
Glæsilegur kvennafrídagur er að kvöldi kominn. Tugþúsundir kvenna og kvára þyrptust niður á Arnarhól og Lækjartorg, og jú, einhverjir karlar voru líka í hópnum til að sýna samstöðu. Dagur sem byrjaði dimmur og blautur reif af sér skýjahuluna og sólin baðaði tugþúsundir með geislum sínum. Slíkur er samtakamáttur íslenskra kvenna að jafnvel veðrið er kveðið í kútinn.
Hálf öld er síðan kvennafrídagurinn var haldinn á Íslandi á kvennaári Sameinuðu þjóðanna. Þá komu minnst 25 þúsund konur saman til að mótmæla launamisrétti í landinu og reyndar ýmsu öðru misrétti. Svarthöfði man þetta eins og gerst hefði í gær, enda var hann í manhafinu á Lækjartorgi 24. október 1975. Enginn skóli var eftir hádegi þann dag vegna þess að kennari Svarthöfða lagði niður störf og skundaði niður á torg. Skólafélagarnir nýttu margir fríið til að fara í fótbolta en ekki Svarthöfði. Hann fór á Lækjartorg og upplifði andartakið og hreifst með.
Fjöldinn í miðbænum í dag var tvöfalt meiri en fjöldinn fyrir hálfri öld. Greinilega var gleðin við völd og baráttueldurinn í hjörtum íslenskra kvenna er hvergi nærri kulnaður. Flestir vinnustaðir voru ýmist lamaðir eða á hálfum afköstum. Það munar um framlag íslenskra kvenna í atvinnulífinu – ekki síður nú en fyrir 50 árum, jafnvel meir, enda má ætla að atvinnuþátttaka kvenna hafi aukist frá 1975 til 2025.
Kvennafrídagurinn 1975 varð eins konar upphaf að mikilli jafnréttissókn hér á landi. Næstu árin á eftir urðu viðburðarík. Vigdís Finnbogadóttir var kjörin forseti Íslands fimm árum síðar, það fæddist kvennaframboð í Reykjavík og Kvennalistinn kom, sá og sigraði og allt í einu fór konum að fjölga í sveitarstjórnum og á Alþingi. Árið 2021 hefðu konur komist í meirihluta á Alþingi Íslendinga ef formaður kjörstjórnar í Norðvesturkjördæmi hefði verið starfi sínu vaxinn og stjórnarmeirihlutinn á Alþingi hefði virt lög og reglur og látið einu talninguna sem hægt var að treysta gilda. Gleymum því ekki að konur náðu meirihluta á þingi í þeim kosningum en misvitrir karlar höfðu það af þeim.
Það er nefnilega svo, að jafnvel þótt konur séu nú ráðandi í ríkisstjórn, kona í embætti forseta Íslands, kona biskup, borgarstjóri, ríkislögreglustjóri, ríkissaksóknari og svo mætti jafnvel lengi telja, að jafnrétti er ekki náð. Enn eru til karlar í valda- og áhrifastöðum sem leggja steina í götu kvenna og reyna að segja stopp, hingað og ekki lengra! Og það eru ekki bara karlar. Til eru konur sem sjá einhverra hluta vegna ofsjónum yfir kvennabaráttunni.
Svarthöfði er sannfærður um að Samtök atvinnulífsins, með Sigríði Margréti Oddsdóttur í broddi fylkingar, hafi ekki skorað, nema kannski sjálfsmark, með því að birta sérstaka yfirlýsingu þar sem kvennaverkfallið í dag er í raun fordæmt á þeim forsendum að atvinnulífið geti ekki haldið fullum dampi þennan eina dag. Sigríður Margrét áttar sig kannski ekki á því en hún á þeim hugrökku konum sem stóðu fyrir kvennafrídeginum 1975 – og ekki síður öllum þeim sem lögðu niður störf og mættu niður á Lækjartorg – mikið að þakka. Það er þessum konum að þakka að í dag er bara sjálfsagt að kona gegni embætti forsætisráðherra, embætti forseta Íslands, embætti biskups Íslands, já, og að kona sé framkvæmdastjóri heildarsamtaka íslenskra atvinnurekenda. Þetta gerðist ekki af sjálfu sér, þetta gerðist ekki af því bara.
Svarthöfði er á því að Sigríður Margrét Oddsdóttir og ýmsir aðrir sem hafa séð ástæðu til að stíga fram og tala um að kvennaverkfall sé tímaskekkja, fullu jafnrétti sé náð og konur standi jafnvel körlum framar í samfélaginu í dag, ættu kannski að staldra við og hugsa málin betur. Það vinnst aldrei fullnaðarsigur í baráttunni fyrir jafnrétti og réttlátara samfélagi. Ekki þarf að líta lengra en til helstu bandaþjóðar Íslands til að sjá hve hratt er hægt að snúa tímahjólinu við og snúa aftur til fortíðar.
Svarthöfði áttar sig á því að fögur og slétt áferð þýðir ekki að allt sé í lagi þegar skyggnst er undir yfirborðið. Hann áttar sig líka á því að frelsi og jafnrétti er eitthvað sem þarf ávallt að berjast fyrir með kjafti og klóm, annars getur það sem áunnist hefur glatast og það hratt.
Þess vegna er svo mikilvægt að íslenskar konur skyldu halda upp á 50 ára afmæli kvennafrídagsins af svo miklum glæsileik sem raun ber vitni. Kvennafríið 1975 varð kveikjan að stórsókn til jafnréttis og óhætt er að fullyrða að 24. október 1975 spilar sterka rullu í því að Ísland er meðal þeirra landa þar sem mest jafnrétti er. Kvennaverkfallið í dag var táknrænt, rétt eins og kvennafrídagurinn fyrir hálfri öld. Táknrænt er mikilvægt eins og sýndi sig þá. Enn er verk að vinna.