

Tímarnir breytast og mennirnir með – og þau gömlu sannindi munu setja mark sitt á samfélag eyjarskeggja við ysta haf það sem eftir lifir aldarinnar.
Það augljósa er að Íslendingum mun fækka, þótt þjóðinni, sjálfum íbúum landsins kunni að fjölga nokkuð verulega til að svara kalli heimanna um viðvarandi hagvöxt og æ betri lífskjör. Það verður ekki gert öðruvísi en með áframhaldandi fjölgun erlends vinnuafls sem hefur hér skemmri eða lengri viðveru – og mun margt hvert setjast hér að til langframa ásamt afkomendum sínum.
Þar af leiðandi er verkefni næstu ára að laga samfélagið að þeim aðstæðum sem blasa við, ellegar að leggjast á sveif með andstæðingum frekari fjölgunar útlendinga hér á landi, og sætta sig þar með við verulegan samdrátt í afkomu og efnahag næstu kynslóða.
Af augljósum ástæðum er fyrri kosturinn geðslegri og raunhæfari.
Og þar fyrir utan er lýðfræðilega sveiflan jafn eðlileg og hver önnur breyting á samfélagi sem lagar sig að nýjum tímum.
Lengi fram eftir öldum voru Íslendingar svo sárafáir að óvíst var um framtíð þeirra og viðkomu. Þegar miðöldum sleppti, um og upp úr 1500, hélst mannfjöldinn öldum saman undir 50 þúsund íbúum. Það var ekki fyrr en um miðja nítjándu öld sem þjóðin varð vör við einhvern vaxtarkipp, en þá komst hún loksins yfir 60 þúsunda markið. Bætt lífskjör breyttu þar öllu, svo og langtum betri verkkunnátta og tækjavæðing en áður hafði þekkst. Samt náðu Íslendingar ekki að verða 100 þúsund fyrr en fyrsti þriðjungur tuttugustu aldarinnar var liðinn. En þá fyrst tók þjóðin líka við sér. Um 170 þúsund manns bjuggu á Íslandi 1960 og hálfum mannsaldri síðar, 2015, voru þeir orðnir 300 þúsund. En þá byrjaði líka heldur betur að hægja á tímgun heimamanna. Fjölgunin hætti að vera sjálfbær.
„Það var ekki fyrr en upp úr miðri sömu öld, um það leyti sem skrifari þessara orða fæddist, sem gera mátti ráð fyrir því að allur barnaskarinn blessaðist – og drepsóttir væru loksins að baki.“
Sá sem hér lætur hugann reika fæddist á því herrans ári 1961. Þá áttu íslenskar mæður að meðaltali fjögur börn. Og mikið rétt, við systkinin vorum einmitt fjögur á Syðri-Brekkunni á Akureyri. Það álitu margir ekki mikið í hverfinu því arna. Enda fannst mér sjálfum, strákhnokkanum, flestir vina minna eiga fimm eða sex systkini. Þó aldrei jafn mörg og Sigmundur afi á Ströndum norður sem var í hópi tólf systkina um og upp úr aldamótunum 1900. Þá mátti það heldur ekki minna vera, enda allt eins líklegt að eitthvert barnanna, jafnvel helftin, heltist úr lestinni og kæmist ekki á legg sakir pesta og vesaldar.
Það var ekki fyrr en upp úr miðri sömu öld, um það leyti sem skrifari þessara orða fæddist, sem gera mátti ráð fyrir því að allur barnaskarinn blessaðist – og drepsóttir væru loksins að baki.
Sjálfur eignaðist þessi sami ritari sex börn frá því undir aldarlok og eilítið fram á þá nýju. En það þótti með öllu afbrigðilegt. Flestir vina hans reyndust honum hálfdrættingar, og sumir þó tæpast það.
Og börn hans munu örugglega fara sér hægar, og sum hver láta barneignir vera. En meðaltalið lýgur ekki; 1,5 börn eignast íslenskar konur nú að jafnaði, en til þess að Frónverjum fækki ekki þyrftu þær að lágmarki að eignast 2,1 börn á lífsleiðinni. Breytingin er alger. Ísland var í 9. sæti í Evrópu yfir fjölda barna á hverja konu um miðja síðustu öld, en er komið í 21. sæti þegar fjórðungur er af þeirri nýju.
Lýðfræðiþróunin hér á landi er því bæði augljós og eðlileg. Gangi mannfjöldaspá Byggðastofnunar og Hagstofunnar eftir – og íbúar landsins fari yfir 800 þúsund eftir hálfa öld í krafti umbeðinnar afkomu og almennilegra ævikjara, þarf engan stærðfræðing til að glöggva sig á því hvaðan mannskapurinn kemur sem á að tryggja landsmönnum lífskjör og áhyggjulaust ævikvöld.
En talandi einmitt um ellina. Nú eru ríflega 15 af hundraði landsmanna 65 ára og eldri. Um 25 prósent þeirra verða á þeim aldri eftir hálfa öld. Og hverjir eiga að sinna þeim hópi?