yfirvegaður og stjórntækur stjórnmálaflokkur, líkti Evrópusambandinu við glæpamann.

Á sama tíma sýndu ráðherrar ríkisstjórnarinnar – með utanríkisráðherra í broddi fylkingar – yfirvegun og festu og vörðu hagsmuni okkar Íslendinga. Óhræddir við að lýsa yfir vonbrigðum en um leið meðvituð um hagsmunina sem eru hér undir.

Fyrir okkur sem trúum á frjáls viðskipti í opnu og kraftmiklu alheimshagkerfi eru verndartollar og tollastríð, sem nú vofir yfir, vondar fréttir. Heimurinn er að breytast. Stórveldin reisa múra og breyta leiknum. Það er staðreynd sem við þurfum að horfast í augu við. Við sem eigum alla okkar hagsæld undir útflutningi og innflutningi þurfum að því að spyrja okkur erfiðra spurninga. Hvert ætlum við að stefna?

Hvernig væri tilveran án EES?

EES-samningurinn er sá alþjóðasamningur sem hefur fært þjóðinni stærstu tækifærin og umbylt þar með lífsgæðum okkar. Það að flengja fram fullyrðingum til að slá pólitískar keilur til að grafa undan Evrópusambandinu er því hvorki léttvægt né ábyrgt. Og alls ekki til þess fallið að tryggja hagsmuni okkar.

Kannski er ágætt að staldra við og spyrja: Hvernig væri daglegt líf ef við hefðum ekki tekið þá ákvörðun að undirgangast EES-samninginn fyrir tæpum þrjátíu árum? Hver væri staða Íslands án óhindraðs aðgangs að stærsta innri markaði heims, án frjáls flæðis fólks, vöru, þjónustu og fjármagns? Og hvernig væri Ísland án þeirra grunnreglna sem við höfum innleitt sem hafa skapað hér stöðugleika, gagnsæi, samkeppni, neytendavernd og fyrirsjáanleika í íslensku atvinnulífi?

Værum við betur sett þannig? Ég ætla að leyfa mér að stórefast um það.

EES-samningurinn er ekki eitthvað ómerkilegt plagg neðst í skúffu stjórnvalda. Hann er grunnforsenda hagsældar okkar Íslendinga. Án hans væri aðgengi okkar að mörkuðum og tækifærum stórskert. Okkur myndu mæta hindranir, tvíverknaður, aukið flækjustig og kostnaður. Allt yrði dýrara, þunglamalegra og ófyrirsjáanlegra. Sérstaklega fyrir lítið hagkerfi nyrst í Atlantshafi.

Ekki sjálfsagður hlutur

Ég er fædd 1989. Ég man ekki annað en líf innan EES. Kannski tökum við frelsinu sem honum fylgir sem gefnu. Að geta flutt hvert sem er innan svæðisins til náms eða vinnu, án fyrirhafnar, er ekki sjálfgefið. Að kaupa vörur sem standast öryggis- og gæðakröfur og tryggja neytendavernd er það ekki heldur. Að farsímareikningurinn hækki ekki upp úr öllu valdi þegar við erum innan EES-svæðisins er sérstaklega þægilegt og hagkvæmt. Að lyfin sem við kaupum séu skráð og samþykkt samkvæmt samevrópskum reglum er mikið öryggisatriði. Svo dæmi séu tekin.

Án EES væru vörurnar dýrar, úrvalið minna og leikreglurnar óljósar. Samfélagið okkar yrði lokað fyrir allsnægtaborði tækifæranna.

Við erum ekki í klúbbnum

EES opnaði dyr sem fyrri kynslóðir þurftu að brjóta upp með mikilli fyrirhöfn. Án EES lokast þær aftur. Þess vegna hvet ég andstæðinga Evrópusambandsins að fara varlega í þórðargleðinni hér.

Það er alveg ljóst að niðurstaða ESB um að veita Íslandi ekki undanþágu frá verndarráðstöfunum voru mikil vonbrigði og algjört brot á prinsippum EES-samningsins. Niðurstaða sem kallar á áframhaldandi öfluga hagsmunagæslu. Það gerum við með því að styrkja enn frekar stoðir samningsins. Ekki með því að grafa undan honum líkt og sumir stjórnmálamenn stunda nú um stundir. Hver er þeirra leið, þeirra lausn á stöðunni? Það er með öllu óljóst.

Einn þingmaður stjórnarandstöðunnar sagði: „Ég hélt að við værum inni í blokkinni. Við erum það ekki. Við erum ekki í þessari blokk.“ Þar liggur hundurinn grafinn. Á meðan við erum ekki í Evrópusambandinu þá erum við ekki í blokkinni. Við erum ekki í klúbbnum. Við eigum ekki aðildarkort. Við fáum stundum vinamiða í gegnum EES, en það er ekki það sama og fullur aðgangur. Í heimi þar sem stórveldin reisa múra getur það reynst dýrkeypt.

Hvert ætlum við?

Framtíð okkar ræðst af því hvernig við nýtum fullveldið, sem er okkur svo dýrmætt til að tryggja hagsmuni okkar og lífsskilyrði. Það krefst þess að vega og meta valkosti okkar af yfirvegun, standa með gildum okkar og tryggja okkar stöðu í alþjóðakerfinu.

Jafnfætis líkt þenkjandi þjóðum.

En ekki ein út í horni.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

EyjanFastir pennar
Fyrir 1 viku

Svarthöfði skrifar: Uppblásinn hoppukastali Sjálfstæðismanna til sölu – nafnið öfugmæli

Svarthöfði skrifar: Uppblásinn hoppukastali Sjálfstæðismanna til sölu – nafnið öfugmæli
EyjanFastir pennar
Fyrir 1 viku

Þorsteinn Pálsson skrifar: Hvar á Ísland heima?

Þorsteinn Pálsson skrifar: Hvar á Ísland heima?
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Svarthöfði skrifar: Mogginn vill leiðrétta mannréttindabrot en bara „hóflega“

Svarthöfði skrifar: Mogginn vill leiðrétta mannréttindabrot en bara „hóflega“
EyjanFastir pennar
Fyrir 4 vikum

María Rut Kristinsdóttir skrifar: Sorg þeirra er okkar sorg

María Rut Kristinsdóttir skrifar: Sorg þeirra er okkar sorg
EyjanFastir pennar
24.10.2025

Svarthöfði skrifar: Glæsilegur dagur íslenskra kvenna – baráttunni fyrir frelsi og réttlæti lýkur aldrei

Svarthöfði skrifar: Glæsilegur dagur íslenskra kvenna – baráttunni fyrir frelsi og réttlæti lýkur aldrei
EyjanFastir pennar
24.10.2025

Davíð Þór Björgvinsson skrifar: Laxness á náttborðinu

Davíð Þór Björgvinsson skrifar: Laxness á náttborðinu