

Illugi Jökulsson, rithöfundur og fyrrum fjölmiðlamaður, segir mynd sem birt var í dag af samtali Kristrúnar Frostadóttur forsætisráðherra við Ursulu Von der Leyen um tollamál og EES uppstilltan og hallærislegan tilbúning.
Myndin var birt á Facebook-síðu Kristrúnar kl. 11.48 í dag og stuttu síðar birti Vísir frétt um símtalið með myndina sem aðalmynd. Á sömu mínútu birti DV einnig frétt og notaði sem aðalmynd af þeim stöllum, Kristrúnu og Von der Leyen, sem aðalmynd.
Sjá einnig: Kristrún ræddi kísilmálmtollana við Ursulu von der Leyen – „Sértækt tilvik og ekki fordæmisgefandi“
Illugi rifjar í færslu á Facebook upp spjall Björns Þorlákssonar við Gunnar V. Andrésson ljósmyndara og Sigmund Erni Rúnarsson rithöfund og blaðamanna á Samstöðinni um blaðaljósmyndir fyrr og nú þar sem
„þeir spjölluðu meðal annars um hvernig alvöru blaðaljósmyndarar (og fréttamenn almennt) hafa nú miklu takmarkaðra og verra aðgengi að stjórnmálamönnum (og embættismönnum allskonar) en áður sem er mjög til vansa. En örskömmu síðar sá ég frétt á Vísir um samtal Kristrúnar Frostadóttur forsætisráðherra við Ursulu Von der Leyen um tollamál og EES. Fréttina prýðir meðfylgjandi mynd af Kristrúnu og á væntanlega að sýna hana í símanum við Ursulu.“
Gunnar starfaði sem fréttaljósmyndari í hálfa öld, frá 16 ára aldri árið 1966 og nýlega kom út bókin Segill þjóðar með á annað hundrað mynda hans þar sem Sigmundur Ernir skráir söguna á bak við myndirnar.
Illugi segir að ef myndin af Kristrúnu væri tekin af alvöru fréttaljósmyndara eins og Gunnari, þá væri myndin mjög góð mynd sem sýndi dugmikinn forsætisráðherra í axjón.
„En gallinn er sá að þessi mynd var ekki tekin af alvöru fréttaljósmyndara. Hún var tekin af einhverjum aðstoðarmanni Kristrúnar og fylgdi opinberri Facebook-færslu hennar um símtalið við Ursulu. Og strax og við vitum það, þá er þetta ekki lengur góð fréttaljósmynd. Nú er þetta uppstilltur tilbúningur, meira að segja frekar hallærislegur, með þann augljósa tilgang að sýna okkur hvað Kristrún er reffileg.“
Illugi segir Kristrúnu vissulega reffilega og myndina kannski tekna meðan á símtali Kristrúnar og Von der Leyen stóð.
„En gallinn er sá að við vitum það ekki. Þar með er myndin sjálfkrafa einskis virði og furðulegt að Vísir birti hana eins og fréttamynd (þótt vissulega sé hún merkt forsætisráðuneytinu).“
Segir Illugi myndina þannig gott dæmi um það sem Björn, Gunnar og Sigmundur voru að lýsa áhyggjum af, að blaðamenn hefðu ekki lengur sjálfstæðan aðgang að fréttaefninu.
„Fréttamiðlar birta nú þegar allt of mikið af „fréttatilkynningum“ frá opinberum aðilum sem „fréttir“ en ég hygg að það sé nýlunda að þeir birti líka svona uppstilltar „fréttamyndir“. Ég vona að þeir fari ekki lengra út á þessa braut.“