
Nú hefur dómsmálaráðherra boðað frumvarp til laga um jöfnun á vægi atkvæða og óhætt er að segja að það er fyllilega tímabært. Vonandi ber Alþingi gæfu til að afgreiða þetta mál fyrir þinglok í vor.
Svarthöfði hefur lengi fylgst með pólitíkinni og ítrekað orðið vitni að því, ásamt öðrum landsmönnum, að Alþingi heykist á því að veita íbúum höfuðborgarsvæðisins jafnan atkvæðarétt á við þá sem búa úti á landi. Þegar reynt hefur verið að innleiða þau sjálfsögðu mannréttindi að allir hafi jafnan kosningarétt hefur niðurstaðan ávallt orðið eitthvert bölvað skítamix sem viðheldur óréttlætinu – í raun hefur Alþingi með þessu athæfi sínu vísvitandi framið gróf mannréttindabrot trekk í trekk.
Vitaskuld er það með öllu óboðlegt að íbúum í einu landi sé mismunað með svo grófum hætti sem íslenska kosningalöggjöfin gerir. Það er fagnaðarefni að nú skuli kominn dómsmálaráðherra sem ætlar að leiðrétta þetta. Ríkisstjórnin hefur góðan meirihluta á Alþingi og margir þingmenn stjórnarandstöðunnar ættu að vera fylgjandi málinu.
Eins og málið horfir við Svarthöfða þurfa kosningalög og framkvæmd þeirra í grunninn að tryggja þrennt þegar kemur að þingkosningum. Í fyrsta lagi þarf að vera jafnræði milli þeirra stjórnmálaafla sem bjóða fram þannig að ekki sé innbyggð kosningakerfið skekkja sem leiðir til þess að einhverjir flokkar fái of marga þingmenn miðað við atkvæðafjölda og aðrir fái og fáa.
Í öðru lagi þarf að vera tryggt að hver kjósandi hafi sama atkvæðisrétt. Fullkomið jafnræði er einungis hægt að tryggja með því að hafa landið eitt kjördæmi. Vitanlega væri best að landið væri eitt kjördæmi en ef ekki er hægt að ná samstöðu um það er mikilvægt að tryggja að frávik verði innan eðlilegs ramma, t.d. 10-15 prósent að hámarki.
Í þriðja lagi þarf að vera hægt að treysta niðurstöðu kosninga.
Ekki kom það Svarthöfða samt á óvart að Morgunblaðið virðist taka hugmyndum um jöfnun atkvæðaréttar fálega. Í seinni tíð hafa leiðarahöfundar þess sjaldan ef nokkurn tíma brugðist vondum málstað. Leiðarahöfundur blaðsins í dag skrifar að eðlilegt sé að jafna atkvæðarétt , sú leiðrétting verði þó að vera hófleg og góð sátt að ríkja um hana.
Í ljósi sögunnar er vert að útskýra hvað Morgunblaðið meinar þegar það talar um að „góð sátt“ þurfi að vera um lagabreytingar. Þarna á Morgunblaðið við það að þeir sem eru á móti lagasetningunni eigi að fá sitt fram, jafnvel þótt þeir séu í minnihluta. „Góð sátt“ Morgunblaðsins þýðir í raun að minnihlutinn verði að ráða.
Rétt eins og þegar veiðigjöldin voru leiðrétt snýr Morgunblaðið jöfnun atkvæðaréttar upp í slag milli landsbyggðarinnar og höfuðborgarsvæðisins. Landsbyggðin hafi áhyggjur af því að ef vægi atkvæða verði jafnað að fullu, þannig að höfuðborgarsvæðið hafi um 2/3 þingmanna og landsbyggðin um 1/3, verði ekki tekið nægilegt tillit til hagsmuna landsbyggðarinnar. Svarthöfða er spurn: Er tekið nægilegt tillit til höfuðborgarsvæðisins nú þegar kjósendur þar hafa hálft atkvæði á við kjósendur landsbyggðarinnar?
Síðan fabúlerar leiðarahöfundur eitthvað um að stjórnarflokkarnir sæki fylgi sitt fyrst og fremst á höfuðborgarsvæðið en síður út á land. Svarthöfði er það bæði ljúft og skylt að benda leiðaraskrifara Moggans á að allir ríkisstjórnarflokkarnir fengu kosna þingmenn í öllum kjördæmum í kosningunum á síðasta ári. Því er það í besta falli kindarlegt að segja landsbyggðina afskipta hjá þessari ríkisstjórn.
Almennt er Svarthöfði mjög hlynntur hófsemi. En þegar um ræðir mannréttindabrot á borð við það að minnihluti þjóðarinnar hefur tvö atkvæði á móti hverju einu hjá meirihluta hennar er fráleitt að tala um að leiðrétting eigi að vera „hófleg“ og í „góðri sátt“. Mannréttindabrot ber að stöðva strax og það ákveðið! Ekki „hóflega“ þannig að geðþótti minnihlutans ráði því að hvaða marki meirihlutinn njóti mannréttinda. Hér á hófsemi ekkert erindi upp á dekk.