Snorri beindi fyrirspurn til ráðherra þar sem hann lýsti yfir áhyggjum af stöðu íslenskunnar, sem er málefni sem hefur staðið þingmanninum nærri hjarta síðan hann hóf pólitískan feril sinn fyrir skömmu. Lagði hann til að ráðherra beitti sér fyrir því að RÚV leggi niður alla starfsemi á öðrum tungumálum en íslensku. Undantekningar mætti gera frá þessu í almannavarnaskyni ef tilefni væri til. Að mati þingmanns eigi enska, pólska og önnur erlend mál að falla á brott í almennri umfjöllun.
Logi svaraði þingmanninum og vísaði til þess að Ísland hafi í talsverðan tíma reitt sig á erlent vinnuafl. Hér búi tugir þúsunda einstaklinga sem í styttri eða lengri tíma leggja sitt af mörkum til að halda uppi hagvexti og verða hluti af samfélagi okkar. Þetta fólk eigi réttindi eins og aðrir og væri Ríkisútvarpið að bregðast skyldum sínum ef það kæmi ekki lágmarksskilaboðum á framfæri til þessa hóps. Logi bauðst þó til að setjast niður með þingmönnum og öðrum sem vilja ræða um hvernig sé hægt að standa vörð um íslenskuna.
Snorri kom þá upp í annað sinn og kom með aðra sparnaðarhugmynd fyrir Ríkisútvarpið. Sú tillaga varðaði „skemmtiefni sem sumt hvert er orðið hálfgerður pólitískur áróður“. Þingmaðurinn vitnaði svo í Gísla Martein Baldursson sem er með þættina Vikan með Gísla Marteini. Gísli hafi sagt:
„Almannaútvarp eins og RÚV hefur aldrei verið mikilvægara en núna á tímum upplýsingaóreiðu og uppgangs þjóðernis-íhaldssinnaðra lýðskrumara …“
Spurði Snorri hvort Logi væri sammála því að Ríkisútvarpinu bæri að stemma stigu við tilteknum pólitískum hugmyndum.
Logi svaraði að Ríkisútvarpið eigi að sinna hlutlægum og málefnalegum leikreglum og varpa ljósi á alls kyns viðhorf.
„Mér finnst almennt að Ríkisútvarpið geri það. Hins vegar er alveg sjálfsagt að hvert og eitt okkar hafi skoðun á því hvort það er að rækja það hlutverk eða ekki. Nei, mér finnst að Ríkisútvarpið eigi ekki að stunda innrætingu ef það er það sem hæstvirtur þingmaður er að vísa í.“
Logi hélt svo áfram og bætti við að almennt eigi ráðherra ekki að blanda sér beint inn í dagskrárgerð Ríkisútvarpsins, en þá greip Snorri fram í og sagðist sammála. Þingmaðurinn var skammaður af forseta fyrir vikið. Logi vildi þó vita hverju Snorri væri sammála en forseti stöðvaði frekari orðaskipti og brýndi fyrir viðstöddum að virða reglur Alþingis.
Logi lauk máli sínu með því að ítreka að Ríkisútvarpið eigi að sinna hlutlægum og hlutlausum fréttaflutningi, það eigi að varpa ljósi á mál úr ýmsum áttum og að mati ráðherra er verið að rækja það hlutverk með ágætum.
Miðflokksmenn töldu greinilega að það hafi ekki komið nægilega skýrt fram að Snorri væri ekki að biðja ráðherra um að skipta sér af dagskrárgerð. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson kvað sér hljóðs um fundarstjórn forseta og óskaði eftir því að Logi yrði minntur á að hann eigi bara að svara því sem hann er spurður um en ekki að ræða eitthvað allt annað.
Sigmundur fór ekki nánar út í það hvað hann meinti, enda er það augljóst. Logi hafi þarna svarað því að hann telji það ekki sitt hlutverk sem ráðherra að hafa bein afskipti af dagskrárgerð. Með þessu væri ráðherrann að gefa til kynna að það sé eitthvað sem Miðflokksmenn vilji. Þarna hafi ráðherrann farið út fyrir fyrirspurn Snorra.
Á eftir Sigmundi kom Snorri aftur í pontu og sagðist þurfa að bera hönd fyrir höfuð sér. Hann hafi bara verið að spyrja ráðherra hvort hann væri sammála tiltekinni yfirlýsingu Gísla Marteins eða ekki. Því hafi ráðherrann ekki svarað.
En er þetta rétt hjá Miðflokksmönnum? Snorri sagði í seinni fyrirspurn sinni að nú væri hann að bera upp aðra sparnaðartillögu varðandi dagskrárefni sem líkja mætti við pólitískan áróður. Þetta orðalag gefur til kynna að hann telji rétt að slíku dagskrárefni sé slaufað. Vísaði Snorri svo sérstaklega til Gísla Marteins og ummæla hans um hlutverk Ríkisútvarpsins á tímum uppgangs þjóðernissinnaðra lýðskrumara.
Spurningin sem hann bar upp í lokin var ekki hvort ráðherra væri sammála Gísla Marteini sjálfum heldur hvort það eigi að vera hlutverk Ríkisútvarpsins að beita sér gegn tilteknum pólitískum hugmyndum.
„Virðulegur forseti. Ég nefndi þetta vegna þess að þetta er ein hugmynd til að standa vörð um stöðu íslenskunnar í opinberu lífi og í samfélaginu. En hæstv. menningarráðherra líst ekki á þetta af einhverjum ástæðum sem hann svo sem útlistaði. Fyrst við erum komin hérna í næstu fyrirspurn þá myndi ég kannski fara í næstu niðurskurðarhugmynd hjá Ríkisútvarpinu og það væri kannski á sviði skemmtiefnis sem sumt hvert er orðið hálfgerður pólitískur áróður. Ég ætla að vísa hér í hugmyndafræðilegan ritstjóra Ríkisútvarpsins, Gísla Martein Baldursson, sem skrifar með leyfi forseta:
„Almannaútvarp eins og RÚV hefur aldrei verið mikilvægara en núna á tímum upplýsingaóreiðu og uppgangs þjóðernis-íhaldssinnaðra lýðskrumara …“
Þetta er stefnumarkandi yfirlýsing sem ég hef óskað eftir að hæstv. ráðherra bregðist við, ekki við Gísla Marteini í sjálfu sér heldur hvort hæstv. ráðherra sé sammála því að Ríkisútvarpið gegni því hlutverki í okkar samfélagi að stemma stigu við tilteknum pólitískum hugmyndum. Er hæstv. ráðherra sammála því eða ekki, alveg óháð því hver talar í þessari tilvitnun?“
Logi svaraði því til að hann teldi ekki hlutverk sitt að skipta sér af dagskrárvaldi Ríkisútvarpsins. Eins svaraði ráðherra berum orðum spurningu Snorra um hlutverk RÚV.
„Nei, mér finnst að Ríkisútvarpið eigi ekki að stunda innrætingu ef það er það sem hæstvirtur þingmaður er að vísa í.“