
Sósíalistinn og fjölmiðlamaðurinn Gunnar Smári Egilsson er ekki mikill aðdáandi Þjóðmála, hlaðvarps sem Gísli Freyr Valdórsson, annar fjölmiðlamaður, stýrir. Efnistökin eru lituð af hægri væng stjórnmálanna en í færslu á samfélagsmiðlum setur Gunnar Smári fram þá kenningu að tónninn sem er sleginn í hlaðvarpinu sé að gera útaf við Sjálfstæðisflokkinn.
„Þegar hlaðvarp Þjóðmála hóf göngu sína virtist fylgi Sjálfstæðisflokksins vera að jafna sig, var komið nærri 28%. Nú er flokkurinn rétt með helming af því fylgi, eftir nokkurra ára tuð þessara manna yfir hvað allir nema þeir séu rosalega vitlausir. Ég held að þessi tónn sé að drepa Sjálfstæðisflokkinn, hann hefur lengi loðað við flokkinn (Davíð Oddsson á vondum degi var eitraður) en er í dag orðið það eina sem boðið er upp á, það er eins og flokkurinn sæki tón sinn í þetta furðulega hlaðvarp,“ skrifar Gunnar Smári.
Segir hann Guðrúnu Hafsteinsdóttur, formann Sjálfstæðisflokksins, og Jens Garðar Helgason, varaformann, falla í þetta sama far og tali, að mati Gunnars Smára, úr veikri stöðu og eins og allir aðrir séu asnar og landeyður.
„Það passar mjög illa við fólk sem heldur fram skoðunum sem kannski 13% fólks aðhyllist að allir aðrir séu algjörir fávitar og í raun hættulegt fólk. Þegar fíflin eru orðin svona mörg þá ert þú helsta fíflið. Það er lögmál,“ skrifar fjölmiðlamaðurinn.