Í þjóðsögunni um Skúla Magnússon segir frá því þegar hann sem búðarmaður í verslun fékk fyrirmæli frá búðareigandanum um að setja röng lóð á vogarskálarnar, viðskiptavinunum í óhag. „Mældu rétt strákur“ var skipunin sem í raun átti við hið gagnstæða.
Í dag er mjög erfitt að mæla rangt. Hraði, vegalengd, tími og þyngd er mæld með mikilli nákvæmni. Þyngd hluta og lengdir hafa verið fest í alþjóðlega staðla metrakerfisins sem var fundið upp í Frakklandi árið 1799. Þyngdaraflið er það sama um allan heim og í öllum heiminum er nú miðvikudagurinn 22. október árið 2025.
Fyrr á öldum voru lengdir og verð hluta voru mæld í alin og kýrverði eins og segir á Vísindavefnum: „Lengdarmálseiningin alin er fjarlægðin frá olnboga fram fyrir fingurgóm, oftast góm löngutangar en stundum þumalfingurs. 120 álnir af vöruvaðmáli jafngiltu lengi einu kýrverði“.
Áður fyrr voru notuð sólúr og steinaraðir til að mæla tímann. Eyktamörk voru notuð á Íslandi en þau voru fastir staðir sem sólina bar í á vissum tímum dags.
Hugmyndin um að telja ár frá fæðingu Jesú Krists var fyrst sett fram árið 525 af Exiguus, kristnum munki á Ítalíu. Kerfið breiddist út um Evrópu og hinn kristna heim á næstu öldum. Fram að því voru ártöl yfirleitt miðuð við ár frá fæðingu eða dauða konunga, keisara eða páfa.
Ekki er víst að Ingólfur Arnarson hafi vitað hvaða ár hann kom til Íslands enda heitir Landnámssýningin í Aðalstræti 874 +/-2 ár. Kristnitakan á Alþingi var árið 999 eða 1000.
Gamla íslenska dagatalið hafði 12 mánuði skipt niður í tvo hópa af sex mánuðum sem voru kallaðir „vetrarmánuðir“ og „sumarmánuðir“. Hver mánuður byrjaði alltaf á sama vikudegi. Þess vegna byrjar Þorri alltaf á föstudegi og Góa byrjar alltaf á sunnudegi.
Samræmdur alheimstími (e. UTC) var tekinn upp árið 1960. Hann tryggir að allir jarðarbúar eru á sömu sekúndu og mínútu hverju sinni þó að klukkutímarnir séu mismunandi. Nýkominn frá Japan er ég að skrifa þennan pistil klukkan þrjú að nóttu enda er komið hádegi á líkamsklukkunni minni.
Mæling árangurs í íþróttum er oftast einfalt mál. Sú eða sá sem stekkur hæst eða lengst, hleypur eða syndir hraðast eða kastar spjóti eða kúlu lengst vinnur. Það lið sem skorar flest mörk eða fer golfhringinn á fæstum höggum vinnur.
Árangur stjórnmálaflokka mælist í atkvæðafjölda í frjálsum kosningum og hvort þeir komast í ríkisstjórn.
Árangur fyrirtækja mælist í hagnaði og arðsemi en einnig í frammistöðu í umhverfis- og samfélagsmálum, ánægju starfsmanna og viðskiptavina.
Persónulegan árangur er erfitt að mæla en við vitum það öll að hann tengist góðri heilsu, góðum tengslum við okkar nánustu fjölskyldu og vini, fjárhagslegu sjálfstæði og frelsi til að nota tímann í það sem okkur þykir mikilvægast í lífinu.
Í næstum hundrað ár hafa aðallega tvær mælingar verið notaðar til að meta hversu vel land stendur sig efnahagslega. Ein þeirra er verg landsframleiðsla á mann og hin er hagvöxtur sem mælir aukningu á landsframleiðslu milli ára.
