
Orðið á götunni er að fokið sé í flest skjól hjá Sigríði Björk Guðjónsdóttur ríkislögreglustjóra og senn fjúki í þau öll. Hún hefur orðið uppvís að ámælisverðri sóun á opinberu fé og rekstur embættis ríkislögreglustjóra virðist vera í molum.
Óhætt er að segja að það hafi komið fólki í opna skjöldu í vikunni þegar RÚV flutti fréttir af því að Sigríður Björk hefði, bæði sem lögreglustjóri höfuðborgarsvæðisins og ríkislögreglustjóri, greitt fyrirtæki með einn starfsmann 160 milljónir fyrir ráðgjöf. Tímataxtinn var 36 þúsund krónur, með virðisaukaskatti.
Síðan kom í ljós að Þórunn Óðinsdóttir, eini starfsmaður Intru, félagsins sem Sigríður Björk lét skattgreiðendur borga 160 milljónir á fimm árum, sinnti alls kyns verkefnum fyrir ríkislögreglustjóra. Meðal annars stóð hún í hinu og þessu snatti, fór í Jysk að versla, en eiginmaður hennar er stjórnarformaður Jysk, fann besta staðinn fyrir píluspjald og aðstoðaði við að velja gardínur. Allt á 36 þúsund kall á tímann.
Orðið á götunni er að alveg megi setja spurningarmerki við það að ráða Þórunni til að veita ráðgjöf um straumlínustjórnun (e. Lean Management). Þórunn er kennari að mennt með meistaragráðu í stjórnun frá Bifröst. Straumlínustjórnun er runnið úr ranni Toyota, sem er eitt stærsta og flóknasta fyrirtæki í heimi. Það er líka framleiðslufyrirtæki og flestir helstu notendur straumlínustjórnunar eru einmitt stór framleiðslufyrirtæki. Eitt af því sem kemur í veg fyrir að minni fyrirtæki taki upp straumlínustjórnun er gríðarlega hár innleiðingarkostnaður. Þá eru skiptar skoðanir um það hvort þessi nálgun geri yfirleitt mikið gagn í þjónustufyrirtækjum.
Orðið á götunni er að meðal starfsmanna ríkislögreglustjóra gangi Þórunn undir nafninu Þórunn þristur vegna þess að dagana langa hafi hún talað og skrifað um fátt annað en „þrista“ og að „skræla þrista“ en þristar ku vera hugtak úr straumlínustjórnun.
Orðið á götunni er að ríkislögreglustjóri hafi ekki hjálpað málstað sínum með fjölmiðlaframkomu undanfarna daga eða yfirlýsingum sem embætti hennar hefur sent frá sér. Almennt verði að gera þá kröfu til þeirra sem gegna æstu stöðum í íslenskri stjórnsýslu og löggæslu að þeir hafi til að bera þá dómgreind að ekki sé hægt að hafa þá að fíflum og fjárþúfu ár eftir ár eftir ár.
Í dag birtist svo á vef dómsmálaráðuneytisins minnisblað frá hópi sem ráðherra fékk til að gera úttekt á fjármálum ríkislögreglustjóra í byrjun þessa árs í kjölfar þess að lögreglustjórinn upplýsti ráðherra um viðvarandi og vaxandi yfirkeyrslu á fjárheimildum embættisins.
Í stuttu máli er niðurstaða úttektarinnar að vart standi steinn yfir steini þegar kemur að fjármálum og rekstri embættis ríkislögreglustjóra á undanförnum árum. Embættið fari ítrekað fram úr fjárheimildum og hafi ekki á nokkurn hátt lagað rekstur sinn að því að stór og óvenjuleg verkefni á við Evrópskan leiðtogafund, Covid og fleira séu nú að baki og eðlilegt að skera niður mannahald sem því nemur.
Orðið á götunni er að minnisblaðið um fjármál ríkislögreglustjóra lýsi ótrúlegri sóun embættisins, beinum ásetningi til að halda sig ekki innan þess ramma fjárheimilda sem fjárlög hverju sinni kveða á um og í raun algerum glundroða þegar kemur að áætlanagerð og utanumhaldi. Ekki þurfi að teygja sig langt til að draga þá ályktun að í minnisblaðinu sé í raun kallað eftir því að Sigríður Björk víki sem ríkislögreglustjóri, slík séu afglöpin.
Ljóst er að með því að sólunda óhemjufé í gagnslausa og rándýra „ráðgjöf“ en barma sér á sama tíma undan fjárskorti hafi Sigríður Björk glatað trausti lögreglumenna í landinu. Orðið á götunni er að hún sé búin að missa klefann og allir vita að þjálfari sem missir klefann mun ekki ná árangri. Hann verður að taka pokann sinn.
Það var svo til að bíta höfuðið af skömminni að þegar fyrirspurn barst frá RÚV um ráðgjafarsamninginn við Intru var Þórunn Óðinsdóttir snarlega ráðin í fullt starf tímabundið – á sama tíma og ráðningarbann er í gildi hjá ríkislögreglustjóra og verið er að segja upp fólki.
Orðið á götunni er að svona geri fólk einfaldlega ekki.