
Sjálfstæðismenn héldu fund um síðustu helgi til að peppa upp mannskapinn en erfitt var að átta sig á því í hverju það pepp átti að felast. Jú, kynnt var fótósjoppað afbrigði af gamla Sjálfstæðisfálkanum með djúpbláum bakgrunni. Og boðað að stefna flokksins yrði kynnt – síðar.
Eftir stóð að flestöllum fannst fundurinn vera tilgangslaus tímasóun. Greinilega hefur sú staðreynd orðið fólki á Morgunblaðinu áhyggjuefni og því var starfsmaður skrímsladeildar settur í að taka Guðrúnu Hafsteinsdóttur í hlaðvarpsviðtal til að útskýra hvað hún hefði eiginlega verið að segja á fundinum – eða hvað hún hefði ætlað sér að segja.
Reyndar er Svarthöfði litlu nær um það hvað Guðrún var að reyna að segja á fundinum um síðustu helgi. Honum fannst hins vegar fróðlegt að heyra hún hafði að segja um fyrirhugaða sölu flokksins á Valhöll, höfuðstöðvum flokksins.
Samkvæmt Guðrúnu er Valhöll ekki hús í hefðbundnum skilningi heldur eins konar hugtak. Færanlegt hugtak. „Sjálfstæðismenn vita það að Valhöll er þar sem við komum saman, Valhöll er víða,“ sagði Guðrún í viðtalinu. Svarthöfði veltir því fyrir sér hvort Valhöll sé í huga formannsins svona eins og uppblásinn hoppukastali sem hægt er að setja upp bara hvar sem er.
Svarthöfði veltir því líka fyrir sér hvort ekki sé bara kominn tími til þess fyrir Sjálfstæðismenn, svona úr því að þeir eru að selja Valhöll, að finna höfuðstöðvum sínum nýtt nafn. Í goðafræðinni er Valhöll bústaður Óðins og þangað fóru þeir sem féllu í valinn í bardaga og kölluðust einherjar. Þeir börðust á daginn og söfnuðust saman í Valhöll á kvöldin til að eta, drekka og skemmta sér. Sótt- og ellidauðir fóru til Heljar.
Eitthvað hefur goðafræðin skolast til hjá Sjálfstæðismönnum vegna þess að í þeirra Valhöll rís enginn frá dauðum. Raunar benda myndir af fundargestum á fundum Sjálfstæðismanna til þess að leið þeirra flestra liggi fremur til Heljar en Valhallar. Svarthöfði er samt ekki að leggja til að næstu höfuðstöðvar Sjálfstæðisflokksins verði nefndar Hel.