Verg landsframleiðsla (e.gni/ppp) er mælikvarði sem segir hversu mikið er framleitt af tilbúnum vörum og þjónustu á einu ári. Sé henni deilt með íbúafjölda eru 16 Evrópulönd í efstu 20 sætunum af um 200 löndum í heiminum árið 2024 samkvæmt mælingum Alþjóðabankans. Ísland er í sjötta sæti.
Þessi mæling hefur verið gagnrýnd þar sem hún tekur ekki tillit til þess hvort efnahagsstarfsemin veldur því að gengið er á náttúruauðlindir eða valdi umhverfismengun. Stríðsrekstur eykur landsframleiðslu hjá þeim sem framleiða stríðstól. Tjón sem krefjast viðgerða og náttúruhamfarir sem krefjast uppbyggingar á mannvirkjum og innviðum auka landsframleiðslu
Hagvöxtur hefur einnig sínar dökku hliðar sem tengjast umhverfismálum og minnkun auðlinda og náttúrugæða.
Auk mælingar á landsframleiðslu þarf, til að meta árangur þjóða, að taka tillit til félagslegra framfara í landinu og grundvallarréttinda þegnanna.
Sem dæmi má nefna aðgang að menntun, mat og húsnæði á viðráðanlegu verði, gæði heilbrigðiskerfis, innviða, og velferðarkerfis. Einnig þarf að meta stöðu jafnréttismála, umhverfisgæða, matvælaöryggis og gæði menningarlífs í landinu.
Þegar ofangreindir mælikvarðar eru teknir með í myndina eru flestir sammála að Evrópulönd standa sig best meðal heimsálfa í heiminum.
Í Evrópusambandinu og EES geta íbúarnir valið hvar þeir vilja búa, stunda nám og starfa. Þeir geta stundað landamæralaus ferðalög. Hluti ESB landanna notar sameiginlegan gjaldmiðil sem hefur tryggt lága vexti og stöðugleika á síðustu árum. ESB tryggir stuðning og samstöðu á neyðartímum vegna náttúruhamfara, efnahagskreppu eða heimsfaraldurs. Auk þess hefur ESB tryggt frið í um 70 ár innan sinna landamæra.
Ferðafrelsi, mannréttindi, umhverfisgæði, matvælaöryggi, heilsugæsla, menntunarmöguleikar og lífsgæði innan Evrópulanda eru með því besta sem gerist í heiminum í dag.
Við sitjum í öllum efstu sætum lífsgæða, jafnréttis og efnahags í heiminum. Þó má geta þess að hagvöxtur á Íslandi á árinu 2024 var með því lægsta í Evrópu eða aðeins um 0,6% og verðbólga ein sú hæsta á Vesturlöndum.
En dökka hliðin á okkar frammistöðu eru þeir okurvextir sem við þurfum að greiða af húsnæðis- og fjárfestingarlánum.
Höfuðorsökin liggur í örgjaldmiðli okkar sem krefst vaxtaálags á öll lán sem veldur því til dæmis að húsnæðislán eru um þrisvar til fjórum sinnum dýrari en hjá nágrannalöndum okkar.
Að vísu færa öll stærstu útflutningsfyrirtæki landsins sín reikningsskil í erlendum gjaldmiðlum. Þau hafa því í raun hætt notkun krónunnar og geta þannig tekið lán í erlendum gjaldmiðlum á mun hagstæðari kjörum.
Á meðan þurfa meðalstór og minni fyrirtæki og einstaklingar að taka lán sín ýmist í verðtryggðum krónum eða óverðtryggðum á okurvöxtum krónuhagkerfisins. Reiknað hefur verið út að krónan kosti okkur daglega yfir einn milljarð í auka útgjöldum.
Með þetta í huga þurfum við að gæta að því hvernig við mælum lífskjörin á Íslandi með réttum hætti en ekki eins og Skúli fógeti á sínum tíma.
Höfundur er stjórnarmaður í Evrópuhreyfingunni: www.evropa.is