fbpx
Laugardagur 25.október 2025
EyjanFastir pennar

Kerfislega mikilvægt fyrirtæki í vanda

Eyjan
Laugardaginn 25. október 2025 10:30

Mynd: Norðurál

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Á mælikvarða heimsins er Ísland lítið land og fámennt. Kostir þess blasa við. Boðleiðir eru stuttar, atvinnuþátttaka er almenn, menntunarstig hátt og lífskjör með þeim bestu sem finnast.

En smæðinni fylgja líka gallar. Um þessar mundir er einn þeirra að koma í ljós. Frumvinnslufyrirtæki í Hvalfirði er óstarfhæft að tveimur þriðju eftir að búnaður gaf sig. Fyrir liggur að farsæld efnahagslífsins hér á landi á allt undir verðmætasköpun og vissulega eru ekki öll eggin í sömu körfunni. Sjávarútvegur gengur vel og ferðaþjónusta sömuleiðis.

Umræða um þetta óhapp í Hvalfirði einkennist hins vegar af því að stór hluti útflutningstekna þjóðarinnar sé í uppnámi. Vissulega munar um þá milljarða tugi sem útlit er fyrir að fari forgörðum. Allt ræðst það þó af því hversu langan tíma tekur að koma verksmiðjunni í fullan gang á ný.

Undir því eigum við öll þótt starfsmenn og fjöldi verktakafyrirtækja eigi þar mestu hagsmunina. Mikil ábyrgð hvílir því á herðum stjórnenda fyrirtækisins að stöðva hikstann í framleiðslunni og fá öll hjól til að snúast á ný.

Þessi staða leiðir hugann að því hvernig á því getur staðið að ekki sé til viðbúnaður ef svo færi, sem raunin varð, að spennar gefi sig sem svo augljóslega skipta grundvallarmáli í rekstrinum.

Í kjölfar bankahrunsins árið 2008 var hert á þá þegar víðtæku regluverki um fjármálafyrirtæki og eftirlit með starfsemi þeirra stóraukið. Eitt af því sem talið var til þegar litið var til baka á árin fyrir bankahrunið var að fjármálafyrirtækin voru talin of stór fyrir íslenskt efnahagslíf og fall þeirra því afdrifaríkara fyrir landið sem því nam. Í því var réttlætingin fyrir hertum reglum fólgin.

Norðurál í Hvalfirði lagði á síðasta ári til 11,4% af útflutningsverðmætum landsins eða ríflega eina krónu af hverjum tíu. Við blasir að fyrirtækið er því kerfislega mikilvægt fyrirtæki, rétt eins og stærstu bankarnir hér á landi með allt sitt regluverk sem þeim ber að fylgja.

Það er umhugsunarefni að fyrirtækjum sem svipað er ástatt um og Norðuráli, kerfislega mikilvægu fyrirtæki, sé í sjálfsvald sett að stofna til viðlíka áhættu og upp er komin vegna þess að búnaður þess gaf sig; spennar sem ættu nánast að vera til á lager fyrirtækisins. Enda virðast spennar þessir illfáanlegir – hverju sem það er um að kenna.

Vel má vera að sá búnaður sé fokdýr og ekki séu ráð á að eiga slíka varahluti í framleiðslulínuna. En það er líka fokdýrt að missa út tvo þriðju framleiðslunnar um margra vikna, mánaða eða jafnvel misseris skeið með ófyrirséðum afleiðingum.

Hér er ekki verið að mæla fyrir því upp verði tekið almennt eftirlit með atvinnufyrirtækjum landsins, nóg er af því. En er ekki lágmark að fyrirtæki sem hafa kerfislega mikilvæga stöðu séu sett einhver viðmið um viðbúnað við atvikum sem upp geta komið og raska þannig hagsmunum óralangt út fyrir lóðamörk verksmiðjunnar?

Nefnt er að lokum að upphrópanir á Alþingi hjálpa ekki neitt. Úr því sem komið er sýnist farsælast að gefa fyrirsvarsmönnum álversins ráðrúm til að ráða fram úr stöðunni. Það er svo á sínum stað að stjórnvöld hafa sett hóp saman til að fylgjast með framvindunni og styðja við endurreisn framleiðslunnar.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Slot tjáir sig um Isak
EyjanFastir pennar
Fyrir 1 viku

Svarthöfði skrifar: Keppni hafin í lýðskrumi án atrennu – Miðflokkurinn tekur forystuna

Svarthöfði skrifar: Keppni hafin í lýðskrumi án atrennu – Miðflokkurinn tekur forystuna
EyjanFastir pennar
Fyrir 1 viku

Svarthöfði skrifar: Milljarðafyrirtækin barma sér vegna fjölmiðlastyrks sem ætti ekki að skipta þau neinu máli

Svarthöfði skrifar: Milljarðafyrirtækin barma sér vegna fjölmiðlastyrks sem ætti ekki að skipta þau neinu máli
EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Nína Richter skrifar: Bréf frá „Fuckboy“

Nína Richter skrifar: Bréf frá „Fuckboy“
EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Þorsteinn Pálsson skrifar: Skortur á skilningi

Þorsteinn Pálsson skrifar: Skortur á skilningi
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Nína Richter skrifar: Þegar Play ýtti á stopp

Nína Richter skrifar: Þegar Play ýtti á stopp
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Þorsteinn Pálsson skrifar: Verðfall í búð reynslunnar

Þorsteinn Pálsson skrifar: Verðfall í búð reynslunnar
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Sigmundur Ernir skrifar: Frelsi er sumsé fyrir þá heppnu og útvöldu!

Sigmundur Ernir skrifar: Frelsi er sumsé fyrir þá heppnu og útvöldu!
EyjanFastir pennar
Fyrir 4 vikum

Óttar Guðmundsson skrifar: Stóra lykkjumálið

Óttar Guðmundsson skrifar: Stóra lykkjumálið