
Sigurður Hólmar Jóhannesson framkvæmdastjóri Góðvildar Styrktarsjóðs skrifar:
Í hvert skipti sem kosningar nálgast fáum við að heyra sömu ræðurnar: „við ætlum að bæta líf fatlaðs fólks“, „við ætlum að tryggja réttindi“, „við ætlum að gera þetta að forgangsmáli“. Allir flokkar taka undir, allir lofa og krossa sig, allir segjast vera á bandi þeirra sem þurfa sem mest á stuðningi að halda. En þegar rykið sest og raunveruleikinn tekur við, þá gerist nánast ekki neitt. Það er eins og loforðin séu bara einnota rusl sem eru bara notuð í kosningabaráttunni og hent strax eftir talningu.
Hérna koma nokkur dæmi:
NPA var lögfest 2018 og kynnt sem stórt réttindaskref. Allir flokkar tóku undir það. Samt þarf ennþá fjöldi fólks að berjast fyrir eigin lögbundnum NPA réttindum, sveitarfélög og ríkið draga lappirnar, fjármögnun er óljós og margir sitja eftir svo árum skiptir…
Ef stjórnmálaflokkar ætla sér virkilega að breyta samfélaginu hvers vegna þarf fólk þá að fara í dómsmál eða í fjölmiðla bara til að fá það sem lögin segja?
Samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks lítur ótrúlega vel út sem forsíðufrétt, ráðherrrar grátandi og miklar tilfinningar en ef þú skoðar lögin þá kemstu að því að ef einhver brýtur lögin þá eru engin viðurlög….. Þetta er eins og að hafa umferðarlög en ef þú ferð yfir á rauðu ljósi fyrir framan lögregluna þá gerist ekkert því lögreglan hefur ekki lagalega heimild til að stoppa og sekta þig.
Biðlistar – Áratugum saman hafa allir flokkar lofað að „stytta biðlista“
Hver er staðan í dag? Biðlistar hafa aldrei verið lengri en einmitt í dag. Börn og fullorðnir bíða mánuðum og árum saman eftir tækjum, þjónustu eða greiningum.
Þetta hefur gengið svo langt að það er til heimasíða sem heitir Biðlisti.is vegna þess að þúsundir barna eru á biðlistum eftir grunnþjónustu. Þegar að forsvarskonur Biðlisti.is óska eftir að fá að tala við félagsmálaráðherra til þess að ræða þetta þjóðfélagsvandamál þá lenda þær sjálfar á biðlista sem segir meira en mörg orð.
Það að þurfa að berjast við kerfið á hverjum degi er orðið norm og það norm var skapað af öllum flokkum, ekki einum. Ef þú ferð á bráðamóttökuna í Fossvogi þá veistu að 10 klst bið eftir að fá að hitta heilbrigðisstarfsmann er orðið nýja normið. Ef foreldrar þínir geta ekki lengur búið heima vegna veikinda þá veistu að þú þarft að sinna þeim í amk 2-3 ár áður en þeir komast að á dvalarheimili. Þetta er nýja normið.
Hvað þýðir þetta allt?
Fötluðu fólki hefur verið lofað öllu mögulegu af hægri, vinstri, miðju og öllu þar á milli. Það er varla hægt að finna flokk sem hefur ekki talað um réttindi fatlaðs fólks.
En þegar horft er á það sem var lofað og það sem var framkvæmt þá lítur þetta oft út fyrir að vera bara innantóm loforð fyrir kosningar.
Það er því skiljanlegt að margir spyrji:
Hver er eiginlega tilgangurinn með því að kjósa þegar að loforðin enda í ruslatunninni?